Áramótakveðja frá stjórn VíK, ekkert Klaustur ofl. fréttir

Sæl öll sömul og gleðilegt nýtt ár!
Síðasta ár var ansi líflegt og mikið sem hefur áunnist á stuttum tíma. Bolaöldusvæðið hefur sannarlega staðið fyrir sínu og nú er þar komið eitt flottasta enduro og motocrosssvæði landsins en við erum langt því frá hættir uppbyggingunni.

Rafmagn komið á svæðið!
Í desember var loksins tengt rafmagn inn á svæðið sem er líkast til ein stærsta og dýrasta framkvæmd sem félagið hefur lagt út í en um leið nauðsynleg til að geta haldið áfram að byggja svæðið upp af krafti. Víðir rafvirki og Árni Stefánsson keyrðu það verkefni áfram af krafti og fá bestu þakkir fyrir alla aðstoðina.

Með tilkomu rafmagns opnast margir nýir möguleikar t.d. hvað varðar uppsetningu veftengingar, netmyndavéla og jafnvel “sjálfvirks” tímatökubúnaðar á svæðinu. Fjárfest hefur verið í vökvunarkerfi sem verður sett upp næsta vor amk í hluta brautarinnar. Þá er áhugi fyrir því að skoða flóðlýsingu á brautunum fyrir næsta vetur sem ætti að lengja tímabilið um einhverjar vikur eða mánuði. Nú svo er húsið auðvitað alltaf heitt þessa dagana án þess að vera með díselsleggjuna stanslaust í gangi. Motormax og Ásbjörn Ólafsson hafa kostað öfluga háþrýstidælu sem verður sett upp á þvottaplaninu fyrir sumarið. Að öðru leiti verður auðvitað haldið áfram að laga og þróa motocrossbrautina og enduroslóða og jafnvel athuga með að setja upp aðramotocross/æfingabraut ef svigrúm gefst til. Og hver veit, stjórn félagsins hugsar stórt og hefur fullan hug á að leita leiða til að koma upp aksturshúsi á svæðinu í náinni framtíð ef dæmið fæst til að ganga upp.

Starfsmaður fastráðinn fyrir sumarið
Í desember var gengið frá samningi við Garðar Hilmarsson (oft kallaður „Smiley“ sem segir allt sem segja þarf um þjónustuna 🙂 um að starfa fyrir félagið í sumar í fullu starfi. Garðar vann fyrir félagið í sumar og fram á haust og hefur verið mikil ánægja með hans störf. Í vetur verður Garðar í hlutastarfi og sér um lítilsháttar viðhald og smíðar fyrir svæðið auk annarra verkefna en frá 1. apríl kemur hann til með að vera 100% á svæðinu. Garðar hefur ásamt Dóra félaga sínum séð um KTM-ferðir og mun sinna hjólaleigunni áfram með störfum fyrir félagið.

Ekkert Klaustur í ár
Mikið hefur verið rætt um framhald Klausturskeppninnar. Sú ákvörðun hefur verið tekin í samráði við Kjartan á Klaustri að halda keppnina ekki í ár. Keppnishaldið hefur kallað á gríðarlega vinnu allt of fárra aðila og með litlu eða engu samstarfi eða aðstoð frá sveitarfélaginu eða öðrum hagsmunaaðilum. Því er hreinlega ekki lengur áhugi hjá VÍK/Kjartani á að halda þessu samstarfi áfram á sömu forsendum. Það er miður því samfélagið á Klaustri hefur án efa notið góðs af heimsóknum hjólamanna á undanförnum árum – en enginn veit greinilega hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

12 tíma næturkeppni haldin 20. – 21. júní í staðinn
Í staðinn fyrir Klausturskeppnina hefur verið ákveðið að halda 12 tíma keppni á Bolaöldusvæðinu á björtustu dögum ársins. Planið er að hefja keppni kl. 12 á miðnætti 20. júní (föstudag) og ljúka keppni 12 á hádegi laugardag. Skoðað verður að leggja brautina um stærra svæði í samráði við sveitarfélagið Ölfus og/eða Kópavog. Stefnan er að bjóða upp á +/- 60 mínútna krefjandi hring þar sem keppendur geta verið 1-4 í liði. Einnig hefur verið rætt um að bjóða upp á styttri “keppnir” þ.e. 3, 6, eða 9 tíma keppnum ef skipulagið leyfir. Nánara fyrirkomulag og reglur verða væntanlega kynntar á næstu vikum.

Aðalfundur 14. febrúar
Aðalfundur félagsins verður væntanlega haldinn 14. febrúar nk. Allir stjórnarmenn hafa lýst áhuga á að vera áfram í stjórn en óvíst er með meðlimi nefnda. Endanleg dagssetning og staðsetning verður auglýst á á næstunni. Núverandi nefndarmenn og aðrir sem eru áhugasamir um að taka þátt í gríðarlega öflugu uppbyggingarstarfi í sportinu geta haft samband við mig í síma 669 7131 sent tölvupóst á vik@motocross.is og fengið nánari upplýsingar um hvernig þeir geta hjálpað til.

Vona að þetta upplýsi menn um það helsta sem framundan er í starfi félagsins og ef ekki þá er bara að spyrja 🙂

Hjólakveðja

F.h. stjórnar VÍK

Hrafnkell Sigtryggsson formaður VÍK

Skildu eftir svar