Vefmyndavél

Klaustursnámskeið

Nú býðst frábært tækifæri til að fínpússa tæknina fyrir Klaustur!
Laugardaginn 19. maí mun íslenska landsliðið í ISDE „Six Days“ 2012 halda þriggja tíma námskeið í Enduro tækni með það að markmiði að undirbúa keppendur fyrir Klausturskeppnina sem fer fram um aðra helgi.

Námskeiðið verður haldið á Bolaöldusvæðinu laugardaginn 19. maí á milli kl. 10:00 og 13:00, mæting er við húsið og haldið verður þaðan inn í Bruggaradal þar sem æfingin mun fara fram.

Farið verður um valin svæði sem henta til æfinga fyrir Klausturskeppnina með það í huga að undirbúa þáttakendur fyrir skemmtilegustu keppni ársins.

Meðal þess sem kennt verður:

  • Grunnstillingar á hjóli og ökumanni
  • Startæfingar
  • Beygjuæfingar
  • Bremsun
  • Sitja eða standa
  • Röttar
  • Fara upp/niður moldarbarð

Verð fyrir námskeiðið er 10 þúsund og munu þáttakendur fá ISDE 2012 Team Iceland bolinn við komu á Klaustur.   Allur ágóði rennur í fararsjóð liðsins, meira um keppnina og undirbúning liðsins síðar.

Áhugasamir vinsamlega sendið tölvupóst á agustbjornsson@gmail.com eða hafið samband í s 895 2123.

Lesa meira af Klaustursnámskeið

ISDE 2012 undirbúningur hafinn

Íslenska landsliðið í Enduró hefur opnað Facebook síðu fyrir keppnina ár og hér eru opnunarorðin þeirra:

Nú er undirbúningur strax hafinn fyrir ISDE 2012 sem fer fram í Þýskalandi í ár þann 24-29. september. Við höfum úr gríðarlega flottum hóp ökumanna að velja en endanlegt landslið verður ekki valið strax, enda langt í keppnina og margt sem getur komið uppá. Þó verður undirbúningur að byrja strax enda þarf skráning í keppnina að berast núna strax í febrúar.

Endilega „like-ið“ síðuna og fylgist með fréttum af undirbúningi íslenska landsliðsins í enduro 2012 !

Heimamenn sigruðu í ISDE – Ísland í 16.sæti

Finnarnir fagna sigrinum

Íslendingar enduðu í 16. og næstsíðasta sætinu í International Six Days enduro (ISDE) keppninni sem lauk um helgina. Íslendingarnir stóðu sig þó mjög vel í þessari gríðarlega erfiðu keppni sem er einhver mesta þolraun sem fyrirfinnst, að ljúka keppninni er stórvirki útaf fyrir sig. Keppnin var haldin í Finnlandi og fóru heimamenn með sigur af hólmi.

Íslenska liðið varð fyrir því óláni að missa mann strax út á öðrum degi, næsta mann á þriðja degi og þriðja manninn á fjórða degi. Með aðeins þrjá ökumenn eftir í sex manna liði er enginn séns að vinna sig upp af botninum. Íslandsmeistarinn, Kári Jónsson, sem datt út á þriðja degi var búinn að sýna fantaakstur og skaut heimsfrægum kempum afturfyrir sig í nokkrum „Special test“ hlutum keppninnar er þar er keppt í stuttan tíma þar sem hvert sekúndubrot er dýrt.

Næsta keppni fer fram að ári í Þýskalandi og 100 ára afmælismótið fer fram á eynni Sardínu á Ítalíu árið 2013.

Hér kemur síðasti pistillinn frá liðinu en safn þeirra má annars sjá hér:

Þvílíkur áfangi, síðasti keppnisdagurinn var runninn upp og það leyndi sér ekki ánægjan á mannskapnum. Það voru þó þrír keppendur eftir í landsliðinu sem stefndu á að klára sína fyrstu Six Days keppni þennan dag !

Lesa meira af Heimamenn sigruðu í ISDE – Ísland í 16.sæti

Dagur 9, næstsíðasti keppnisdagurinn

Fimmti keppnisdagurinn liðinn og með herkjum voru það ennþá þrír sem komu í mark 😉 !

 

Dagurinn byrjaði venjulega á sveitasetrinu og svo var brunað af stað niður í pitt. Í 10 mínútna viðgerðarstoppinu fór ég beint í að pakka hljóðkútinn upp á nýtt svo ég félli ekki aftur á hljóðtesti því þá yrði ég dæmdur úr keppni. Árni skipti um keðju og framtannhjól og pabbi skipti um pústpúða. Gamli var á tíma út í start, Árni var nokkrum mínútum of seinn og svo tafðist ég slatta í þessum pústmálum og komst loks 13 mínútum of seint af stað.

Lesa meira af Dagur 9, næstsíðasti keppnisdagurinn

Áttundi dagurinn á ISDE

Fjórði keppnisdagurinn er búinn og enn einn maðurinn dottinn út…

 

Dagurinn byrjaði aftur með úrhellisrigningu og niðrí pitt var nóg framundan. Ég kom fyrstur inn og þurfti að bæta tein í afturgjörðina og setja nýjan keðjusleða, ég náði að smella keðjusleðanum í og henda einni skrúfu áður en ég hljóp út í start, þurfti svo að klára að setja restina af skrúfunum í hinum megin við hliðið. Árni græjaði loftsíu og bremsuklossa, Daði þurfti lítið að græja og Stebbi skipti um bremsuklossa og strekkti á keðjunni.

Lesa meira af Áttundi dagurinn á ISDE

Daði er dottin út líka

af facebook:
Klara Jónsdóttir
Var að heyra í Kára og Daði er víst dottinn út líka, festist illa í mýrarleðjunni sem er þarna og hjólið bilað….Kári var að leggja sig allan fram við að halda Jonna inni í kepnninni, brunandi á milli pitta með varahluti, núna nýja keðju. Jarðvegurinn og drullan þarna er að éta upp keðjur, tannhjól, bremsuklossa og menn eru að detta út í hrönnum af ótrúlegustu ástæðum. Restin verður erfið en vonandi að þeir sem eftir eru nái að klára!

Síða 2 af 612345...Síðasta »