Heimamenn sigruðu í ISDE – Ísland í 16.sæti

Finnarnir fagna sigrinum

Íslendingar enduðu í 16. og næstsíðasta sætinu í International Six Days enduro (ISDE) keppninni sem lauk um helgina. Íslendingarnir stóðu sig þó mjög vel í þessari gríðarlega erfiðu keppni sem er einhver mesta þolraun sem fyrirfinnst, að ljúka keppninni er stórvirki útaf fyrir sig. Keppnin var haldin í Finnlandi og fóru heimamenn með sigur af hólmi.

Íslenska liðið varð fyrir því óláni að missa mann strax út á öðrum degi, næsta mann á þriðja degi og þriðja manninn á fjórða degi. Með aðeins þrjá ökumenn eftir í sex manna liði er enginn séns að vinna sig upp af botninum. Íslandsmeistarinn, Kári Jónsson, sem datt út á þriðja degi var búinn að sýna fantaakstur og skaut heimsfrægum kempum afturfyrir sig í nokkrum „Special test“ hlutum keppninnar er þar er keppt í stuttan tíma þar sem hvert sekúndubrot er dýrt.

Næsta keppni fer fram að ári í Þýskalandi og 100 ára afmælismótið fer fram á eynni Sardínu á Ítalíu árið 2013.

Hér kemur síðasti pistillinn frá liðinu en safn þeirra má annars sjá hér:

Þvílíkur áfangi, síðasti keppnisdagurinn var runninn upp og það leyndi sér ekki ánægjan á mannskapnum. Það voru þó þrír keppendur eftir í landsliðinu sem stefndu á að klára sína fyrstu Six Days keppni þennan dag !

Eftir morgunmatinn á sveitasetrinu héldum við niður á bryggju í pittinn en þurftum ekki að vera alveg eins snemma í því og venjulega þar sem startröðin var öfug og Club gæjarnir byrjuðu. Ég átti að fara fyrstur af Íslendingunum af stað 8.58, svo rétt á eftir Árni og þar á eftir gamli. Síðasti dagurinn á Six Days er nefnilega bara motocross test og við fengum 10 mínútna viðgerðarhlé fyrir startið eins og venjulega, síðan var keyrð ferjuleið upp að motocrossbrautinni og þar var time check, þá fengum við 15 mínútna viðgerðarhlé aftur og svo fóru hjólin í Parc Fermé þar til kom að okkar motocross híti.

Þegar við þrír vorum allir komnir með hjólin í Parc Fermé tók við tjill fram að hítunum okkar. Við fórum og horfðum aðeins á Club flokkana keyra og brautin var svaka flott, jarðvegurinn minnti svoldið á MotoMos. Club keyrararnir voru margir virkilega hraðir og gaman að sjá þá keyra. Ég var í E1 hægari hítinu og loks kom að þessu. Hítið var 7 hringir og við fengum skoðunarhring fyrst. Ég var bara spenntur fyrir þessu en allir Íslendingarnir og meira að segja lið frá öðrum þjóðum sem hafði hjálpað mér daginn áður stóð með krosslagða fingur um að hjólið myndi halda þetta út og koma mér í gegnum síðasta testið. Útúr startinu rauk svo græjan en startið var nú ekkert spes, en fljótlega náði ég ágætis tempói og náði að keyra nokkra uppi. Síðustu tvo hringina var ég svo í hörku race-i við Svisslending og endaði með því að við komum alveg samsíða yfir endastökkspallinn. Þá var ekkert nema brosið á öllum og ég orðinn fyrsti Íslendingurinn til að klára Six Days keppni !

Árni var svo í næsta híti, E2 hægari. Hann rauk útúr startinu og var að keyra mjög flott. Fljótlega var hann kominn í sitt sæti og hélt því flott út hítið með nokkra fyrir aftan sig. Two down, one to go ! En pabbi átti ekki að fara fyrr en í síðasta híti dagsins E3 sem var bara eitt hít en ekki skipt í tvö eins og E1 og E2.

Í militíðinni fórum við og horfðum á E1 og E2 hraðari og váá hvað það var svakalegt. Finninn Eero Remes í E1 flokknum var alveg geðtruflaður, hraðinn á gæjanum var lygilegur. Sáum svo Kurt Caselli frá USA sigra E2 eftir svaka baráttu. Næst var svo komið að síðasta híti dagsins, E3, og þar var pabbi gamli ! Finninn Marko Tarkkala sigraði hítið með svaka akstri og gamli seiglaðist í gegnum þetta og þá var það ljóst að það voru 3 íslenskir kappar búnir að ljúka sinni fyrstu Six Days keppni ! Eftir síðasta hítið voru kappar frá Isle of Man mættir á ráslínu á eldgömlum 90cc Hondum og tóku race í brautinni, þeir voru allir klæddir í svaka hermannafrakka og menn buguðust úr hlátri þegar einn spikfeitur gæji var með girt niðrum sig á hjólinu og hjólið rétt meikaði það upp pallana. Finnarnir sem voru búnir að sigra keppnina tóku svo sigurhring um brautina á svona hjólum áður en verðlaunaafhending fór fram !

Það var ekki leiðinleg stemmning í hópnum þegar við gengum frá pittinum og héldum heim á sveitasetrið. Pabbi og Árni keyrðu á hjólunum heim en Kawa greyið mitt var sett um borð í sendlann, enda orðin ansi lúið. Heima var svo farið í að ganga frá dótinu. Við Kári og Þorri drifum okkur í góða veðrinu niður í á að leika okkur á bátunum og fíflast. Síðan skelltu sér allir í fínni fötin og við héldum niður í bæ þar sem lokahóf ISDE 2011 fór fram í stórri skemmu þar sem aðal pitturinn var. Þar var aftur verðlaunaafhending og allskyns aukaverðlaun gefin, t.d. nýliðaverðlaunin sem Norðmenn fengu. Við bölvuðum þessu þar sem að við vorum fyrir ofan þá þar til að við misstum 3 manninn út. Eftir þetta allt héldum við svo heim á sveitasetrið og hentum okkur í koju.

Geggjaður dagur alveg hreint !

Kv. Jonni

Úrslitin með tímum eru hér (íslenska liðið keppti í flokknum World Trophy)

Fréttatilkynning um úrslitin í keppninni (á ensku)

Skildu eftir svar