Ferðaskýrsla

höfundur: Haraldur Ólafsson

Hálendis- og vatnaæfing enduro.is 11. og 12. ágúst 2001

Laugardaginn 11.ágúst lögðu 6 enduro-hetjur upp í æfingartúr um hálendi Íslands. Fimm hjólamenn og einn bílstjóri á trússbíl.Hetjurnar 6 voru þeir;

  • Haraldur Ólafsson (KTM 520 EXC),
  • Sveinn Markússon (Husaberg 501 FE),
  • Kjartan Kjartansson (Gas Gas 300 EC),
  • Árni Ísberg (Husaberg 400 FE),
  • Páll Ágúst Ásgeirsson (KTM 400 EXC).
  • Guðmundur Bjarnason (ISUZU Troper turbo intc, 38´)

Ferðin hófst við Hrauneyjar og var ekið af stað kl 13:30. Ekki tókst öllum að komast klakklaust af stað. Hjólið hans Sveins var með einhver leiðindi við eigandann, eftir margar gangsetningar og jafn margar ádrepslur var ákveðið að opna blöndunginn. Kom þar í ljós að Sveinn drekkur ekki einn þegar hann læðist út í bílskúr, blöndungurinn var nefnilega fullur af Holsteinbjór, Sveinn sagði reyndar hann vera fullan af vatni. Eftir að runnið hafði af Holsteinbergnum gekk hann eins og í sögu og BergSveinn vatni gat haldið áfram.
Leiðin lá inn á Búðarháls og þarf þá að fara yfir Köldukvíslina, ákveðið var að prófa hinar ýmsu aðferðir við að fara yfir ánna, fyrstur fór “foringinn” hann renndi í ánna á 148 km hraða planaði yfir og komst yfir án þess að að fá á sig vatnsdropa. Næstur kom Kjartan,hann var búinn að sjá út náttúrulegann stökkpall og ætlaði sér að stökkva yfir ánna, eftir 1,1m flug í lausu lofti lenti Kjartan í miðri ánni í 80cm djúpu vatni, pallurinn var víst heldur brattur, hann fór aðallega upp en lítið áfram. Kjartan ók síðan á afturdekkinu upp úr hylnum og þegar upp úr var komið var heill laxahamur fastur við pústið á hjólinu. Nú var komið að Páli, hann ætlaði að athuga hvort áin væri full af fiski og fór í dýpsta hylinn, hylurinn var svo djúpur að kollurinn á hjálmi Páls sást bara gára vatnsborðið. Út í miðjum hyl sá Palli laxatorfu og stóð upp á hjólinu til að ná andanum og segja okkur frá öllum löxunum en þá rakst hann óvart í ádreparann og það drapst á vélinni, og var hann borinn upp úr ánni. Næstur kom Sveinn,hann ætlaði að fara á afturdekkinu yfir ánna og gekk það ágætlega út í mitt vatnsfallið, en krafturinn í Bergnum er svo rosalegur að hjólið vildi spóla sig niður í malarbotninn. Sveinn setti bara í fjórða gír og gaf í botn og komst yfir. Það vakti athygli manna að þegar Sveinn var kominn yfir var komin ný þriggja rúmmetra malarhrúga á árbakkann, hinu meginn við ánna, farvegur árinnar breyttist til muna, Sveinn vatni er í miklum vandræðum núna vegna þess að hann gleymdi að fara í umhverfismat, og hamast Landsvirkjun með her lögfræðinga á Holstein vinunum tveimur. Nú var Árni einn eftir, hann horfði lengi á beljandi vatnsflauminn og velti fyrir sér hvaða aðferð væri nú best til að fara yfir. Tók hann þá ákvörðun að keyra 500 metra niður með ánni og fara þar yfir brú sem þar er.
Eftir ævintýrin í Köldukvísl voru þræddir hinir ýmsu slóðar á Búðarhálsinum, gert við sprungin dekk í tvígang, fossinn Dynkur var skoðaður og verður að segjast að hann er með þeim glæsilegri vatnsföllum sem Landsvirkjun vil þurrka. Eftir Búðarhálsinn var stefnan tekin norður fyrir Þórisvatn en þar er hægt að fara yfir aðveituskurð á brú sem þar er. Þar var komið inn á gamlan slóða sem liggur um Veiðivatnahraun, leiðin í gegnum hraunið er mjög jafnvel meira en skemmtileg, til að byrja með eru farnar krókaleiðir í gegnum hraunhóla, eftir sand sem þar liggur og sjaldan meira en 5 metrar á milli stefnubreytinga, nema Páll, hann fór beint yfir slétt helluhraunið. Leiðin verður smá saman greiðfærari og síðustu km eru hlykkjóttir sandslóðar sem unun er að aka eftir (120+ km/klst). Þessi slóði kemur síðan inn á Jökulheimaveg u.þ.b.17 km frá Jökulheimum. Á þessum gatnamótum fékk Gas Gas 300 heimþrá og tók stefnuna til byggða, Sveinn þurfti að skella Bergnum í 160 til að ná Kjartani og var það eftir 5 km sem tókst að snúa Gas Gas-inu við. Leiðin inn í Jökulheima var síðan greiðfær og var Kjartan leiddur til að taka ekki einhverjar óvæntar beygjur.
Í Jökulheimum beið okkar frábær skáli og fóru þeir Páll yfirmatreiðslumeistari og Guðmundur trússari að elda kvöldverð. Í boði var vatnsmelóna í forrétt, grillað lambalæri af nýslátruðu, bakaðar kartöflur úr Þykkvabænum og fleira góðgæti ásamt dönsku öli. Taka verður fram að ekki var drukkinn Holstein því BergSveinn vatni og Husabergið hans hafa gengið það á byrgðir Danols að Októ hefur séð sig neyddan til að takmarka aðgang BergSveins að mjöðinum.
Eftir kvöldverðinn var í tilefni afmælis Sveins vatna skálað í freyðivíni og borin fram afmælisterta, sú magnaðasta sem karlinn hefur upplifað til þessa. Hún var svo mögnuð að allir liti til skaparans á himnum í andagt. Eftir tertuna var boðið upp á japanskt grjónavín (sake), til minningar um allt sem japanskt er.
Sunnudag vöknuðu menn í góðu veðri, snæddu morgunverð og gerðu sig klára fyrir daginn. Ætlunin var að fara yfir Tungnaá og eftir Breiðbak, niður Skælingja og inn á Fjallabaksleið hinn nyrðri.
Annar ferðahópur var á svæðinu á sömu leið og var ákveðið að vera í samfloti yfir ánna. Farið var niður eftir ánni og yfir nokkra ála en þurftum eftir nánari skoðun frá að hverfa vegna þess hve mikið var í ánni, þó ekki fyrr en Páll hafði farið fram og til baka um árbakann. Við snérum okkur því að plani-B sem var að fara um Veiðivatnasvæðið. Fórum sem leið lá inn í Hraunvötn, ókum síðan um vatnasvæðið stoppuðum við skálana, en þar hittum við Guðmund á trússbílnum og allir fylltu bensíntanka sína, Kjartan tvisvar þar sem hann er mótorhjóli. Nú var farið slóða sem liggur austur fyrir Snjóöldufjallgarðinn og upp með Tungnaá. Á þessum stað breiðir áin mjög mikið úr sér og er mögnuð yfir að líta, einnig er þarna að sjá Tröllið sem er hár og mjór klettadrangur sem stendur eins og þvara upp úr sandinum. Næst var ekið eftir ýmsum slóðum á Veiðivatnasvæðinu og stefnan tekin á Skyggnisvatn. Þangað er drjúg leið í sandauðninni og hægt að aka greitt eftir sandslóðum. Á leiðinni frá Skyggnisvatni fóru sumir upp á Skyggni sem er u.þ.b.900m og horfðu yfir svæðið og verður að segjast að útsýnið var vægast sagt magnað, þetta var eins og að vera í flugvél (taka verður fram að ekki trúa allir leiðangursmenn þessum staðhæfingum, lágskýjað var með eindæmum þó ekki þoka og fjallið ekki það hátt miðað við umhverfið, frekar leikur grunur á að áhrif japanska vínsins fara svona með menn þegar loftið þynnist). Frá Skyggnisvatni var síðan farið sem leið lá eftir Veiðivatnavegi inn á Sprengisandsleið og niður í Hrauneyjar en þar var trússbíllinn mættur. Í Hrauneyjum snæddu leiðangursmenn hamborgaramáltíð settu hjól á kerrur og óku niður í Þjórsárdal, þar var farið í sund og eftir það til byggða. Semsagt topptúr í frábærum félagsskap.

Skildu eftir svar