Bradley – hvalreki á fjörur Íslendinga

Bradley – hvalreki á fjörur Íslendinga

Eftir að Bretar hertóku Ísland við lok seinni
heimsstyrjaldarinnar má segja að myndast hafi náið samband milli þjóðanna sem
hefur haldið alla tíð síðan þótt breski herinn sé jú fyrir löngu farinn af
klakanum.

Eftir að Bretar hertóku Ísland við lok seinni
heimsstyrjaldarinnar má segja að myndast hafi náið samband milli þjóðanna sem
hefur haldið alla tíð síðan þótt breski herinn sé jú fyrir löngu farinn af
klakanum. Einn angi þessara tíðu samskipta þjóðanna er sókn breskra ökuþóra til
Íslands sem hefur fært þeim bresku innsýn inn í einstakan heim og náttúru en
fært okkur Íslendingum aukna þekkingu og víðsýni á móti. Nýjasti hvalrekinn í
þessum efnum er hinn eitursnjalli og viðkunnanlegi motocross-ökumaður Ed
Bradley. Við hittum meistarann á ísilögðu vatni og létum hann kvitta í Dagbók
Drullumallarans.


Bradley skemmti sér konunglega á ísnum á Hvaleyrarvatni.

Sæll Ed, hvernig hefur þú það um þessar mundir?

Takk, mjög gott. Mikið að gera en hef það gott.

Hvernig stendur á því að þú ert á Íslandi?

Til að gera langa sögu stutta þá hafði íslenska KTM liðið samband við félaga
minn, en sá heitir Robin Bayman og hefur heimsótt Ísland, hjólað hérna og kynnst
fullt af Íslendingum. Þar á meðal strákunum í KTM liðinu. Þegar þá svo langaði
til að ráða sér erlendan kennara settu þeir sig í samband við Robin sem aftur
benti þeim á mig. Ég er hingað kominn til að kynna mér aðstæður og hitta allt
fólkið. Og svo auðvitað að prófa þetta brjálaða sport sem þið kallið
íscross.


Já og það leit ekki út fyrir að þér leiddist mikið á KTM 540 hjólinu sem þú
varst á úti á ísnum. Hvað finnst þér annars um íscross?

Þetta er brjálað. Ég skemmti mér alveg stórkostlega. Við reiknuðum það út að
á beinu köflunum næði maður tæplega 150 kílómetra hraða og svo í beygjunum er
maður með hjólið út á hlið á kannski 100 kílómetra hraða. Mér leist varla á
blikuna þegar menn voru búnir að aka oft sömu aksturslínuna og vatnið byrjaði að
flæða upp í gegnum ísinn sem var orðinn sundur skorinn. Það er svakalegt að sjá
þessi dekk sem þið notið á ísnum með skrúfurnar standandi út í loftið.

Lítill fugl rétti mér límmiða sem á stendur „Motocross skóli Ed Bradley á
Íslandi.“ Er ekki rétt að þú standir fyrir máli þínu og útskýrir?

Já, þessi samvinna mín og KTM hefur undið upp á sig. Ég ætla búa á Íslandi í
sumar og þjálfa ökumenn þrisvar í viku. Auðvitað er þessi heimur miklu minni hér
á landi en í Bretlandi en það er bara fínt og þá fæ ég að hitta fólk oftar en
einu sinni. Ég vonast til að geta miðlað þekkingu minni og haft góð áhrif á
íslenska ökumenn og fengið fleiri til að uppgötva hversu frábært motocrossið er.
Þessi skóli hefst í vor og er öllum opinn. En þess utan mun ég vinna sérstaklega
náið með KTM liðinu og sjá til þess að þeir verði fremstir í hverri keppni.

Ef marka má orðróminn ætlar þú þér sjálfur að fara í slaginn og keppa í
Íslandsmeistarakeppninni í motocrossi næsta sumar og nokkrum völdum
endúrókeppnum. Er eitthvað til í því?

Já þetta er rétt og ég get ekki beðið. Ég veit nú þegar um nokkra ökumenn sem
eru mjög hraðskreiðir svo að þetta verður spennandi. Endúróið verður líka
skemmtileg áskorun og bara það að fá að vera á hjóli allan daginn eru
forréttindi. Þetta tekur allan minn tíma svo fjölskylda mín ætlar að koma og
verja hluta sumarsins með mér á Íslandi og kynnast landi og þjóð.


Tilburðir Bradleys voru með þeim hætti að augljóst var að þar
fór vanur maður.

Hvaða hjóli ætlar þú að aka næsta sumar?

KTM á Íslandi heldur utan um þetta ævintýri. Mér hefur verið útvegað KTM 540
SXS sem er svakalega öflugt tæki. Ég er búinn að vera á því á ísnum í dag og
þetta er gott hjól.

Hvers vegna tekurðu þetta skref? Ég meina, þú finnur meiri hraða, meiri
peninga og meiri glamúr á meginlandi Evrópu. Hvers vegna Ísland?

Mig langaði að reyna eitthvað nýtt og alveg öðruvísi og þetta var tækifæri
sem ég vildi ekki sleppa. Þetta er líka góður stökkpallur fyrir mig persónulega
því ég stefni á að keppa aftur í bresku mótaröðinni árið 2006 eftir smávegis
hlé. Þetta er sumsé bæði gert í gamni og alvöru. Það er besta blandan.

Nú átt þú og rekur frábæra motocrossbraut í Bretlandi (www.edbradley.co.uk)
sem er bæði mikið notuð af almenningi en einnig fyrir stórar keppnir. Það hlýtur
að vera mikil vinna að halda utan um þann rekstur. Hver sér um það allt saman
þegar þú ert á klakanum?

Já, það er rétt. Það verður mikil vinna í gangi fram á vor en þá á þetta allt
að vera komið í fastar skorður og óhætt fyrir mig að snúa mér að því sem bíður á
Íslandi. Samstarfsaðili minn mun síðan sjá um þennan rekstur á meðan ég er í
burtu.

Jæja, nóg af mótorhjólum. Snúum okkur að alvöru lífsins og hvort þú sért
raunverulega undir það búinn að eyða sumrinu með Íslendingum. Ég meina, við erum
að tala um þjóð sem leggur sér sauðspunga brosandi til munns, étur brennd
kindahöfuð, drekkur brennivín og státar af vafasamri umferðarmenningu. Svo ekki
sé minnst á glaðasólskin á miðnætti yfir hásumarið. Veistu hvað þú ert að fara
út í?

(Hlær). Já, þetta verður mikið ævintýri. Ég hef nú reyndar prófað ýmislegt.
T.a.m. ferðaðist ég mikið þegar ég keppti í heimsmeistarakeppninni og lagði mér
þá augu og tungu af einhverri skepnu mér til munns. En ætli ég verði ekki bara
mest í fiskinum, hann er svo góður hér. Ég held að ég muni spjara mig vel
hérna.

Já, ég er ekki í vafa um það og það að þú átt eftir að reynast okkur mikil
lyftistöng. Gangi þér vel og eigum við ekki að heyrast betur þegar sumarið er
gengið í garð?

Ekki spurning. Endilega.

ÞK

Skildu eftir svar