Greinasafn fyrir flokkinn: MotoMos

MotoMos er Motocrossfélag Mosfellsbæjar

Félagsgjöld fyrir árið 2012 í MotoMos

Félagsgjöld fyrir árið 2012 ættu að birtast meðlimum MotoMos í heimabanka þeirra.  Gjaldið er 5.000 kr. fyrir einstakling og fjölskyldugjald er 8.000 kr.  Þar sem ekki er hægt að stofna nema eitt gjald í bankanum að þá þurfa þeir sem ætla að greiða fjölskyldgjald að hafa samband við Bryndísi í netfanginu motomos@internet.is og hún mun gefa upp upplýsingar um á hvaða reikning hægt er að leggja og þá senda kort um hæl á félagsmenn.  Nokkur hugur er í stjórn félagsins í ár og gerum við ráð fyrir að halda fyrstu bikarkeppnina í brautinni fljótlega þegar snjóa leysir og brautin verður klár.  Verður hún með óhefðbundnu sniði og boðið verður upp á nýjungar sem nánar verður auglýst.

Að lokum viljum við benda mönnum á að brautin er LOKUÐ vegna frosts í jörðu en okkur þykir ástæða að brýna það fyrir mönnum því einhverjar hafa nýlega haft fyrir því að fara í brautina í því ástandi sem hún er í dag og má sjá djúpa skurði eftir viðkomandi.  Fólk verður að sýna tíðarfarinu ákveðna þolinmæði og það er engum greiði gerður að æða af stað of snemma því allt viðhald verður margfalt dýrara og rakaskemmdirnar mun verri, sérstaklega ef það frystir aftur.  Þannig við biðjum ykkur að virða þær aðstæður sem eru og EKKI fara í brautina.  Við munum opna hana um leið og hægt verður, en fylgst er með brautinni til að kanna hvort og hvenær hægt verði að opna hana.

Fyrstu umferðinni í íscrossi frestað vegna óviðráðanlegra aðstæðna

Af óviðráðanlegum orsökum hefur fyrstu umferðinni í íscrossi verið frestað um óákveðin tíma.  Aðstæður eru mjög erfiðar til keppnishald og er með öllu ófært upp að Hafravatni og óvíst hvort þessar þrjár leiðir verði yfirhöfuð mokaðar fyrir helgi.  Þar fyrir utan er ekki forsvaranlegt að láta fólk ferðast landshluta á milli við þessar aðstæður á meðan færðin er eins og hún er.  MSÍ mun í samráði við klúbbana finna nýja dagsetningu við fyrsta hentugleika og mun sú skráning sem nú hefur átt sér stað gilda áfram.  Þeir sem hafa athugasemdir við það er bent á að hafa samband við MSÍ.  Vænta má upplýsinga um nýjan keppnisdag og hugsanlega nýjan keppnisstað fljótlega upp úr helgi.  Verður upplýsingum um framhaldið komið í loftið um leið og það er ljóst hvert framhaldið verður, þ.e. nýr keppnisdagur og hugsanlega nýr keppnisstaður.


Veðruspá fyrir Laugardag 28.01.12

Úrkomuspá kl 12 á hádegi Laugardag.

Samkvæmt veðurspá þá verður frábært veður til keppni núna á Laugardag. Nú er bara að klára skráningu fyrir kvöldið, græja hjólið, hita kakóið, smyrja brauðið og mæta með góða skapið.

 

Skráning hafin í íscrosskeppnina sem fer fram á laugardaginn á vef MSÍ

MSÍ hefur opnað fyrir skráningu í fyrsta íscrossmótið til Íslandsmeista sem fer fram laugardaginn 28 janúar.  Árétta skal til keppenda að hjól þurfa að vera með ádrepara í lagi og öll hjól þurfa að vera tryggð.  Góður hópur manna var að hjóla á ísnum á Leirtjörn um helgina og er það vonandi til marks um góða mætingu um helgina þar sem keppnin fer fram á suðvesturhorninu.  Nú þegar hafa systkinin Signý og Jonni skráð sig til leiks.  Eins og staðan er í dag að þá mun keppnin að öllum líkindum fara fram á austanverðu Hafravatni en miðað við lýsingar formanns MSÍ að þá var ísinn þar í góðu standi og gafst borvél formannsins upp þegar hún var komin í rúma 15 cm og enn bólaði ekkert á vatni.  Ef einhver á tönn sem hann/hún er tilbúin að lána okkur framan á fjórhjól til að ýta braut, að þá væri það vel þegið.  Hægt er að hafa samband við Kalla í netfanginu kg@ktm.is eða Sverrir í netfanginu sverrir@motosport.is.

Glæsilegir fulltrúar MotoMos fá viðurkenningu frá Mosfellsbæ

Í gær veitti Mosfellsbær íþróttafólki sem talið er að hafa skarað fram úr í sinni grein viðurkenningar fyrir þátttöku sína fyrir árið 2011.  MotoMos átti sína fulltrúa á svæðinu og voru það hvorki meira né minna en fimm fulltrúa á meðal annara glæsilegra ungmenna á svæðinu.    Eftirfarandi aðilar voru fulltrúar MotoMos í ár.

  • Brynja H. Hjaltadóttir í 85cc kvenna
  • Daði Erlingsson í E1 enduro og MX1
  • Eyþór Reynisson MX2 og MX Open
  • Jökull Þ. Kristjánsson 85cc
  • Viktor Guðbergsson MX Open

Jafnframt fengu Daði Erlingsson verðlaun fyrir þátttöku sína í landsliði Íslands sem keppti í ISDE í Finnlandi, Eyþór Reynisson og Viktor Guðbergsson fyrir þátttöku sína fyrir Íslands hönd á MXON í Frakklandi.  Frábært að bæjarfélagið skuli veita slík hvatningarverðlaun og nú er bara að halda áfram eða gera ennþá betur á næsta ári.

MotoMos tilnefndi Daða Erlingsson sem íþróttamann félagsins fyrir árið 2011 og óskum við honum til hamingju með árangurinn.  Daði hefur vaxið geysilega sem akstursíþróttamaður og hefur nánast verið ódrepandi frá því að hann hóf keppni.  Hefur hann tekið þátt í nánast öllu keppnum sem hann hefur getið verið með í af mikilli óbilgirni og þrautseigju sem hafa komið Daða á þann stall sem hann er á í dag.  Daði á bara eftir að vaxa sem ökumaður ef hann heldur áfram að æfa eins og hann gerir ásamt því að sýna þessu slíkan brennandi áhuga sem hann hefur sýnt frá því að hann hóf þátttöku.  Með tilnefningu MotoMos kom Daði til greina sem íþróttmaður Mosfellsbæjar, sem er mesti heiður sem bærinn veitir íþróttamanni.  Það eitt að vera í þessum hópi er stórkostlegur árangur og viðurkenning fyrir mikið harðfylgi.  Daði náði ekki kjöri sem íþróttamaður Mosfellsbæjar og þá er bara að taka þetta á næsta ári Daði.

Að lokum óskar MotoMos fulltrúum sínum til hamingju með árangurinn og hlakkar til að fylgjast með þeim í ár.  Vonandi haldið þið áfram á sömu braut og MotoMos væntir þess að sjá ykkur að ári við afhendingu viðurkenninga af hálfu Mosfellsbæjar fyrir árið 2012.


Fyrsta umferðin í íscrossi til Íslandsmeistara verður laugardaginn 28 janúar

Nú styttist óðum í það að keppnis tímabil MSÍ hefjist að fullu og er fyrsta keppni ársins fyrirhuguð laugardaginn 28 janúar og þar með verður tímabilið formlega hafið.  Skv. dagskrá MSÍ að þá á að halda þetta mót á suðvesturhorninu og lítur út fyrir að mótið muni fara fram á Hafravatni sem samvinnu verkefni MotoMos og VÍK, svo framarlega sem öll tilskilin leyfi fáist til keppnishalds.  Veðurhorfur næstu daga er góð fyrir áhugamenn um íscross og er spáð langvarandi frosti til 27 janúar.  VÍK, MotoMos og MSÍ vonar að sem flestir skrái sig til keppni og sýni þar með í verki þann mikla áhuga sem kviknað í byrjun vetrar þegar vötnin lögðu fyrst og hópur fólks lagði leið sína á ísinn til að hjóla sér til skemmtunar.  Opnað verður fyrir skráningu á föstudaginn á vef MSÍ en það þarf vart að taka fram að öll hjól þurfa að vera með tilheyrandi ádrepara og vera tryggð til að geta tekið þátt í keppnum á vegum félaga í MSÍ.  Nánari upplýsingar um dagskrá verður birt síðar þegar nær dregur keppni en allar líkur eru til þess að keppt verði með sama fyrirkomulagi og í fyrra sem reyndist ágætlega.  Aðstæður á Hafravatni eru ágætar og mun bara fara batnandi á komandi dögum með auknu frosti.  En gert er ráð fyrir allt að -9 stiga frosti á fimmtudaginn í næstu viku.