Fréttatilkynning frá MSÍ

msi_stort.jpgStjórn MSÍ frétti af því fyrir tæpum tveimur mánuðum að til stæði að breyta lögum um innflutningsgjöld af ökutækjum. Eftir góðan undirbúning stjórnar MSÍ héldu Karl Gunnlaugsson formaður MSÍ og Jóhann Halldórsson stjórnarmaður MSÍ á fundi með fulltrúa fjármálaráðuneytis og einnig með efnahags og skattanefnd Alþingis.
Á þessum fundum var óskað eftir því að vörugjöld af keppnisbifhjólum yrðu felld niður til samræmis á við keppnisbifreiðar. Einnig voru lögð fram skrifleg rök og greinargerð hvernig þessum málum væri háttað á Norðurlöndunum og farið yfir það mikla ungliðastarf sem er í gangi innan aðildarfélaga og vébanda MSÍ.
Þessi vinna hefur skilað þeim árangri að frumvarpið hefur tekið breytingum á þann veg að keppnisbifhjól verða undanþegin 30% vörugjaldi. Tillögur MSÍ hljóða upp á að moto-cross keppnishjól í öllum stærðum falli undir þessa skilgreiningu. Moto-cross keppnishjól sem flutt verða inn til landsins án gjalda verður eingöngu leyft að nota á samþykktum akstursíþróttasvæðum, ef slíkt hjól er notað utan slíkra svæða getur eigandi þess átt á hættu að verða krafinn þeirra gjalda sem á hjólið hefðu fallið auk álags og sektar.

Gera má ráð fyrir því að ca. 1.500.000,- hjól lækki í verði um ca. 350.000,- og reikna má við því að ef slíkt hjól væri notað utan viðurkendra akstursíþróttasvæða gæti viðkomandi átt á hættu sektargreiðslu allt að 800.000,-
Það verður mikil ábyrgð þeirra sem stunda sportið og nýta sér vörugjaldslaus moto-cross keppnishjól að þeir fari eftir þeim lögum og reglugerðum sem koma til.
Þessi niðurfelling er ekki hugsuð til að ná til Enduro hjóla sem eru skráð á hvít númer.

Um MSÍ:
MSÍ er 13. stærsta íþróttasamband innan ÍSÍ af 28 samböndum, véhjólaíþróttir eru 14. stærsta íþróttagrein innan ÍSÍ af 44 íþróttagreinum. Innan MSÍ starfa rúmlega 20 aksturíþróttafélög um land allt og u.þ.b. 20 samþykkt aksturíþróttasvæði eru á Íslandi

Virðingarfyllst.
f.h. Stjórnar MSÍ
Karl Gunnlaugsson
Formaður

4 hugrenningar um “Fréttatilkynning frá MSÍ”

  1. Gott mál, En hvernig verða þessi „keppnishjól“ skráð? Á rauð númer?

    Ef svo er — verður þá ekki tómt þras með fjórhjól og mótorhjól á rauðum númerum, sem borguðu gjöldin?

    Veit þetta einhver?

  2. Þetta eru góðar fréttir. Má maður keppa á svona hjóli í endúrókeppnum? Sérstaklega svona keppnum eins og Langasandi þar sem ekki er „samþykkt aksturíþróttasvæði“ ?

  3. Karl Gunnlaugsson sagði:
    Sælir allir ! Þetta er allt í vinnslu ennþá. Líklegt er að skilgreint „keppnisbifhjól“ verði á grænu númeri eða á annan hátt auðkent sérstaklega. Slíkt hjól má þá eingongu nota á samþykktum svæðum og í samþykktum keppnum sem fara fram undir merkjum MSÍ. Landsvæði þar sem Enduro keppnir fara fram hafa fengið sérstakt leyfi viðkomandi yfirvalda og eru því lögleg ásamt ísilögðum vötnum þar sem ískeppnir fara fram. Þetta setur töluverða ábyrgð á okkur (MSÍ og aðildarfélaga) einnig þarf að gera ráðstafanir með svæði eins og Sandvík með að fá tímabúndin leyfi landeiganda og viðkomandi yfirvalda. Það er svo ekkert því til fyrirstöðu að fá motokross hjól tollafgreitt sem torfæruhjól á rauð númer og greiða af því 30% vörugjald líkt og verið hefur. Aðalmálið er að við höfum fengið þessa heimild í lög og það mun skýrast mjög fljótlega hvernig þetta verður framkvæmt en ég minni á það og ýtreka að það er mjög mikilvægt að þeir aðilar sem koma til með að nýta sér þessa leið axli þá ábyrgð sem því fylgir og misnoti ekki þau hjól sem verða afgreidd sem keppnisbifhjól (vörugjaldalaus).
    kv.
    Kalli

  4. Kalli, takk fyrir góð svör.

    Og bestu þakkir fyrir þetta frábæra framtak, magnað hjá ykkur að hafa náð þessu í gegn.

Skildu eftir svar