Greinasafn fyrir flokkinn: Umhverfismál

Farið varlega um landið!

Rekstrarstjóri Bláfjalla og góðvinur mótorhjólamanna hafði samband í morgun og vildi koma ábendingu á framfæri um að hjólamenn færu varlega um landið. Eftir helgina sjást för á viðkvæmum stað ofan við brekkuna á veginum upp í Bláfjöll. Þar hafa hjólamenn verið á ferð í snjó ofan við Sandfellið upp á Bláfjallaveg en lent í vandræðum og farið út í mosann. Förin sjást vel frá veginum og eru hjólamönnum til skammar, því miður. VÍK vill því árétta að menn haldi sig á slóðum og löglegum svæðum og beri virðingu fyrir náttúrunni og öðru útivistarfólki. Utanvegaakstur kemur okkur öllum illa 🙁

VÍK æfingar sumarið 2012

Nú þegar svæðið okkar við Bolöldu hefur opnað þá ætlum við þjálfarar MX & Enduro skóla VÍK að kynna fyrir ykkur sumarið sem er handan við hornið, eflaust margir krakkar búnir að vera pirra foreldra sína hvort það sé ekki hægt að fara hjóla eða á æfingar, en einsog síðustu vikur hafa verið þá hefur ekki verið möguleiki á að æfa úti og reiðhöllinn fullbókuð.

Markmið VÍK með æfingastarfinu er að byggja upp kröftugt barna og unglingastarf félagsins til framtíðar en öll æfingagjöld renna óskipt í æfingastarfið. Skipulagðar æfingar frá upphafi er grundvöllur þess að bæta kunnáttu og öryggi yngstu ökumannanna og stuðlar að bættri umgengni og virðingu fyrir umhverfinu.
Lesa áfram VÍK æfingar sumarið 2012

Frakkar á Vatnajökli

Hjörtur Líklegur gróf upp flotta heimildarmynd og birti á Fésinu sínu í gær. Myndin er frá leiðangri nokkurra Frakka sem segjast vera fyrstir til að fara á mótorhjólum á Bárðarbungu á Vatnajökli. Myndin er frá þeim tímum þegar orð eins og utanvegaakstur og hjálmur voru ekki í almennum orðaforða, líklega á fyrri hluta áttunda áratugarins.


Akstur á motocrosshjóli á skíðasvæðinu í Bláfjöllum

Vefnum hefur borist stutt grein og eru menn vinsamlega beðnir um að lesa og taka tillit til annara útivistarunnenda.

Góðan daginn.
Ég fékk þá frétt í dag að í gærkvöldi kl 20:20 mætti skíðagöngumaður sem var að ganga í skíðaspori á sléttunni við Suðurgilslyftu bláklæddum manni á motocrosshjóli sem ók eftir skíðasporinu og spændi það upp. Göngumaðurinn náði ekki að tala við ökumanninn en ræddi við annann ökumann motocrosshjóls á bílaplaninu við Suðurgilslyftuna um þetta, í allt voru á þessum tíma 5 ökumenn á motocrosshjólum á/við bílastæðið.

Við óskum eftir aðstoð ykkar við að koma því á framfæri við ökumenn motocrosshjóla að þeir virði reglur um bann við akstri utan vega á skíðasvæðinu í Bláfjöllum svo ekki séu skemmd okkar íþróttamannvirki, sem eru skíðabrekkur og skíðaspor, sem lögð eru með ærnum tilkostnaði.

Bestu kveðjur með óskum um góðan íþróttavetur

Þóroddur F. Þóroddsson, formaður Skíðagöngufélagsins Ulls

Umræða á Alþingi

Þór Saari hélt þessa ræðu á hinu hæstvirta Alþingi fyrir stuttu. Vinsamlega lesið.

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þetta voru ágætisupplýsingar. Ég skora á hæstv. ráðherra að einbeita sér að því að það verði forgangsraðað hjá Landmælingum og víðar með þeim hætti að þessi utanvegaakstur verði orðinn liðin tíð innan sem skemmst tíma.
Síðari spurningin mín til hæstv. ráðherra varðar torfæruhjól og torfæruhjólaakstur. Nú er það vitað mál að tjón af völdum torfærumótorhjóla er gríðarlega mikið. Það eru heilu útgerðirnar úti um allt land sem gera núna út á það að leigja fólki, bæði útlendingum og Íslendingum, torfæruhjól svo þeir geti keyrt á miklum hraða um vegi og vegslóða, en aksturslagið er einfaldlega með þeim hætti að slóðarnir og vegirnir eru eyðilagðir á mjög skömmum tíma. Fyrir utan það er náttúrlega alltaf til staðar sú freisting, sem maður hefur sjálfur séð margoft, að fara aðeins út fyrir slóðann og upp þessa hæð eða upp þetta fjall. Ég hefði sjálfur talið það brýnt á sínum tíma þegar farið var að flytja inn í torfærumótorhjól í stórum stíl að settar yrðu skorður við notkun þeirra, strax frá upphafi. Það var ekki gert, væntanlega í nafni einhvers konar einstaklingsfrelsis.
Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það verið hugleitt að banna akstur slíkra hjóla nema þá á viðurkenndum æfinga- og leiksvæðum? Það er að vísu erfitt að banna slíkan akstur til dæmis erlendra ferðamanna sem koma hingað eingöngu til ferðalaga, en stór hluti af torfæruhjólaakstri á Íslandi er á þeim forsendum að menn eru að spæna áfram í aksturslagi sem fyrst og fremst er adrenalínörvandi og það getur verið gaman að því og gott að hafa þá en það þarf þá að vera á sérstaklega tilgreindum stöðum. Það má ekki vera hvar sem er um landið. Er eitthvað fyrirhugað í þeim málum í ráðuneytinu?

Tekið af vef Alþingis

Aðalfundur VÍK Í KVÖLD.

Aðalfundur Vélhjólaíþróttaklúbbsins verður haldinn í kvöld, 9. nóvember kl. 20, í fundarsal ÍSÍ við Engjaveg. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, kosning í nefndir og stjórn, skýrsla stjórnar og samþykkt reikninga. 
Stjórn VÍK vonast eftir góðri mætingu félagsmanna á fundinn og líflegum umræðum. Einnig vonumst við eftir góðu fólki til starfa í stjórn sem og í nefndir, enda er það rétti vetfangurinn til að koma skoðunum  á framfæri.