Slóðarnir í Bolaöldu opnir.

Jæja kæru hjólarar, við ætlum núna að opinberlega opna slóðana í Bolaöldu þetta vorið. Farin var vettvangsferð í gær. Svæðið er mikið til þornað en farið endilega varlega því bleyta gæti leynst á einverjum stöðum. Athugið einnig að á sumum stöðum eru enn smá snjóskaflar í slóðunum. Við ætlum að biðja ykkur um að keyra í gegnum þá frekar en að fara framhjá þeim. Höldum okkur innan slóðana. Við eigum að sjálfsögðu alltaf að gera það, en núna alveg sérstaklega þar sem jörðin er viðkvæm.

Pétur og fleiri verða á svæðinu á morgun með posann og miðana til staðar. Miðarnir fara að verða klárir hjá Olís, en það gæti verið að þeir séu ekki alveg dottnir í sölu þar.

Skellum okkur nú út að hjóla og æfa okkur fyrir Klaustur.

Allra síðustu forvöð. Klaustur 2016.

Ef þú varst að kaupa þér torfæruhjól og veist ekkert hvað Klaustur er, skoðaðu þá ÞETTA og ÞETTA.

Á miðnætti, mánudaginn 23. maí 2016, lokum við fyrir skráninguna á Klaustur. Ef þú ert að velta því fyrir þér hversu langur tími er til stefnu, þá er niðurteljari á Klausturssíðunni. Þess má einnig geta, að þá er skráningin búin að vera opin í tvo mánuði. Hjálpumst að við þennan viðburð og klárum allar skráningar og liðabreytingar í tíma. Við erum ekki margar manneskjurnar að baki þessari keppni og þetta er allt unnið í sjálfboðavinnu. Við þurfum að taka tíma frá fjölskyldu okkar og vinnu til þess að sinna þessu kauplaust og því væri gott ef það væri hægt að vinna þetta allt í tíma þannig að það sé hægt að bregðast við ef eitthvað klikkar. Notum þessa viku og alveg í síðasta lagi helgina í að skrá okkur eða láta mig vita af liðabreytingum.

Ef þú sendir okkur póst kl. 23:00 á mánudaginn og spyrð hvað þú þurfir að gera til þess að vera með á Klaustri, þá bendi ég þér á að spyrja mig aftur í mars 2017. Við lendum í því trekk í trekk að fólk sé að skrá sig 5 mínútum fyrir lokun eða reynir að komast inn eftir lokum og þetta verður alveg ofboðslega þreytandi. Þetta er svolítið eins og aðilinn sem mætir í partý til manns en hellir svo bara niður og skiptir um tónlist.

Þannig að, ég bið ykkur, hjálpið okkur að hjálpa ykkur. Ef þið eruð skráð en vitið um einhvern sem er að draga lappirnar í þessu máli, endilega rekið á eftir viðkomandi.

Listinn verður vonandi birtur á næstu dögum, en liðarbreytingar hafa verið að detta inn og því þurfum við að halda utan um þær og laga listann til.

Með vinsemd og virðingu.

Sigurjón Snær Jónsson

Fyrsta opna æfingin hjá Ingva verður í Bolaöldu þriðjudaginn 17. maí (á morgun/í dag)

Ingvi Björn

Já, mikið rétt, það er komið að því. Á morgun þriðjudaginn 17. maí verður fyrsta opna æfingin hjá Ingva í motocross-i í Bolaöldu. Æfingin er á milli 19:00 og 20:30 og er öllum opin sem mega keyra í stóru brautinni.

Klippikort og heildarkort á æfingarnar verða til sölu á staðnum.

5 skipti – 10.000 kr.

10 skipti – 20.000 kr.

Allt sumarið (15 x þri og fim = 30 skipti) 30.000 kr.

Það er gjöf en ekki gjald fyrir leiðbeiningar frá dreng með reynslu á borð við það sem Ingvi hefur.

Athugið, það er gjaldið fyrir kennsluna. Allir verða að vera með miða í brautina eða árskort. Þau verða einnig til sölu á staðnum.

There’s no school like the MX-school… Eða var það old school? Það skiptir ekki máli, þessi verður engum líkur.

GFHE Hella – Keppnin sem var þurr en góð

Ingvi Hella 16

GFHE Hella fór fram síðastliðinn laugardag. Dagurinn tókst vel til og engin slys urðu á keppendum. Brautin var mjög þurr þetta árið en það var ekki annað að sjá en að keppendur skemmtu sér mjög vel og er tilganginum þá náð.

Hér neðst er linkur á heildartíma og úrslit keppninnar. Þess má geta að úrslit í einum flokki réðust ekki af heildarakstri dagsins þar sem einn keppandinn gleymdi að stimpla einn hring inn í kerfið hjá sér. Þannig að það fer ekkert á milli mála að einbeitingin við akstur hjólanna hefur verið ansi mikil þennan daginn.

Mig langar að þakka öllum þeim sem komu að keppninni með einum eða öðrum hætti og aðstoðuðu okkur í VÍK við að gera svona keppni mögulega. Við þökkum Kára Rafni og Flugbjörgunarsveitinni á Hellu fyrir að sjá til þess að við megum halda þessa keppni á þessu svæði sem og fyrir að vaka yfir okkur og vera tilbúin að bregðast við ef að slys skyldi bera að.

Mig langar líka að þakka Atla Má fyrir að koma og leggja línurnar með stjórninni, bókstaflega, sem og Gulla flugmanni. Einnig vill ég þakka þeim sem komu í keppnislögregluna og Bínu fyrir að vera með vökul augu og aðstoð við verðlaunaafhendingu.

Heildarúrslitin eru hérna >>> Hella-2016-Final 2

Við minnum svo bara á að skráningu á Klaustur fer að ljúka. Við sjáumst á Klaustri.

Bolaalda opnar í dag. Opið á milli 12:00 og 18:00. Kort og miðar seld á staðnum.

Pétur Boló 080516 04

Pétur er í þessum töluðu orðum á leiðinni upp í Bolaöldu að herfa brautirnar og í tilefni þess að þær eru komnar í fínt stand ætlum við að opna þær. Athugið þó að slóðavinna hefur ekki farið fram og svæðin þar eru enn blaut. Þannig að slóðarnir eru EKKI opnir.

Ingvi Björn verður á svæðinu í dag með posann og getur selt fólki dagspassa og árskort. Þeir sem þegar hafa greitt árskort geta fengið þau afgreidd á staðnum hjá honum. Dagpassinn kostar 2.000 kr. og árskortið 15.000 kr.

Við hvetjum fólk til þess að taka hring í nýju brautinni. Hún er stökkpallalaus, þar sem hún verður byggð smám saman upp, en það er hægt að renna hring og sjá hvernig flæðið er í henni.

Hjóli spóli Óli með góli…

GFHE á morgun. Hella 14.5.2016 – Nokkrir punktar

Brautin er eins og venjulega góð blanda af motocrossi, enduro, torfærum, brekkum, hliðarhalla og börðum.
Á einum stað er þraut það erfið að boðið verður upp á hjáleið. Munið að ef þið komist ekki upp einhver staðar þá má fara út fyrir stiku og til baka en koma inn aftan við næstu stiku þar fyrir aftan ef þið þurfið lengra tilhlaup.
Að fara fram hjá stiku eða stytta sér leið telst vera svindl og þýðir víti fyrir viðkomandi ökumann!
Það verða 5-10 brautargæslumenn á staðnum. Ekki stytta ykkur leið eða sleppa stikum, jafnvel þó að þær liggi niðri. Það fer ekki framhjá neinum hvernig hringurinn liggur.
Það verður farin prufuhringur kl. 10:30. Reynum því að vera komin tímalega á svæðið og komið með hjólið í skoðun hjá ráshliði.
Prufuhringur er ekki keppnishringur, gefum okkur gott pláss á milli manna, sérstaklega í brekkum og hliðarhalla. Undanfarinn mun stoppa öðru hvoru og þétta hópinn og þegar hann leggur af stað gerum við það í línu og gefum næsta manni séns á að klára sýna þraut.
Eftir keppnina þá ætlum við að biðja ykkur um að taka saman brautina með okkur. Þetta hefur reynst vel s.l. 2 ár og tekur max hálftíma ef við keyrum á þetta saman.
Að lokum:
Það verður þurrt – hafið með auka loftsíur.
Það verður sól – takið með sólarvörn.
Það verður gaman – takið með góða skapið.

Þeir sem ætla að koma að aðstoða okkur í racepolice mega gjarnan vera komnir fyrir kl. 10:00 og mega þá gefa sig fram við Gugga eða Kalla keppnisstjóra.

Dagskrána má svo finna _-HÉR-_

Fyrir þá sem eru að keppa í fyrsta skiptið, þá minnum við á að taka með sér vatn að drekka. Það verður mörgum að falli í sinni fyrstu keppni að gleyma að drekka nóg fyrir fyrri umferðina og á milli umferða. Einnig bendi ég á að startað er í þremur hollum með mínútu millibili. Fremstur á línu er meistaraflokkurinn sem startar fyrstur. Eftir það kemur tvímenningur sem startar svo. Að lokum startar restin sem telst til B-flokks. En það eru allir aldursflokkarnir. Í enduro er dautt start, sem þýðir að dautt er á mótor þegar startað er. Það er óþarfi að setja í gang á milli þess sem hópunum er startað. Allir mótorar dauðir fyrir fyrsta start og þeir fara ekki í gang fyrr en kemur að þeirra starti.

Play on players! Sjáumst á morgun.

Bolalada