Fyrsta keppni sumarsins

Íslandsmótið í Enduro þolakstri fer fram í Bolöldu á móts við Litlu kaffistofuna á morgun laugardag. Um 100 manns eru skráðir til leiks og tilbúnir að takast á við erfiða brautina þegar ræst verður kl. 11:10.

Kári Jónsson er núverandi Íslandsmeistari og mun hefja titilvörn sína á morgun, Haukur Þorsteinsson Valdimar Þórðarson, Daði Erlingsson og Bjarki Sigurðsson hafa sýnt glæsilegan akstur síðustu tvö ár og aldrei að vita nema að þeir séu búnir að vera duglegir að æfa síðustu vikur þannig að þeir geti aðeins strýtt Kára Jónssyni sem hefur verið áberandi bestur síðustu tvö tímabil.

Í B flokki er Guðbjartur Magnússon talinn sigurstranglegur en hann er Íslandsmeistari í 85cc flokki Enduro frá því í fyrra, það má búast við skemmtilegri baráttu í þessum flokki um helgina þar sem nokkrir ungir efnilegir strákar munu berjast um sigurinn.

5 stelpur eru skráðar til leiks og þær munu keyra í tvisvar 45 mín með B flokki.

Svo er það auðvitað 40+ en þar gæti orðið helvíti skemmtileg keppni milli Ragnars Inga og Magnúsar (Magga Gas). Þessi flokkur er alltaf að verða vinsælli og vinsælli.

Ekki láta fyrstu keppni sumarsins fara fram hjá þér, gefðu þér tíma og kíktu við í Bolöldu á laugardag.

Skildu eftir svar