Úrskurður í kærumálum vegna 1. umferðar Íslandsmótsins í Enduro

Enduronefnd VÍK bárust tvær kærur vegna 1. umferðar Íslandsmótsins í Enduro 12. júní sl. Annars vegar var kærð ákvörðun keppnisstjóra, Eggerts Kristinssonar, að fella niður einn hring af Viggó Erni Viggóssyni fyrir að hafa þegið aðstoð í keppnisbraut.

Hins vegar barst kæra vegna ákvörðunar keppnisstjóra að keppandi númer 199, Micke Frisk gæti tekið þátt í keppninni og unnið til verðlaun en hlyti ekki stig til Íslandsmeistaratitils þar eð hann bæri sænskan ríkisborgararétt og uppfyllti ekki skilyrði ÍSÍ um þriggja ára búsetu á landinu.

Enduronefnd, skipuð Valdimari Kristinssyni og Kjartani Kjartanssyni tók málið til skoðunar. Nokkur atriði voru höfð í huga við úrlausn málsins. Í fyrsta lagi VÍK sem er framkvæmdaaðili mótsins er félagi í ÍBR, Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem er aðili að ÍSÍ, Íþróttasambandi Íslands. Þetta atriði stutt af þeirri staðreynd að félagið hefur póstfang og aðsetur í húsnæði ÍSÍ við Engjaveg auk þess að vera nefnt sem eitt af aðildarfélögum ÍSÍ í gegnum ÍBR á vef ÍSÍ. Formlega er VÍK ekki komið með beina aðild að ÍSÍ en hins vegar er stefnt að fullri aðild að Íþróttasambandi Íslands á næstu mánuðum.

Hvað snertir keppnishald VÍK þá er það alveg skýrt að VÍK heldur keppnir skv. reglum MSÍ. Hins vegar í framhaldi af framkvæmd síðustu keppni og ofangreindra kærumála er ljóst að reglur MSÍ kveða ekki skýrt á um þessi atriði. Því var ákveðið að leita til óháðra aðila sem keppa sömuleiðis undir reglum MSÍ og því í sömu aðstöðu gagnvart keppnishaldi og VÍK hvað þetta og verðandi aðild að ÍSÍ.

Enduronefnd leitaði því til Gunnars Hákonarsonar sem verið hefur keppnisstjóri í Snjókrossi um lausn málsins en Snjókross hefur glímt við sambærileg mál í sínu keppnishaldi og eru að keppa eftir reglum MSÍ. Aðrir meðlimir Enduronefndar og stjórn VÍK komu ekki að málinu vegna hagsmunatengsla.

Vegna kæru keppanda númer 2, Viggó Arnar Viggóssonar

Niðurstaðan í kærunni er sú að dómurinn um niðurfellingu lokahrings skuli standa enda er með öllu óheimilt að þiggja aðstoð s.s. bensín o.fl. í keppnisbrautinni eða annars staðar en í pitti. Kæran snerist ennfremur um hvort ákvörðun keppnisstjóra skuli standa um að fella niður lokahring Viggós Arnar eftir að hafa fyrst dæmt hann í einnar mínútu refsingu. Samkvæmt upplýsingum frá keppnisstjóra í snjókrossi er fordæmi fyrir þvi að áður ákveðnun dómi hefði verið breytt, það er því ákvörðun nefndarinnar að láta þennan dóm standa.

Vegna kæru keppanda númer 199 , Micke Frisk.

Engin ákvæði eru í reglum MSÍ varðandi þátttöku erlendra keppenda á Íslandsmeistaramóti þ.e. hvort þeir fái stig til Íslandsmeistara eða ekki. Aftur leitum við til Snjókrossins að fyrirmynd og þar fá erlendir keppendur að keppa sem gestir og fá verðlaun dagsins en fá ekki stig til Íslandsmeistara. Er því ákveðið að láta fyrri ákvörðun standa og fylgja því sem gerist í snjókrossinu. Stig til Íslandsmeistara raðast því á aðra keppendur í samræmi við úrslit úr hverri keppni.

Ofangreind niðurstaða er ályktun Enduronefndar Vélhjólaíþróttaklúbbsins

Sem aðildarfélag innan MSÍ ber VÍK að fara að settum reglum MSÍ um keppnishald. MSÍ hefur því lokaákvörðunarvald um fyrirkomulag keppna sem haldnar eru á vegum aðildarfélaga þess. Þar sem ekki er skýrt kveðið á um fyrrgreind atriði í keppnisreglum MSÍ má líta svo að ofangreind niðurstaða hafi fordæmisgildi í starfi félaganna og móti MSÍ til framtíðar.

Það er því ákvörðun Enduronefndar VÍK að vísa þessum málum og úrskurði nefndarinnar til stjórnar MSÍ sem taki samræmda ákvörðun út frá hagsmunum sambandsins. Verði niðurstaða MSÍ önnur en sem hér hefur komið fram munum við úrskurða um úrslit í 1. umferð Íslandsmótsins í enduro í samræmi við afstöðu MSÍ

Ennfremur er ljóst að Enduronefnd VÍK býður talsvert starf við að skýra betur ákveðin atriði sem snúa að keppnisreglum í Enduro s.s. hvort keppendur megi fá gleraugu í keppnisbraut eða fyrir utan pittlínu. Hvort tveggja er bannað en hefur samt verið liðið á undanförnum árum. Fleiri álíka atriði komu upp í síðustu keppni og er alveg ljóst að það þarf að skýra reglurnar betur til að koma í veg fyrir að menn seu að fara inn á ?grá? svæði hvað þetta og fleira varðar. Einnig kemur ekki nægilega skýrt fram í reglum hvernig kærum skuli háttað, hver kærufrestur er eða hvert kærugjald sé.

Það er því greinilegt að kominn er tími á að skerpa á reglunum og þarf að gera það í samráði og taka tillit til annara aðila að MSÍ.

Vonumst við svo í framhaldi af þessu að menn haldi ró sinni og gleymi ekki að við erum allir félagar í tiltölulega þröngum hóp og þurfum að standa saman til að hægt sé að halda áfram að byggja upp keppnishaldið. Förum í keppni helgarinnar sem félagar og látum ?rétta? aðila um að dæma í þessum málum.

Valdimar Kristinsson

Kjartan Kjartansson

Gunnar Hákonarson

Skildu eftir svar