Dakar 2014 – Dagur 1

Barreda

Leið þessa fyrsta dags í Dakar átti að vera frekar þægileg svona til að koma keppendum í gírinn fyrir komandi átök. Fyrsti leggur var 405 km ferjuleið en svo tók við 180 km sérleið og í lokin voru það 224 km ferjuleið, í heildina voru þetta 809 km.

Það var skemmtilegt að sjá tegundirnar sem eru fyrstir í mark í dag en það segir svosem ekki mikið um það sem koma skal. Voru það Honda, KTM, Yamaha, Sherco og Honda sem voru í fyrstu fimm sætum. Fyrstu 10 menn fylgdust nokkuð þétt saman í dag og komu í mark á tæplega 5 mín mun og er greinilegt að menn eru svona að stilla sig inn.

En það var spánverjinn Jose Barreda Bort(Honda) sem kom fyrstur í mark í dag og sagði hann við komuna í mark þetta „ég er mjög sáttur við þessa fyrstu leið. Í byrjun var í smá basli með fjöðrunina en svo fór að ganga betur. Við munum skoða þetta í kvöld svo ég geti farið hraðar á morgun. Ég stefni á að halda þessum hraða og helst auka hann á næstu dögum“.

Annar í mark í dag var Marc Coma(KTM) en hann kom 37sek seinna í mark, sagði hann þetta eftir daginn „fyrstu dagarnir í Dakar eru aldrei auðveldir, það tekur á að finna réttan hraða og halda honum til lengdarsvo ég fór tiltölulega létt inní daginn en eftir því sem leið á fann ég hvernig ég fór að verða einbeittari og fann minn hraða. Ég er því sáttur við fyrsta dag og þá sérstaklega þar sem fyrsti dagurinn er krítískur á framhaldið, komast í gegnum fyrsta dag án vandræða er gott og ég er sáttur“.

Þriðji í mark í dag var svo Cyril Despres(Yamaha) sigurvegari síðustu tveggja ára en nú á nýrri tegund af hjóli, hafði hann þetta að segja eftir daginn „frekar hlykkjót 180km sérleið þar sem mikið er bremsað og mikið gefið inn ef flott byrjun á rallinu. Það tók mig engu að síður smá tíma að finna taktinn og það verður að segjast að fyrsta sérleið er alltaf svolítið erfið þegar maður kemur frá kaldri Evrópu og í þetta loftslag. En ég er samt sáttur við að hafa náð taktinum í dag, ég var svolítið æstur í byrjun, nýtt ævintýri fram undan eftir viðburðarríkt ár. Þetta var heilmikil ákvörðun að færa sig á annað hjól, stilla sig inná nýtt hjól, nýtt lið og slípa allan undirbúning, svo skellur D-dagurinn á og það er góð tilfinning að vera komin af stað aftur“.

Það er ekki oft sem maður sér Sherco hjól ofarlega en reynsluboltinn frá Frakklandi Alain Duglos(Sherco) kom fjórði í mark í dag, er þetta hans 12 Dakar rall en hann keppti fyrst árið 2000 og hefur einungis misst úr 2002 og 2004 en svo var engin keppni 2008. Hans besti árangur til þessa er sjötta sæti 2007. En í dag kom hann tæpum 2mín seinna í mark en fyrsti maður. Hafði hann þetta að segja „ég er himinlifandi eftir daginn, Sherco hjólið mitt sló ekki feilpúst og mér finnst frábært að hjóla á svona undirlagi, finnst hjólið nánast stýra sér sjálft í gegnum þetta. Í stuttu máli, skemmtilegt, hratt og svo bónus að ná í mark svona ofarlega. Það er mér mikilvægt að hafa gert svona vel í dag, það er gott veganesti í næstu daga“.

Í fimmta sæti eftir daginn er annar Honda ökuþór, portúgalinn Paulo Goncalves(Honda), vill íslendingurinn í mér meina að gott gengi Hondamanna í dag sé vegna meðferðar Jóhannesar Sveinsbjörnssonar, betur þekktan sem Jói Kef en hann er nú annað árið í röð með Honda verksmiðjuliðinu að toga þá og teygja eftir daginn enda veitir ekki af því eftir þessar löngu leiðir. En Paulo sagði þetta í dag „þetta var frekar erfið fyrsta sérleið, 180km af frekar sleipri og hlykkjóttri leið, sérstaklega í fjöllunum, ef maður myndi detta þar þá væri það alla leið niður. Svo ég ákvað að taka þetta frekar rólega í byrjun en eftir því sem leið á leiðina þá jókst sjálfstraustið og þar með hraðinn og það skilaði mér fimmta besta tíma dagsins. Mér finnst það einnig frábært að liðsfélagi minn Joan Barreda er fyrstur af stað á morgun og við svona nálægt hvor öðrum sem gerir okkur auðveldara að vinna sem lið. Svo það er allt í standi hjá mér og Honda“.

Hinn 45 ára norski frændi okkar Pal Anders Ullevalseter(KTM) er að sjálfsögðu með í ár eins og öll önnur ár frá 2002, hefur hann klárað í öll skiptin nema 2005, þá datt hann út á 10 degi. Hans besti árangur er 2 sætið árið 2010 en síðan þá hefur hraðinn minnkað, í dag kom hann í mark í 43 sæti rúmum 20mín á eftir fyrsta manni en Dakar er honum mikil ástríða og hann mætir aftur og aftur. Þess má til gamans geta að hann fór líklega frekar nýstárlega leið til að vekja athygli hugsanlegra styrktaraðila á sér fyrir Dakar, tók hann þátt í norsku útgáfunni af „Dancing with stars“ eða „Skal vi dance“ , er það kannski smá kaldhæðni að hann endaði í sjötta sæti þar en hann hefur einnig gert það 4 sinnum í Dakar.

En þrátt fyrir að keppendur séu búnir að yfirfara hjólin sín margoft þá getur ýmislegt klikkað, það getur Francesco Beltrami(Honda) vitnað um en þegar hann hafði einungis hjólað um 40 km bilaði hjólið en honum tókst að koma því í gang aftur og náði hann að klára daginn en greinilegt að það er eitthvað að því hann kom í 166 sæti í mark.

Frakkinn Olivier Pain(Yamaha) datt rétt eftir að hann kom inná sérleiðina en slapp með skrekkinn en féll niður um nokkur sæti, endaði hann daginn í 16 sæti tæpum 7 mín á eftir fyrsta sæti.

En það voru fleiri sem lentu í basli með hjólin því það sást til tvíburabræðrana Oriol(Suzuki) og Gilbert Escalé þar sem Oriol var að draga bróðir sinn eftir vélarbilun sem varð þess valdandi að þeir komu síðastir í mark í dag. Eru því 2 keppendur dottnir út eftir fyrsta dag.

Staðan í mótorhjólaflokki eftir dag 1:

1 sæti Joan Barreda Bort(Honda) 2:25:31
2 sæti Marc Coma(KTM) +37
3 sæti Cyril Despres(Yamaha) +1:40
4 sæti Alain Duclos(Sherco) +1:56
5 sæti Paulo Goncalves +2:25

Í fjórhjólaflokki var það Chilemaðurinn Ignacio Casale(Yamaha) sem kom fyrstur í mark einungis 21sek á undan sigurvegara síðast árs Marcos Patrolnelli(Yamaha) en þeir eru ekki óvanir að berjast þar sem Ignacio endaði í 2 sæti í fyrra. Hafi hann þetta að segja við komuna í mark í dag „ég byrjaði daginn á eftir Marcos og héldum góðum hraða og vorum að taka framúr einu og einu mótorhjóli í allan dag en það var rosalegt ryk. Við þurftum að halda aftur af okkur og hugsa vel um hjólin. Og svo er það frábært að hafa svo unnið fyrsta daginn, lifi Chile“.

Marcos Patrolnelli(Yamaha) kom eins og áður segir 21sek á eftir fyrsta manni í mark, kemur það engum á óvart að hann sé svona ofarlega þar sem hann hefur klárað Dakar 2svar í 1 sæti og 2svar í 2 sæti á síðustu 5 árum sem hann hefur tekið þátt í Dakar, 2011 datt hann út á 4 degi. Sagði hann þetta í dag „til að vera hreinskilin þá líkaði mér þessi leið í dag ekkert sérstaklega vel svo ég var í smá basli að finna rétta taktinn, ég var ennig að reyna hlífa hjólinu því það er langt í mark svo ég gleymdi mér aðeins með hraðann en þetta fór vel í dag.

Staðan í fjórhjólaflokki eftir dag 1:

1 sæti Ignacio Casale(Yamaha) 2:38:41
2 sæti Marcos Patrolnelli(Yamaha) +21
3 sæti Lucas Bonetti(Honda) +1:17
4 sæti Rafal Sonik(Yamaha) +1:30
5 sæti Sebastian Husseini(Honda) +2:49

Skemmtilegur dagur sem gefur góðar vonir um framhaldið

Dakar kveðjur

Dóri Sveins

 

Skildu eftir svar