„Race police“ / keppnislögregla óskast.

Pálmar lögga

Núna á laugardaginn, 14.5.2016, verðum við með fyrstu umferð ársins í enduro á Hellu. Ef þú hefur áhuga á að koma að svona keppni með einhverju öðru móti en að keppa, þá ertu velkomin/n í „race police“. Á meðan keppni stendur erum við með brautarverði á víð og dreif sem sjá til þess að allt fari rétt og vel fram. Fylgjast þarf með því hvort að keppnisskapið fari nokkuð fram úr hófi hjá keppendum og því að brautarmerkingar séu enn að sinna sínu hlutverki og að þær séu virtar. Í leiðinni færðu nóg af súrefni í lungun, bestu áhorfandasjónarhornin og tækifæri til þess að hjóla um þetta svæði sem annars er lokað fyrir umferð torfæruhjóla. Þú þarft að mæta á Hellu, með hjólið þitt, áður en keppni hefst og þá er farið yfir verkskipulagið og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig.

Ef þú hefur áhuga á að mæta og aðstoða okkur við keppnishaldið núna á laugardaginn, þá geturðu sent póst á vik@motocross.is, hringt í mig í síma 866-9035 eða talað við einhvern í stjórn félagsins ef þú þekkir einhvern þar.

Kveðja,

Sigurjón Snær Jónsson

Aðeins meira…

Pétur Boló 080516 01

Á sunnudaginn var meira grjót týnt úr nýju brautinni (sem er enn nafnlaus). Í leiðinni taldi Pétur aftur og sá þá að það voru meira en 10.000 steinar eftir sem þýðir að það vantar aðeins upp á herslumuninn þar. Þannig að Pétur ætlar að skella sér upp eftir einu sinni enn og það núna á miðvikudaginn 11.5.2016 upp úr kl. 18:00. Þannig að eins og fyrr þá eru allir þeir sem hafa áhuga velkomnir á svæðið til þess að hjálpa til. Þessari törn verður svo fagnað með opnun motocross-brautanna. Við munum auglýsa það betur en það stefnir í að við munum opna þær núna á sunnudaginn 15. 5. 2016.

Að því sögðu minnum við enn og aftur á Hellu. Koma svo, skrá sig!

Lesa áfram Aðeins meira…

Hey þú. Já þú! Klukkan tifar…

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Þessi féll ekki á tíma. Án alls vafa þýðir það samt ekki að hann hafi ekki fallið…

Tíminn flýgur heldur betur þessa dagana sem aldrei fyrr. Þið munið hvað sagt er, „time’s fun when you’re having flies“, eða eitthvað. Hella er víst bara eftir viku og það eru bara örfáir skráðir. Þannig að þú ert greinilega ekki búin/n að skrá þig. Ef þú skrappst á torfæruna til þess að skoða svæðið fyrst, þá ertu í góðum málum og tilbúin/n að skrá þig. Annars sýnist mér mörg bara vera að gleyma þessu. Skráningin er að vanda í gegnum síðu MSÍ. Þar má einnig finna dagskránna sem verður núna með sama sniði og í fyrra.  (linkurinn virkar ekki tímabundið, þetta verður uppfært þegar það verður virkt).

Ef þið eruð að fara að keppa í fyrsta skiptið og þekkið ekki ferlið skuluð þið leita til ykkar félags. VÍK heldur utan um þessa tilteknu keppni en þetta er hluti af Íslandsmótinu og eru að sjálfsgöðu meðlimir allra félaga velkomnir í þetta mót. Ef VÍK er ykkar félag og þið eruð í einhverju basli skuluð þið senda póst á vik@motocross.is.

Hafið graðar hendur því að skráningunni lýkur á þriðjudagskvöldið.

Koma svo! ,,When you’re racing, you’re living. Everything else is just waiting.“ Égmanekkihver

Sumaræfingar VÍK

Sumaræfingar hefjast núna á sunnudag kl 16 í Bolaöldu. Fyrstu tvær æfingar sumarsins verða haldnar á sunnudögum, þ.e. sunnudaginn 8. maí og 15. maí. Eftir það munu æfingar vera á þriðjudögum og fimmtudögum kl 18 og 19. Fyrsta æfingin með því sniði verður því þriðjudaginn 17. maí.

Æfingar verða með svipuðu sniði og verið hefur, klukkutíma æfing fyrir hvorn hóp og keppni í lok hvers mánaðar. Frí verður í 4 vikur í sumar líkt og sl. sumur, en verður nú 11. júlí – 8. ágúst. Fyrsta æfing eftir sumarfrí verður því þriðjudaginn 9. ágúst.

Sumarnámskeiðin verða út september og er hægt að greiða fyrir allt sumarið 25.000 kr eða kaupa 5 og 10 skipta klippikort.

Sjáumst hress á sunnudag kl 16 🙂

Kv.

Gulli og Helgi Már

Vinna fer vel af stað. Næsti vinnudagur 8.5.2016

Vinnukvöld 040516 01

Við viljum enn og aftur þakka þeim sem komu og lögðu hönd á plóg í Bolaöldu núna á miðvikudagskvöldið. Síðasta snjónum var mokað úr eldri brautinni (sem enn hefur ekki fengið fast nafn (tillögur að nöfnum vel þegnar)) og Pétur segir að 10.000 steinar hafi verið fjarlægðir úr nýja sköpunarverkinu (sem einnig óskar eftir nafni).

Við ætlum að halda áfram. Pétur segir að það séu aðrir 10.000 steinar að hvíla sig í nýja sköpunarverkinu sem megi flytja sig um set. Þeir gera það klárlega ekki sjálfir. Núna á sunnudaginn ætlum við að taka næstu rispu og ætlum við að vera á svæðinu á milli 15:00 og 19:00. Það þarf ekki að mæta á slaginu og vera til 19:00 á slaginu. Allt framlag er vel þegið og hjálpar bara til að gera svæðið betra og skemmtilegra. Húsið var allt þrifið um daginn og dúkurinn í húsinu hefur verið bónaður þannig að það lítur mjög vel út.

Svæðið er ekki tilbúið enn fyrir hjól, en það styttist óðum í það. Sérstaklega þar sem snjórinn er kominn úr brautinni og búið er að herfa fyrstu umferð.

Hér fyrir neðan má svo sjá fleiri myndir frá síðasta vinnudegi.

 

Sjáumst í Bolaöldu á sunnudaginn.

Vinnukvöld 040516 03

Lesa áfram Vinna fer vel af stað. Næsti vinnudagur 8.5.2016

Vinnukvöld 4. maí 2016

Pétur Bolaalda (3)

Á laugardaginn fór fram fyrsti vinnudagurinn í Bolaöldu. Við í VÍK viljum þakka þeim 8 sem mættu á svæðið og tóku til hendinni. Húsið var þrifið og fengu brautirnar að finna fyrir nýja herfinu sem snillingurinn hann Daði smíðaði fyrir félagið.

Á morgun dettur svo inn fyrsta reglulega vinnukvöldið uppi í Bolaöldu. Pétur og Össi verða mættir á svæðið um kl. 17:00 og hefja störf þá. Um 20:00 verður svo óformlegur fundur í húsinu upp frá þar sem sumarið, svæðið og sportið verða rædd. Þannig að allir þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu á svæðinu eru hjartanlega velkomnir. Einungis er hægt að hjóla í barnabrautinni að svo stöddu þar sem annar jarðvegur er ekki tilbúinn fyrir hjólerí.

Verkefni númer 1 á morgun verður að grjóthreinsa nýju brautina. Ef þig langar að bæta æðislegri braut við í safnið skaltu mæta og aðstoða við að gera hana alveg geggjaða.

Sjáumst í Bolaöldu.

Bolalada