Eyþór og Bryndís Akstursíþróttamenn ársins hjá MSÍ

Mynd: Reynir Jónsson
Eyþór og Bryndís með verðlaunin

Eyþór Reynisson og Bryndís Einarsdóttir voru um helgina útnefnd sem Akstursíþróttamaður og -kona árins á Lokahófi MSÍ. Titillinn er sá fyrsti fyrir Eyþór en Bryndís hlýtur hann nú þriðja árið í röð.

Eyþór vann í sumar sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í Opnum flokki í motocrossi. Hann vann einnig MX2 flokkinn í ár eins og í fyrra. Hann varð þar með fyrstur til að hljóta báða titlana sama árið. Hann hlaut einnig sinn fyrsta titil í enduro á árinu en hann sigraði í ECC-2 flokknum. Eyþór æfði og keppti erlendis einnig í sumar, bæði á Spáni og í Belgíu. Hann keppti einnig fyrir hönd Íslands á Motocross of Nations í Frakklandi í haust.

Bryndís Einarsdóttir hlýtur titilinn nú í þriðja sinn. Hún keppti í sumar í Heimsmeistarakeppninni, Sænska meistaramótinu og í Íslandsmótinu. Hún endaði í 23.sæti í heimsmeistarakeppninni með 21 stig en hún tók aðeins þátt í 3 umferðum af 7. Í sænska meistaramótinu varð hún í sjötta sæti í MX-Girls og hún keppti í MX-Unglingaflokki hér á Íslandi.

Bryndís er úr Hafnarfirði og Eyþór frá Reykjavík en þau eru bæði 18 ára. Þau verða tilnefnd fyrir hönd MSÍ í keppninni um Íþróttamann ársins sem Samtök íþróttafréttamanna velur.

Skildu eftir svar