Dagur 9, næstsíðasti keppnisdagurinn

Fimmti keppnisdagurinn liðinn og með herkjum voru það ennþá þrír sem komu í mark 😉 !

 

Dagurinn byrjaði venjulega á sveitasetrinu og svo var brunað af stað niður í pitt. Í 10 mínútna viðgerðarstoppinu fór ég beint í að pakka hljóðkútinn upp á nýtt svo ég félli ekki aftur á hljóðtesti því þá yrði ég dæmdur úr keppni. Árni skipti um keðju og framtannhjól og pabbi skipti um pústpúða. Gamli var á tíma út í start, Árni var nokkrum mínútum of seinn og svo tafðist ég slatta í þessum pústmálum og komst loks 13 mínútum of seint af stað.

 

Það var búið að breyta fyrir þennan dag og taka út sérleiðina á skíðasvæðinu, enda var hún orðin illa brutal ! Það tók því við ferjuleið á malbiki alla leið að fyrsta service hjá Ómari og Ernu en þar var lítið gert nema næla sér í bita og sopa, við héldum svo út að næsta service en þá voru Kári, Þorri og Daði of seinir á staðinn en pabbi og Árni fengu stuttan service frá norðmönnunum sem voru svo góðir að hjálpa. Þegar ég kom voru strákarnir akkurat mættir og við hentumst í að skipta um framtannhjól. Næst tók við langa sérleiðin sem var alveg geggjuð, hún var þó farin að grafast vel og orðin krefjandi. Í service hjá Krissa og Jóni eftir sérleiðina náði ég aðeins á Árna og pabba og allt var í góðu hjá þeim. Ég skipti um framklossa áður en ég hélt af stað á eftir strákunum að næstu sérleið sem var sandbrautin ógurlega. Þar gekk helvíti vel og eftir service hjá Hauki og Teddu var ferjuleið að fyrsta service aftur áður en við héldum í anna hring. Það var komið alveg leiðinlega ljótt hljóð í mótorinn hjá mér og líklegast farin heddpakkning enda þurfti að bæta vatni á hjólið í hverju stoppi.

 

Í öðrum hringnum gekk svipað á sérleiðunum hjá okkur öllum og allt leit vel út hjá Árna og pabba. Hjá mér hinsvegar var þetta farið að snúast um að hjólið myndi meika það niður í pitt aftur. Hjólið var alveg hætt að ganga á hægagangi og drap á sér við hið minnsta, þá tók við þrekraun að sparka því í gang. Í öðrum service-num skipti Krissi um olíu og síu á meðan ég smellti nýrri loftsíu í. Ég ætlaði aldrei að ná kvikindinu í gang og í næsta service hjá Hauki var mótorinn gersamlega glóandi heitur eftir sand sérleiðina. Hjólið ætlaði ekki í gang og endaði með því að ég ýtti því í gegnum time check og náði að ýta því í gang niður næstu brekku. Þegar ég kom svo í síðasta service dagsins hjá Ómari og Ernu leit þetta ekki vel út. Við bættum enn einu sinni vatni á og síðan tók við að reyna að koma hjólinu í gang, ég sparkaði og sparkaði en ekkert gekk, fór og ýtti því þrisvar upp aðrennuna niður í pittinn en ekkert gekk. Allir Ástralarnir voru farnir að hjálpa mér og endaði með því að Englendingarnir lánuðu mér vatnskassaþétti sem við dúndruðum á, ég herti alla heddbolta sem ég gat í botn og við spreyjuðum einhverju jukki inn í loftinntakið og viti menn kvikindið hrökk í gang við fögnuð hálfs pittsins !

 

Ég dólaði þá niður í pitt og þvílík fagnaðarlæti sem tóku við þegar ég mætti þangað. Á leiðinni tapaði hjólið litlu sem engu vatni og það hrökk aftur í gang til að keyra inn í viðgerðarstoppið svo útlitið var heldur skárra ! Í viðgerðarstoppinu í lok dags skipti pabbi um framdekk, Árni græjaði loftsíu og ég tók enga sénsa á pústinu og tróð ull í það og moddaði ef ég skildi verða tekinn aftur í hlóðtest. Sem betur fer slapp ég svo að það eru þrír sælir Íslendingar sem ætla að gera allt sem þeir geta til að klára eitt stykki Six Days keppni á morgun ! Þvílíkur dagur og þvílík hamingja !

 

Við gengum svo frá pittinum og nýttum tímann til að skila Kalle, finnska vini Jóns öllum græjunum sem hann var búinn að lána okkur. Síðan var haldið heim á sveitasetrið þar sem við slökuðum aðeins á fyrir mat og svo var að sjálfsögðu tekið báta session á ánni og svo sauna og böðun !

 

Morgundagurinn er sjötti og síðasti dagur keppninnar og þá er bara Motocross test þar sem við keyrum ferjuleið frá pittinum upp að brautinni og svo fara menn í sitt hít út og taka 7 hringja race. Svo þetta verður einhver hasar 😉 !

 

Það hefur aldrei verið styttra í endamarkið og nú, allir að krossleggja putta að hjólin okkar þrauki þetta 😉 !

 

Kv. Jonni

Skildu eftir svar