Vefmyndavél

Sandbraut við Þorlákshöfn að taka á sig mynd.

Eins og fram hefur komið hafa mótorhjólamenn í Þorlákshöfn samið um svæði rétt utan við bæinn undir motocrossbraut. Undanfarnar vikur hefur verið unnið af krafti í svæðinu og nú er brautin farin að taka á sig góða mynd – eiginlega frábæra. Talsverð vinna er eftir enn en það sem komið er lofar gríðarlega góðu. Vonir standa til að hægt verði að opna svæðið fyrir páska ef leyfi sýslumanns fæst fyrir akstri í brautinni.

Við Reynir renndum í Þorlákshöfn í dag til að skoða það sem búið er að vinna og reyna að hjálpa til. Í stuttu máli vorum við ótrúlega sáttir við það sem búið er að gera. Svæðið er í lægð talsvert utan við bæinn þar sem er tiltölulega gott skjól og sést vel yfir brautina. Strákarnir sem hafa staðið í þessu einna mest, Siggi, Siggi og Sindri og fjöldi annarra hafa lagt nótt við dag til að gera þarna hörkubraut sem við eigum vonandi eftir á fá að njóta góðs af næstu vikum og árum. Þeir hafa m.a. keyrt um 700 rúmmetra af vikri til að laga ákveðna kafla og byggja upp bílastæði. Brautin er liggur að mestu í sandi sem er lítillega blandaður mold á nokkrum stöðum. Nokkrir pallar eru komnir upp og er að verða mjög gott flæði í gegnum brautina þó einhver vinna sé enn eftir.

Þetta er frábært framtak sem við verðum að styðja vel við þegar brautin opnar. Leyfisumsókn liggur hjá sýslumanninum á Selfossi og gengur vonandi hratt í gegn þegar brautin verður tilbúin. Stefnt er að því að selja inn á brautina í söluskálanum í Þorlákshöfn og er full ástæða til að mæta þangað með alla tanka tóma til að styðja verslun í þessu sveitarfélagi sem hefur reynst sportinu okkar svo frábærlega!

Glæsilegt framtak strákar og til hamingju með svæðið ykkar!

Keli formaður

Ps. Og það þarf vonandi ekki að taka það fram að það er STRANGLEGA BANNAÐ AÐ HJÓLA í eða við Þorlákshöfn – það skemmir fyrir þessu frábæra framtaki!

Leave a Reply