Aðstoð óskast við frágang á húsinu í Bolöldu.

Undanfarna daga hafa fjölmargir lagt mikla vinnu í að standsetja húsið við Bolöldu. Næstu kvöld ætlum við að reyna að klára að standsetja húsið að innan og þá vantar okkur aðstoð við málningarvinnu, þrif og ýmsar smá lagfæringar.

Í kvöld (þriðjudag) var verið að jafna svæðið í kringum húsið fram á miðnætti (takk Jói, Hjörtur, Biggi og Kristján) og á morgun verður steypt 110 fm stétt í kringum það ásamt hjólaþvottaplani sem verður staðsett rétt við gáminn. Steypustöðin Mest ætlar að gefa félaginu allt efni, steypu og járn, sem sem þarf í stéttina og full ástæða fyrir okkur að hafa það í huga næst þegar einhvern vantar steypu. Grétar Sölvason (bróðir Gunna) ætlar að sjá um steypuvinnuna og að stimpla steypuna og ganga frá stéttinni fyrir okkur á eftir. Grétar fór í það upp á sitt einsdæmi að útvega steypu og koma þessu máli af stað og það er því full ástæða að þakka honum kærlega fyrir það – ómetanlegt!

Í framhaldinu er svo stefnt er að því að smíða líka pall austan við húsið þannig að það verði hægt að ganga sæmilega hreinum fótum um húsið þegar það opnar. Búið er að tengja við það vatn og rafmagn (keyptum veglega rafstöð í það) ásamt því að setja niður rotþró. Pípararnir, Andrés, Svenni, Elli ofl hafa  bæði unnið vinnuna við þetta og lagt til allt efni ss. dælu, rotþró, klósett og allt efni sem er ekkert smáræðis framlag í þágu okkar hinna! Gunni málari lagði til málninu og málaði allt húsið að utan. Síðan hafa okkur borist húsgögn og ýmislegt smálegt í húsið úr ýmsum áttum. Þá hefur Hjörtur lagt nótt við dag í þessu og sýnt enn og aftur hversu miklu máli það skiptir að geta verið með starfsmann í fullu starfi fyrir félagið.

En betur má ef duga skal og til að geta notað húsið um helgina er öll aðstoð mjög vel þegin næstu daga og kvöld. Það er gríðarlegur kraftur í öllu okkar starfi þessa dagana og því um að gera fyrir sem flesta að leggja því lið til að margfalda átakið og létta vinnuna fyrir alla!

Kveðja, Keli formaður.

Skildu eftir svar