Allt að verða klárt í Álfsnesi

Á morgun fer fram önnur umferð í Íslandsmótinu í motocrossi í Álfsnesi.

#11 á heimavelli á nesinu ("Stolin" mynd frá motosport.is, takk Sverrir 🙂

Um 90 keppendur eru skráðir til keppni á morgun og verður gaman að fylgjast með hvað gerist í þessari keppni. Aðstæður undanfarna daga hafa vægast sagt verið erfiðar. Sól og rok hefur þurrkað svæðið og því hafa verið notaðar haugsugur til að keyra yfir 200 þúsund lítra af vatni og sjó í brautina til að bleyta jarðveginn svo hægt hafi verið að æfa og lagfæra brautina fyrir keppni. Nú rignir loksins en þó vonandi ekki meira en svo að nýlöguð brautin verður í frábæru standi í fyrramálið. Í fyrramálið er spáð smáskúrum fram í tímatöku og svo þurru fram yfir verðlaunaafhendingu. Við vonumst því til að sjá sem flesta á keppninni á morgun.:) 

Skoðun hefst kl. 9, tímataka kl. 9.30 og fyrsta moto er kl. 12. Einar Sigurðarson verður keppnisstjóri, Ólafur Þór Gíslason brautarstjóri, Arnór Hauksson tímatökumaður og Pálmar og Pétur „hörðu“ verða yfirflaggarar að ótöldum fjölda annarra starfsmanna. Björk og co. verða einnig með sjoppu á staðnum.

Keppendur og aðstoðarmenn þeirra koma að flöggun á keppninni og verður bækling með nánari upplýsingum, stað og tímasetningum dreift í skoðun í fyrramálið. Flaggarar  þurfa að vera tímanlega á ferðinni svo keppnin tefjist ekki vegna þessa.

Hlutverk flaggara er að gæta öryggis keppenda í keppninni. Flaggari þarf því að fylgjast vel með keppendum. Ef keppandi dettur í brautinni þarf flaggari að ná athygli næstu ökumanna með því að veifa flagginu ÁKVEÐIÐ og vísa umferðinni framhjá þeim sem liggur í brautinni. Flaggari á ALLS EKKI að fara og reyna að draga mann/hjól úr brautinni heldur að tryggja að aðrir ökumenn hægi á sér og keyri framhjá.

Úr flaggreglum MSÍ:

5. Gult flagg. Merkir að í brautinni sé hindrun – keppandi gæti ýtrustu varúðar og hægi á ökutæki sínu. Keppendum er stranglega bannað að nýta sér gult flagg til framúraksturs.

Flaggreglur MSÍ er að finna hér: http://msisport.is/content/files/public/reglur/Flaggreglur.pdf

Vil að endingu þakka öllum þeim sem fjölmörgu sem hafa hamast við erfiðar aðstæður við að undirbúa brautina og svæðið fyrir keppni. Reynir, Garðar, Palli og Aron, Óli Gísla, Biggi, Guggi, Sorpustrákarnir, Bína og allir hinir eiga þakkir inni fyrir sitt framlag!

Ein hugrenning um “Allt að verða klárt í Álfsnesi”

Skildu eftir svar