Grjót-F******-Hart-Euro-Enduro – Hella 14.5.2016

Hella2015

Fyrsta umferðin í enduro fer fram á Hellu 14. maí 2016. Þetta er þriðja árið í röð sem þessi keppni er haldin þarna í þessari mynd.

Hellusvæðið er vel þekkt fyrir sínar torfærukeppnir. Það ættu ansi margir að tengja við mýrina og ánna þó að minningin innihaldi misjöfn nöfn. Það væru nöfn á borð við Árna Kópsson, Gísla G. Jónsson, Jón Ingileifsson eða Guðbjörn Grímsson. Þess má einmitt geta að helgina á undan er torfærukeppni á Hellu. Þannig að ef fólk vill sjá svæðið áður en það skráir sig til leiks í enduro er um að gera að skella sér á torfærukeppni og skoða brekkurnar í leiðinni. Mýrin og áin eru nú ekki hluti af endurobrautinni en það er svakalega flott að sjá bíla á borð við Kötlu spreyta á ánni og mýrinni. Skráningin í endurokeppnina er opin fram yfir þá helgina.

Keppt er í mismunandi aldursflokkum sem keyrðir eru 2 x 45 mínútur yfir daginn. Svo er keppt í meistaraflokk og tvímenningsmeistaraflokk sem keyrðir eru 2 x 90 mínútur yfir daginn.

Jóhanna Guðrún mun starta keppendum. (samt ekki)

Páll Óskar mun skemmta á milli umferða. (samt ekki)

Bræðurnir Olsen munu svo skemmta í verðlaunaafhendingunni. (samt ekki)

Brautin er að miklu leyti sandur og að smá hluta vegur og graslendi. Mikið er um brekkur sem er gaman að eiga við og eru góð æfing fyrir þau sem langar að bæta sig í hjólamennskunni.

Skráðu þig á Hellu og komdu hjólasumrinu almennilega í gang. Þú finnur ekki skemmtilegri leið til þess að verja deginum áður en þú skellir þér í Eurovision-partý. Þú verður alla veganna með skemmtilegasta svarið við: ,,Hvað gerðir þú svo í dag?“

Skráning er hafin á vef MSÍ.

Við viljum þó minna á að ALLUR akstur á svæðinu fyrir og eftir keppni er STRANGLEGA BANNAÐUR. Þannig að nýtið tækifærið til þess að hjóla þarna og takið þátt í enduro-inu.

Skildu eftir svar