Bráðabirgðaleyfið við Kleifarvatn afturkallað!

Bæjarráð Grindavíkur hefur sent félaginu bréf og afturkallað bráðabirgðaleyfi fyrir akstri við Kleifarvatn og vísar frekari leyfisveitingum til Sýslumannsembættisins á Reykjanesi. Skv. bréfinu er það í verkahring sýslumannsembættisins að veita leyfi sem þetta en ekki á hendi Grindavíkurbæjar þrátt fyrir góðan vilja og skilning bæjarráðsmanna þar.

Þessar fréttir eru að sjálfsögðu mikið reiðarslag fyrir félagið og alla hjólamenn. Okkar tilfinning er sú að í vor hafi akstur torfæruhjóla utan vega á Reykjanesi verið mjög lítill þar sem menn hafi getað keyrt við enda Kleifarvatnsins með fullu leyfi opinberra aðila, amk. eftir bestu vitneskju okkar allra. Nú hefur leyfið hins vegar verið afturkallað að frumkvæði sýslumannsembættisins sem vill stöðva allan akstur við Kleifarvatn þar til og ef leyfi fæst með formlegum hætti og eftir réttum boðleiðum.

Í millitíðinni hvetjum við menn hins vegar til að sýna stillingu og taka þessu með jafnaðargeði og gæta eftir sem áður að því hvar þeir keyra. Við munum vinna í því á næstu dögum leita leiða til að endurnýja leyfið við Kleifarvatn í samráði við fulltrúa sýslumanns og aðra góða aðila. Varðandi önnur svæði þá standa samingaviðræður enn yfir vegna Bolöldu og Jósepsdalssvæðisins og svæðis við Þorlákshöfn. Brautin í Álfsnesi er enn lokuð og talsverða vinnu þarf að leggja í Sólbrekkubraut til að hún verði aksturshæf. 

Hrafnkell Sigtryggsson
formaður VÍK

Skildu eftir svar