1. umferð Íslandsmótsins í Enduro 2017 – Hella

Sverrir lét sig ekki vanta frekar en fyrri daginn. Smellið á myndina til þess að sjá allar myndirnar hans úr keppninni.

VÍK hélt fyrstu umferðina í Íslandsmótinu í enduro á Hellu um helgina. Veðrið var algjörlega frábært með sól og hita sem gerði það enn skemmtilegra að horfa á keppnina. Það var góð þátttaka í keppninni og talsvert af áhorfendum. Nokkrir höfðu það á orði að þetta minnti á gömlu stemninguna og erum við í stjórninni alveg sammála því og það þykir okkur skemmtilegt. Við vonum að það sé að lifna meira yfir þessu skemmtilega sporti okkar.

Úrslit dagsins má finna HÉR. Þeim hefur verið breytt frá verðlaunaafhendingu. Það kom upp atvik, sem lesa má betur um í linknum sem er hér aðeins framar, sem þurfti að leggjast yfir og ræða fram og aftur. Á keppnisstað þurfti að taka ákvörðun en þegar rykið hafði sest og fleiri hliðar á málinu höfðu verið skoðaðar kom í ljós að það var ekki endilega besta lendingin á málinu. Það hefur verið leiðrétt hér með og er það gert í góðu með skilningi þeirra sem að málinu koma. Það er nú alltaf gott þegar það er hægt að leysa málin með því að ræða þau í sátt og samlyndi. Við biðjum alla sem ræða atvikið að gæta orða sinna og muna að það er auðvelt að koma með sína skoðun á málinu án þess að þurfa að taka ábyrgð á lokaniðurstöðunni. Við skulum ekki láta þetta atvik vera til þess að talað sé á neikvæðan hátt um keppnishaldið eða sportið. Tölum sportið upp sama hvar við erum og með hverjum. Þannig byggjum við það upp og gerum það betra.

Stjórn VÍK vill þakka þeim sem komu og aðstoðuðu með einum eða öðrum þætti. Þeim sem komu að leggja brautina. Þeim sem komu að taka saman brautina með okkur. Þeim sem komu að vakta brautina og keppendur á meðan keppni stóð. Flugbjörgunarsveitinni á Hellu fyrir aðstoð við að fá svæðið og með því að leggja til sjúkrabíl sem þurfti því miður að bregðast við einu atviki sem leiddi til þess að sjúkrabíll kom frá Selfossi og sótti einn keppanda. Okkur skilst að það hafi ekki verið jafn slæmt og það leit út í fyrstu sem er bót í máli þó að slysalaus keppni sé augljóslega það sem við myndum alltaf vilja sjá.

Ef þú ert með móral yfir því að hafa ekki komið á Hellu þá geturðu unnið það upp í lok mánaðarins. Klausturskeppnin er 27. maí n.k. og má sjá allt sem þarf um hana HÉR. Við minnum þó á að skráningarfresturinn á hana rennur út n.k. sunnudagskvöld á miðnætti.

 

HÉR er svo MYNDBAND sem þið hreinlega verðið að sjá úr keppninni. Birgir Georgsson tók þetta á dróna við þessar frábæru aðstæður sem voru þarna og það sést mjög vel í þessu myndbandi.

 

Stjórnin

Skildu eftir svar