Málþing um hálendisvegi

Miðvikudaginn 15. mars var haldin málstofa á vegum Landverndar sem bar yfirskriftina Hálendisvegir – hvert stefnir og hvað er í húfi?  Tilefni málstofunnar var nýútkomin skýrsla svokallaðs hálendshóps Landverndar, en þessi hópur tók saman gögn um nýverandi ástand í vegamálum og reyndi að greina frá stefnu stjórnvalda í þessum málaflokk. Frummælendur voru þau Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt, sem fjallaði um fyrirliggjandi áætlanir stjórnvalda er varða hálendisvegi, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, grasafræðingur, sem fjallaði um verndargildi hálendisins og áhrif vega á það, Anna Dóra Sæþórsdóttir, landfræðingur, greindi frá athugunum á viðhorfum ferðamanna til hálendisvega, Skúli H. Skúlason, formaður Klúbbsins 4×4, kynnti tillögur um mismunandi gerðir og merkingar hálendisvega og í lokun kynnti Eymundur Runólfsson, forstöðumaður áætlana- og umhverfisdeildar Vegagerðarinnar, sjónarmið Vegagerðarinnar.

Á málþingið mætti framkvæmdarstjóri VÍK, fulltrúi stjórnar VÍK og fulltrúi umhverfisnefndar VÍK. Það var sérstaklega áhugavert að skoða samsetningu þess hóps sem á málþinginu var, og sýnir glöggt hvar áhugi yngri kynslóðanna liggur, því við þrír sem mættum frá VÍK lækkuðum meðalaldur þátttakenda úr 70 í 65 (kannski smá ýkt 🙂 ). Annars voru þarna í meirihluta áhangendur gönguferða og óspilltrar náttúru.

Niðurstöður Ólafar voru einfaldar, en hennar hópur komast að því að stefna stjórnvalda er varðar hálendisvegi er svo til engin. Þetta er vont fyrir heildina, en gæti hugsanlega verið gott fyrir okkur. Hér eru sóknarfæri fyrir þá sem vilja sérstaka mótorhjólaslóða á hálendið.

Þóra Ellen tók saman umhverfisáhrif mismunandi gerða af vegum og komst að því að óuppbyggðir vegslóðar sem lagðir eru eftir landinu séu umhverfisvænustu vegirnir. Hún tók ekki á einstígum, enda eru þeir ekki viðurkenndir af Vegagerðinni sem vegur, en af hennar erindi að dæma verða slóðarnir okkar lang umhverfisvænustu vegir á hálendinu ef við fáum okkar fram. Í það minnst hvað varðar sjónræn áhrif, en svo má deild um hávaðamengunina, sem oft á tíðum er meiri en göngumenn geta sætt sig við.

Anna Dóra rakti niðurstöður kannanna á viðhorfi ferðamanna til landsins. Niðurstöður hennar komu svo sem ekki á óvart en langflestir þeir sem fara inn á hálendið eru að leyta eftir kyrrð og stórbrotinni náttúru. Hún benti á að lagning vega væri háð heildarskipulagi þeirra svæða sem veglagningin beindist að. Þetta er einmitt eitt af því sem við þurfum að hafa í huga varðandi okkar sport. Það kemur að því að við verðum að láta af hendi suma af þeim slóðum sem við hjólum í dag, og þá jafnframt taka í sátt nýja slóða (á nýjum svæðum) sem eru þá sérstaklega merktir okkur.

Skúli skýrði fyrir fundarmönnum skiptingu Vegagerðarinnar á F-vegunum og bætti við 3 öðrum flokkum. Þessi flokkun Skúli átti þá að taka til allra vega og slóða á hálendinu. Hér vantaði okkur, enda okkar einstígar ekki til í kerfinu. Skúli benti á stikanir og hvernig starf 4×4 hefur leitt til minni utanvegaakstur og færri villuslóða á hálendinu. Stikun er eitthvað sem hjólafólk þarf að fara að huga að.

Eymundur var stuttorður enda mest af því sem hann ætlaði að setja búið að koma fram. Vegagerðin hefur engar sérstakar áætlanir varðandi hálendið, nema þessar hefðbundnu heflanir og lágmarks viðgerðir. Vegagerðin er veghaldari Kaldadalsvegar, Kjalvegar, Sprengisands og Fjallabak nyðra. Það kom einnig fram að í gagnabanka Vegagerðarinnar er aðeins um 20% þeirra vega sem eru á hálendinu. Landmælingar í samstarfi við Vegagerðina eru að kortleggja vegi um landið. Þetta safn stækkar á hverju ári og hefur 4×4 lagt sín trökk í púkkið. Hjólafólk þarf að vera duglegra að tracka slóða og halda utan um þessi gögn því það kemur að því að við þurfum að sanna tilverurétt okkar á ákveðnum leiðum.

Utanvega akstur mótorhjóla bar ekki á góma á þessu málþingi, og aldrei var minnst á mótorhjól í framsöguerindum, fyrir utan eina mynd sem sýndi erlendan ferðamann hjóla ofan í á. Var þar verið að vísa til þarfa mismunandi hópa á hálendinu.  Sú umræða sem þarna fór fram sýnir að við erum ósýnilegir þegar umræðan snýst um hagsmuni notenda af hálendinu, en ef málþingið hefið verið um utanvega akstur hefum við verið á öllum glærum.  Sú staðreynd að við fengum ekki fulltrúa í þessu vinnuferli, sýnir einnig að ekki er litið á okkur sem sérstakan hóp notenda hálendisins.

Skildu eftir svar