Vefmyndavél

Bikarmóti frestað ótímabundið vegna veðurs

Bikarmótinu sem er á keppnisdagatali MSÍ og átti að vera um helgina í Bolaöldu hefur verið frestað þar til önnur dagsetning finnst. Það hefur ekki farið framhjá neinum að veðrið hefur ekki verið með hinu besta móti hér fyrir sunnan þetta sumarið og um helgina spáir ansi duglegri rigningu. Þó að staðreyndin sé sú að menn og konur sem keyra torfæruhjól á Íslandi séu algjörir naglar, eins og sannaðist á Selfossi, þá teljum við betra að reyna að finna hentugra veðurfar fyrir svona keppni sem á bara að ganga út á skemmtunina. Íslandsmótin eru að sjálfsögðu upp á skemmtunina en þar býr meira að baki þar sem um mótaröð er að ræða. Vonandi finna sér allir viðeigandi aðstæður til þess að hjóla í um helgina. Nánar um þetta bikarmót síðar.

Stjórn VÍK

Er fólk ekki að verða KLÁRT fyrir skemmtilegustu keppni 2018!

 

Skráningu á Klaustur 2018 miðar vel af stað en ennþá eru sæti laus og hvetjum við fólk til þess að rífa sig í gang og skrá sig í skemmtilegustu keppnina á árinu.
Það geta allir tekið þátt á Klaustri, hvort sem þú ert byrjandi eða vanur.

Við viljum minna alla á að fara inná (https://msisport.felog.is/) og greiða skráningargjöld, já eða greiða greiðsluseðla í heimabanka.

Allir sem taka þátt á Klaustri 2018, verða að vera skráðir í félag og það er nóg af þeim til á landinu. Tekið verður á þessu fljótlega og hvetjum við alla keppendur til þess að ganga frá þessum málum áður en skráningu líkur.

Í ár sem endranær þarf auðvitað að skoða öll hjól áður en þau fá grænt ljós á þátttöku.
Skoðun á höfuðborgarsvæðinu fer fram hjá King Karl í MOTO- Gylfaflöt 16, þriðjudaginn 22. maí, milli kl. 18:00 og 20:00.  Skoðað verður einnig hjá öðrum klúbbum á landsbyggðinni.

!! ATHUGIÐ að skoðun á Klaustri, á keppnisdegi, verður EKKI í boði eins og áður!
Einungis verður mögulegt að fá „neyðarskoðun“ fyrir þá sem hafa gilda ástæðu fyrir slíku.
Þátttakendur verða því að ganga frá sínum skoðunarmálum þriðjudaginn 22. maí, svo ekki verði eitthvað ves á keppnisdegi.  

Stjórnin

Klaustur 2018

Dags: 26.05.2018

Í dag kl. 21:00 hefst skráningin fyrir skemmtilegasta mót ársins

Gefið ykkur tíma til þess að lesa allt hér fyrir neðan!

Skráningin fer fram á nýrri og endurbættri skráningarsíðu þar sem hin var ekki alveg að standa undir álagi.
Ný og betri síða: https://msisport.felog.is/

Nýtt skráningarkerfi MSÍ – leiðbeiningar

Kerfið er smíðað og rekið af Greiðslumiðlun í samstarfi við MSÍ. Einungis er boðið upp á greiðslur með debet, kreditkortum og greiðsluseðlum í upphafi. Þeir sem óska eftir öðrum greiðsluleiðum verða að hafa samband við vik@motocross.is.

Allar skráningar eru bindandi og nú þarf að skrá liðsfélaga með kennitölu um leið og lið er skráð til keppni. Þeir sem ekki hafa liðsfélaga kláran geta skráð í tví- eða þrímenning ÁN LIÐSFÉLAGA og VÍK parar svo liðsfélaga inn í keppnina af handahófi þannig að allir geta verið með í gleðinni.

Skráningarleiðbeiningar:
1. Skráningarkerfið er á slóðinni: http://msisport.felog.is
2. Skráðu þig inn með rafrænu auðkenni eða Íslykli – forráðamaður skráir sig inn fyrir alla yngri en 18 ára.
3. Við fyrstu skráningu þarftu að skrá inn tölvupóstfang og símanúmer ÁN bils eða bandstriks og samþykkja almenna skilmála MSÍ fyrir notkun á vefnum.
Hægt er að setja inn mynd og aukaupplýsingar undir „Stillingar“ en ekki nauðsynlegt.
4. Næst ferðu í „Skráning í boði“. Þar sérðu alla flokka sem þú getur skráð þig í og velur þann flokk sem þú ætlar taka þátt í.
5. Ef þú ert að skrá þig í tveggja eða þriggja manna lið seturðu kennitölu liðsfélagans/-anna í viðeigandi reit OG aðildarfélag þitt innan MSÍ. EKKI er hægt að klára skráninguna nema að skrá inn þessar upplýsingar!
Athugið að keppendur verða að hafa greitt félagsgjald fyrir yfirstandandi ár til að geta tekið þátt í keppninni.
6. Því næst velurðu „Greiðslumáta“ og setur inn kortaupplýsingar.
7. Að lokum lestu yfir skilmála og hakar svo við „Samþykki skilmála“ og smellir svo á „Áfram“ til að ganga frá skráningunni.
8. Í lokin geturðu skoðað og prentað kvittun eða fengið senda staðfestingu í tölvupósti.

Liðsfélagar sem hafa þegar verið skráðir:
1. Þeir sem hafa verið skráðir sem liðsfélagar í tveggja eða þriggja manna lið skrá sig líka inn á http://msisport.felog.is
2. Skráðu þig inn með rafrænu auðkenni eða Íslykli – forráðamaður skráir sig inn fyrir alla yngri en 18 ára.
3. Við fyrstu skráningu þarftu að skrá inn tölvupóstfang og símanúmer ÁN bils eða bandstriks og samþykkja almenna skilmála MSÍ fyrir notkun á vefnum.
Hægt er að setja inn mynd og aukaupplýsingar undir „Stillingar“ en ekki nauðsynlegt.
4. Næst ferðu í „Skráning í boði“. Þar sérðu efst þann flokk sem þú hefur verið skráð(ur) í. Lengst til hægri sérðu „Greiða námskeið“ og smellir á það til að ganga frá greiðslu á keppnisgjaldi og samþykkja skilmála MSÍ og keppnishaldara.
Ath. Kerfið er notað af fleiri íþróttasamböndum/félögum. „Námskeið“ er því samheiti notað fyrir þátttöku hvort sem um keppni, námskeið eða aðra skráningu er að ræða.
5. Því næst skráirðu aðildarfélag þitt innan MSÍ. EKKI er hægt að klára skráninguna nema að skrá inn þessar upplýsingar!
Athugið að keppendur verða að hafa greitt félagsgjald fyrir yfirstandandi ár til að geta tekið þátt í keppninni.
6. Því næst velurðu „Greiðslumáta“ og setur inn kortaupplýsingar.
7. Að lokum lestu yfir skilmála og hakar svo við „Samþykki skilmála“ og smellir svo á „Áfram“ til að ganga frá skráningunni.
8. Í lokin geturðu skoðað og prentað kvittun eða fengið senda staðfestingu í tölvupósti.

Allar fleiri upplýsingar um keppnina má finna á : http://www.klausturoffroad.is/

ATH! Aðeins 300 sæti eru laus fyrir Klaustur 2018 og skráningu lýkur með formlegum hætti 2 vikum fyrir mót. Það verður þó hægt að skrá sig fram að keppnisdag þ.e.a.s. ef það eru laus sæti en það verður gegn hærra gjaldi!

ATH,ATH! Allir keppendur þurfa að fara inná skráningarsíðuna http://msisport.felog.is og samþykkja skilmála og greiða hver og einn! Með þessu viðmóti komum við í veg fyrir að allir keppendur þurfi að skila inn þátttöku-yfirlýsingu (sem hefur verið vesen undanfarinn ár) og auðveldar þetta allt ferlið í skráningu, bæði fyrir keppnishaldara og fyrir keppendur.

Mikið hlakka ég til að sjá ykkur á Klaustri 2018 þann 26.05.2018

Með bestu kveðju. Gatli

Nýr formaður hefur tekið við

Í fyrrakvöld fór fram aðalfundur VÍK 2017. Mætingin á fundinn hefði klárlega mátt vera betri en við þökkum þeim fyrir sem komu og tóku þátt í fundahöldum. Það sem helst ber að nefna eftir þennan fund er það að Sigurjón Snær Jónsson lét af störfum sem formaður VÍK eftir tveggja ára setu í því starfi og við tók nýr formaður. Garðar Atli Jóhannsson, betur þekktur sem Gatli, tók við hlutverkinu. Gatli hefur verið í sportinu í þó nokkur ár og bjó tímabundið erlendis þar sem hann stundaði sportið einnig. Fyrir þau ykkar sem hafa komið á Klausturskeppnina að Ásgarði, þá er brúin góða við skiptisvæðið handverk Gatla. Þannig að hann hefur heldur betur sett mark sitt á Klausturskeppnina góðu. Við bjóðum Gatla velkominn til starfa og óskum honum góðs gengis í starfi sínu sem formaður VÍK.

Stjórn félagsins hafði ekki mannaskipti þetta árið en tveir stjórnarmenn skiptu með sér hlutverkum. Guðbjartur Stefánsson vék úr aðalstjórn og færði sig yfir í varatjórn. Í staðinn fór Daði Þór Halldórsson úr varastjórn yfir í aðalstjórn. Hér að ofan má sjá stjórnina ásamt nýjum formanni. Ýmis verkefni voru rædd á fundinum t.d. slóðarnir í Bolaöldu og virkjun á nefndum félagsins. Félaginu vantar hendur í verkefni ársins og óskum við því eftir fólki sem hefur áhuga á að koma í skemmtilegt félagsstarf með okkur. Það er úr ýmsu að moða og ef einhver þarna úti er með góða hugmynd fyrir verkefni hjá félaginu sem viðkomandi er tilbúinn að vinna í er um að gera að hafa samband við stjórnina. Við erum í viðræðum við herramann sem hefur áhuga á að taka yfir skrif á heimasíðu félagsins. Félagið býr yfir tveimur heimasíðum eftir að Klausturskeppnin fékk sína eigin heimasíðu og ef það er e-r þarna úti sem hefur áhuga á að koma að viðhaldi og breytingum á heimasíðum félagsins má viðkomandi endilega hafa samband við stjórn félagsins.

Stjórnin (Ekki Sigga og Grétar)

Aðalfundur VÍK – þriðjudaginn 12. des kl. 20:00 – Formaður lætur af störfum

Aðalfundur VÍK verður haldinn í Laugardalnum n.k. þriðjudag kl. 20:00. Fundurinn fer fram í sal C í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal við Engjaveg 6. Á boðstólum verður kaffi og með því. Dagskráin verður í samræmi við hefðbundin aðalfundarstörf.

Skv. lögum VÍK er stjórn félagsins kosin á hverju ári. Það á við um formann, stjórnarmenn og varamenn. Flestir stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi starfa en þar sem formaðurinn er fluttur út á land gefur hann ekki kost á sér til endurkjörs. Félagið þarf þá á nýju blóði að halda. Félagið þarf einhvern eða einhverja sem hefur áhuga á uppbyggingu og viðhaldi á því sem snýr að akstri torfæruhjóla í og við Reykjavík á meðal annars. VÍK er stærsta torfæruhjólafélagið innan MSÍ og það heldur flesta keppnisviðburðina sem og stærsta keppnisviðburð ársins. Það sem félagið virkilega þarf eru fleiri hendur til þess að koma að starfinu. Með fleiri höndum og meiri dreifingu á verkefnum verður meira í boði fyrir félagsmenn, hvort sem það eru byrjendur eða lengra komnir, og það verður minni vinna fyrir hverja hönd. Um íslensku tunguna var eitt sinn sungið „Að gæta hennar gildir hér og nú, það gerir enginn nema ég og þú.“ Það á einmitt við um áhugamálið okkar núna.

Þú, já þú, þekkir klárlega einhvern eða einhverja sem væri flottur aðili í þetta hlutverk. Þú ert jafnvel einstaklingur sem átt fullt erindi í þetta starf. Framboð má alveg tilkynna fyrir fundinn á netfangið, vik@motocross.is eða til einhvers í stjórninni. Framboð til stjórnar og varamanns stjórnar eru að sjálfsögðu líka velkomin. Að lokum má nefna að framboð mega einnig alveg koma fram á fundinum. Endilega hafið samband við fráfarandi formann eða aðra stjórnarmenn til þess að fræðast um starfið fyrir fundinn ef þið háfið áhuga á starfinu.

Ef þið þekkið manneskju sem getur sinnt þessu starfi, hvetjið viðkomandi áfram til þess að koma í starfið. En, ekki láta það duga. Komið með viðkomandi og vinnið í starfinu. Við þurfum að manna nefndir sem taka að sér sérhæfð verkefni sem munu ekki gera neitt annað en gera starf VÍK betra. Hefurðu áhuga á e-m sérstökum hluta starfsins? Komdu á fundinn og láttu okkur vita. Það þarf ekki bara að snúa að því að týna steina eða mála grindverk. Við höfum alveg not fyrir tölvukunnáttu í heimasíðuna. Við höfum not fyrir góða og áhugasama penna fyrir heimasíðuna. Við höfum góð not fyrir viðburðaskipuleggjendur fyrir Klaustur, skemmtikvöld og hvað sem fólki dettur í hug.

Komið! Gerum þetta saman!

Stjórn VÍK

Aðeins um frestun á keppni og viðhorf

Í dag tók ég þá ákvörðun að fresta síðustu umferð Íslandsmótsins í motocross-i, sem fara átti fram í Bolaöldu, um sólarhring. Fyrir keppnisdag hafði mér verið bent á veðurspá sem leit ekki vel út. En fram á föstudagskvöld var hún ekki svo ósvipuð fyrir laugardag og sunnudag. Það munaði örfáum metrum á sekúndu og á laugardeginum var spáð 4 mm af rigningu en sunnudeginum 2 mm af rigningu. Fyrir það fannst mér alls ekki vera tilefni til þess að fresta keppninni. Einmitt af því að keppendur hafa gert ráð fyrir þessum degi og mögulega verið með aðrar áætlanir með sunnudag.

Svo þegar ég vakna í morgun blasti við mér ansi ógeðfellt veður. Ég skoðaði spánna aftur og hún var búinn að taka ansi mikinn viðsnúning um nóttina. Nú var spáð 13 eða 15 mm af rigningu og töluvert meira roki. Sem og stormi upp úr hádegi. Ég fór upp í Bolaöldu því reynslan hefur sýnt að það geti munað ótrúlega á veðri þar og í Reykjavík. Þar var veðrið jafnvel verra enn í Hafnarfirði og spáin versnaði enn, en hún spáði því að veðrið myndi ganga niður með kvöldinu og að á morgun eigi að vera mun skaplegra veður.

Ég tók skjáskot áðan af mælingum Vegagerðarinnar af Sandskeiði. K. 16:10 í dag mældust vindhviður á Sandskeiði 27,8 metrar á sekúndu og vindhraði 16,5 metrar á sekúndu. Til samanburðar dettur kaskótrygging á ferðavögnum úr gildi í 24,5 metrum á sekúndu. HÉR má einnig lesa eftirfarandi skilgreiningu á vindstyrk: “

10 Rok 24,5-28,4 Fremur sjaldgæft í innsveitum. Tré rifna upp með rótum, talsverðar skemmdir á mannvirkjum.

Það sem hefði mögulega sloppið í morgun varð að miklu meira en það. Á gefnum tíma hér að ofan hefðum við (starfsfólk) verið búin að standa í þessu veðri síðan kl. 9:00 og værum að raða á línu fyrir síðasta moto.

Svona ákvörðun er ekki auðveld og það er ekki auðveldara að á næsta klukkutímanum komi inn nýr einstaklingur á 5 mínútna fresti og segi manni hversu mikill aumingi og vesalingur maður er. Sérstaklega þegar maður gerir þetta til þess að tryggja öryggi fólks en er ekki að reyna að skemma sportið. Ef eitthvað er, þá veit ég ekki hvað ég á að gera meira fyrir sportið. Ég er formaður tveggja félaga, ég er í stjórn MSÍ og ég er í þessum litlu hópum af fólki sem heldur Klaustur, Hellu, og Bolaöldukeppnirnar. Allt í frítíma mínum.

Ég skil vel að það sé mjög pirrandi að fá að vita það þegar á staðinn er mætt að keppni falli niður. Keppandi og aðstandandi eru að sjálfsögðu undir daginn búnir og keppandi þarf að „harka“ veðrið af sér í 10 mínútna tímatöku og tveimur moto-um sem eru frá 15 mínútum upp í 25 mínútur. Þess á milli getur keppandi skipt um föt, farið inn í bíl/kerru/hús. Flest allir keppa bara annað hvort fyrir eða eftir hádegi.

Starfsfólk (sem er ekki beint að bíða óþreyjufullt í röðum eftir að fá að aðstoða) þarf að standa úti frá 9:30 – 16:45 í þessu veðri. Það er ekki bara óboðlegt þarna uppi á fjöllum heldur verður einbeiting flaggara ansi lítil sem dregur úr öryggisþætti. Þar kemur einmitt inn munurinn á því að vera graður keppandi og sá sem ber ábyrgð á viðburðinum. Keppandinn hugsar um sig og sinn dag en ábyrgðaraðili hugsar um alla. Ef eitthvað alvarlegt kemur fyrir í slíkum aðstæðum verður hjólað beint í þann aðila sem ber ábyrgð á öllu og hann inntur eftir svörum hvers vegna keppni hafi farið fram við þessar aðstæður.

Frestunin var tilkynnt um leið og ákvörðun var tekin. Notast var við samskiptamiðla og heimasíðu félagsins. Að ætlast til þess að allir keppendur fái SMS og tölvupóst við svona ákvörðun er ansi langsótt. T.a.m. geri ég strax ráð fyrir að nothæf símanúmer og netföng keppenda sem skráð eru á þeirra svæði á msisport.is séu allt að því í minnihluta.

Þó að Ísland sé vel þekkt fyrir það að sjúga hreinan sora inn í athugasemdir var ótrúlegt að lesa margt það sem fólk skrifaði um þessa ákvörðun. Sumt af því sýndi fram á svo dapurt viðhorf gagnvart fólki sem gefur tíma sinn í þetta starf og var svo niðurdrepandi fyrir sportið eins og það leggur sig á Íslandi. Hver ætti að hafa áhuga á því að taka upp þetta sport þegar mórallinn og andrúmsloftið er ekki betra en þetta? Hverjar eru líkurnar á því að einhverjir aðilar sem gætu haft minnsta áhuga á að koma inn í starfið geri það þegar þeir vita að þetta eru viðbrögðin við því sem er ákveðið.

Þegar þú sest við lyklaborðið og notar orð eða orðasamböndin aumingi, hálfviti og fáviti, hvert er markmiðið? Hverju á það að skila? Hvernig ertu að bæta eitthvað með því?

Ég veit að einhverjir keppendur komast ekki á morgun að keppa vegna utanlandsferða og annars. Ég harma það og mér þykir það leitt. Þeir sem mæta ekki á morgun af því að þessi ákvörðun fer í taugarnar á þeim verða algjörlega að lifa með því.

Virðingarfyllst

Sigurjón Snær Jónsson

Formaður VÍK

Síða 5 af 940« Fyrsta...34567...2040...Síðasta »