Hella – nokkrir punktar

Á morgun fer keppnin á Hellu fram og dagskrá dagsins má sjá HÉR.

Við skulum mæta tímanlega og vera tilbúin í skoðun kl. 10:00.

Í framhaldi af skoðun verður farinn prufuhringur fyrir þá sem vilja fara einn hring áður en keppnin hefst. Við förum í prufuhringinn ekki seinna en 10:40. Ef allir verða búnir í skoðun og allt er klárt þá förum við fyrr.

Í framhaldi af prufuhringnum röðum við á startið. Fremstur er meistaraflokkurinn, næst á eftir er tvímenningurinn og svo restin fyrir aftan tvímenning.

Meistaraflokkurinn startar fyrstur kl. 11:20.

Tvímenningur startar einni mínútu seinna eða kl. 11:21.

Restin startar mínútu eftir það eða kl. 11:22.

Á þessum tveimur mínútum sem beðið er setjum við hjólin ekki í gang. Við s.s. setjum hjólin EKKI í gang á milli starta. Sko, EKKI í gang.

Allir aðrir en meistaraflokkur og tvímenningur eru svo flaggaðir út fyrr. Þá verður keppendum tilkynnt að B-flokkur sé búinn. Ef þú ert ekki í meistaraflokk eða tvímenning þýðir það að keppni sé lokið hjá þér að sinni.

Eftir seinni umferðina skulum við svo öll leggjast á eitt að taka saman brautina. Verðlaunaafhendingin verður ekki fyrr en allar stikur eru komnar í pit.

Bínubúlla verður á staðnum sem sér til þess að fólk geti fengið sér góðan bita. Bæði áhorfendur og keppendur.

Við minnum svo á keppnisviðaukann í tryggingum. Án hans ERTU EKKI TRYGGÐ/UR Í KEPPNI. Það ber engin ábyrgð á því annar/önnur en þú sjálf/ur.

Við sjáumst eldhress á morgun á Hellu. 🙂

 

Race police – Hella n.k. laugardag

Áttu torfæruhjól, bakpoka og slaghamar/litla sleggju? Ertu að leita að tækifæri til þess að fá þér súrefni á Hellusvæðinu á laugardaginn og fá að viðra hjólið aðeins í brekkunum þar? Við þurfum nokkra einstaklinga á hjólum til þess að koma og aðstoða okkur við race police í keppninni á laugardaginn. Ef þú hefur tök á því máttu gjarnan senda okkur línu og láta vita. Mig, Gugga eða einhvern í stjórninni. Það er mæting um eða upp úr 10 um morguninn og svo er keppnin búin upp úr 15. Þá þurfum við bara að taka saman stikur, afhenda verðlaun og allir eru komnir heim í tíma fyrir kvöldmat.

Sigurjón Snær Jónsson

Hella – skráning lokar miðvikudagskvöldið 3.5.17

Ef þig vantar spark í rassinn, smelltu þá á myndina og hækkaðu í hátölurunum þínum.

Af hverju ertu ekki búin/n að skrá þig í Hellukeppnina? Ef það er út af tæknilegu vandamálunum sem eru gjörsamlega að breyta okkur í Indriða, þá sýni ég því skilning. Ef það er af því að þig langar til þess en leggur ekki í það þá ætla ég eindregið að hvetja þig til þess að röra bara á það. Þú hefur engu að tapa. Ef þú hefur áhyggjur af grjóti og/eða drullu þá er ekki grjót á Hellu og ef það er einhver bleyta, þá er það ekki alvarlegt og bara eitthvað til þess að læra af.

Ég veit að það er mjög stressandi að fara í sína fyrstu keppni. Ég fór ansi langt í stressinu og ég held að ég hafi varla náð neinum svefni fyrir mína fyrstu keppni. En í dag er ég ekkert eðlilega ánægður með að hafa kýlt á það. Um leið og hjólið er komið í gang þá er þetta svo gaman að þú átt eftir að gleyma því algjörlega að þú hafir fundið fyrir stressi. Vertu svo bara ekkert að spá í öðrum keppendum. Keyrðu bara brautina og njóttu þín. Til þess er leikurinn gerður.

Skráðu þig, fáðu þér keppnisviðauka á tryggingarnar (ef þú ert nú þegar ekki með slíkan), mættu og skemmtu þér stórkostlega.

Ég skora á þig.

Sigurjón Snær Jónsson

Formaður VÍK

Seinkun – brautarlagning verður á morgun, sunnudaginn 30.4.17

Þar sem veðrið er ekki mjög spennandi í dag ætlum við að færa brautarlagningu yfir á morgundaginn, sunnudaginn 30.4.

Þá verður sama prógram og þeir/þær sem komast mega endilega láta okkur í stjórninni vita svo að við vitum hvaða mannskap við höfum.

Á sama tíma er þetta hálfgert neyðarkall. Við fengum ekki mikil viðbrögð við fyrri auglýsingu og án þess að nokkur komist að leggja braut verður engin braut. Ef það verður engin braut, þá verður engin keppni.

Leggjumst saman á þetta verkefni svo að það sé hægt að halda skemmtilega keppni. Þau sem mæta í brautarlagningu búa augljóslega yfir þeirri yfirhönd að hafa prófað brautina. Mætum saman á morgun og hendum þessari braut upp. Það væri flott ef þetta væri 10 manna hópur.

Svo ættuð þið endilega að skrá ykkur í keppnina líka og draga vinina og vinkonurnar með í hana. 🙂

Stjórnin (ekki með Siggu og Grétari)

Hella – brautarlagning

Við þurfum nokkra vaska einstaklinga í lið með okkur um helgina til þess að leggja brautina fyrir komandi keppni sem verður 6. maí.

Fyrir þá/þær sem komast í brautarlagningu er mæting á Hellusvæðinu upp úr kl. 10 um morguninn. Vinnan hefst þá og er allt í lagi ef einhver mætir seinna svo lengi sem viðkomandi mætir og aðstoðar. Skilyrði fyrir þátttöku er að mæta með bakpoka og sleggju/slaghamar til þess að reka niður stikur. Guðbjartur „Guggi“ Stefánsson er í forsvari fyrir hópinn sem fer. Þau ykkar sem komast mættuð gjarnan láta hann eða einhvern annan úr stjórn vita.

Þess ber að geta að allur akstur á svæðinu er stranglega bannaður. Við fáum bara undanþágu fyrir keppni þetta eina skipti á ári og það getur eyðilagt það fyrir okkur ef fólk stelst til þess að hjóla á svæðinu utan keppni.

Komdu bara og kepptu og fáðu útrás þar. 😉

Stjórnin

Enduro á Hellu – 6.5.2017

Opnað hefur verið fyrir skráningu í fyrstu umferðina í Íslandsmótinu í enduro. Hún mun fara fram á Hellusvæðinu sem allir þekkja 6. maí n.k. Skráningin fer fram á vef MSÍ og er opin út miðvikudaginn 3.5.2017. Ef þið eruð að skrá ykkur í fyrsta skiptið í mót á vef MSÍ skuluð þið huga að því tímanlega þar sem við höfum átt í erfiðleikum með vefinn undanfarið.

Dragið nú vinina og vinkonurnar með ykkur í þessa skemmtilegu keppni sem er stórgóð byrjun á sumrinu fyrir þau sem mættu ekki til leiks í Sólbrekku.

Bolalada