Hvað segja verslanirnar!

Vefurinn tók upp á því í gærmorgunn að taka viðtöl við flestar verslanir.  Eftir tvö viðtöl fann vefurinn sig í frjálsu falli.  Þvílíkur tími sem fór í þetta.  En það var ekki aftur snúið.  Öll viðtölin eru tilbúin og gaman að lesa þau.  Allir voru spurðar nákvæmlega sömu spurninga.  Meðal annars hvaða væntingar menn hafa til ársins 2004, hvað var eftirminnilegast frá 2003, finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt og fl.

Verði ykkur að góðu;

7 janúar 2004
Viðtal við Hlyn Pálmasson, Bernhard ehf., Honda umboðið.

Hvað er eftirminnilegast gagnvart sportinu frá árinu 2003?
Sigur bæði í einstaklings og liðakeppninni í motocrossi og nýja brautin á Álfsnesinu.  Opnun brautarinnar er gríðarlegur vendipunktur fyrir sportið og gefur endalausa möguleika.

Hvað er eftirminnilegast útfrá verslunni frá árinu 2003?
Markmiðið sem við settum okkur fyrir þetta ár í sölu stóðst 100%.

Hvað er eftirminnilegast persónulega frá árinu 2003?
Ég byrjaði að hjóla sjálfur.  Það var langþráður draumur sem ég uppfyllti síðasta sumar.  Ég er að fíla þetta gríðarlega vel og bíð spenntur eftir CRF250.

Stóð árið 2003 undir væntingum?
Já, 100%.  Í raun rúmlega það.

Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2004?
Við ætlum okkur að verja meistaratitlana í motocross og taka enduroið.  Það er ekki komið á hreint hversu mörg keppnislið við verðum með en við munum leggja mikinn metnað í alla umgjörðina.

Áætlanir okkar stefna á aukna hjólasölu og eins og staðan er núna, þá bendir allt til þess að það takist.  Við gerum sérstaklega ráð fyrir aukningu í unglingaflokki.

Finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt?
Tvímælalaust og það mjög hratt.  Það er ægileg gróska og mikil uppbygging búin að eiga sér stað.  Motocross skóli og hvaðeina.  Þetta mun halda áfram á þessari braut.

Gerir þú ráð fyrir einhverjum breytingum á árinu 2004, sbr. meiri/minni sölu, meiri/minni samkeppni, meiri/minni keppnisharka. meiri/minni móral o.s.frv.
Það verður meiri og harðari samkeppni.

Við ætlum að leggja okkur fram um að sýna af okkur góðan leik- og keppnisanda.  Ég vonast til þess að aðrir gerir það sama sem mun þá gera allt sportið mun skemmtilegra.

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
Með tilkomu CRF250X enduro hjólsins þá opnast nýr markaður fyrir okkur.  Þetta er fyrsta alvöru endurohjólið frá Honda sem kemur með rafstarti.  Við bindum miklar vonir við þetta hjól sem bætist við annars glæsilega og breiða línu Honda motocross og enduro hjóla.

Hjá Bernhard hefst nýtt sögulegt keppnistímabil um næstu mánaðarmót þegar nýja CRF250 hjólið kemur til landsins.  Í fyrsta sinn munum við bjóða upp á reynsluakstur á þessu nýja hjóli.  Þið getið haft samband við mig í síma 520-1128 til að skrá ykkur í reynsluakstur.

Með ósk um gott og skemmtilegt hjólaár.

—-

6 janúar 2004
Viðtal við Hauk Þorsteinsson, Verslunin Nítró.

Hvað er eftirminnilegast gagnvart sportinu frá árinu 2003?
Lokakeppnin í enduro upp á Húsmúla.  Skemmtilegast keppni „ever“.

Hvað er eftirminnilegast útfrá verslunni frá árinu 2003?
Ótrúleg jákvæðni allra aðila í minn garð og opnunarhátíðin hjá versluninni Nítró 20 desember síðastliðinn.  Frábær þáttaka.

Hvað er eftirminnilegast persónulega frá árinu 2003?
Það að ég hóf nýtt starf og opnaði alvöru mótorhjólaverslun ásamt óvæntum og góðum árangri í flestum keppnum síðastliðið sumar.  Einnig er eftirminnilegt hversu vel dóttir minni Anítu,  gekk í keppnum sumarsins.

Stóð árið 2003 undir væntingum?
Já, árið stóð undir væntingum.  Stuðningur Yamaha var frábær og þakka ég Sigurjóni og Co kærlega.  Ég er verulega sáttur við árið.

Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2004?
Fyrir mig og mín keppnislið, bæði A, B, og unglingaliðið þá vænti ég þess að menn geri eins og þeir geti.  Það er ekki hægt að biðja um meir.

Varðandi verslunina, þá að hún gangi.

Þess má geta að endilega setjið ykkur í samband við mig í Nítró.  Ég er enn að leita að hressum mönnum til að aka með okkur í sumar.  Aðalatriðið verður að hafa gaman af þessu og tryggja skemmtilegt og líflegt sumar.

Ég er verulega spenntur að sjá hvað gerist.  Sérstaklega í skellinöðrumálum varðandi nýju Rieju nöðrurnar sem verða komnar í hús 9 janúar.

Ég vonast eftir því að VÍK eða eitthvert annað félag hefji keppnishald fyrir fjórhjólin.

Ég er nú þegar búinn að setja mig í samband við Guðberg og stefnum við á keppni í SuperMotard á rallycross brautinni hans í Hafnarfirði ef næg þáttaka fæst.

Arnór sonur minn verður á Rieju MRX-PRO skellinöðru í sumar og vænti ég þess að hann rífi upp söluna hjá mér.  Hans hlutverk verður að vekja þennan markað til lífsins með því að ná böndum yfir sem flesta skellinöðrueigendur og efna til þrautakeppna, endurotúra á skellinöðrum ásamt ýmsum öðrum ferðum.  Ég hvet alla skellinöðrueigendur til að hringja í hann og skrá sig á lista í síma 661-1860.

Ég þekki vel torfærugeirann en er rosalega spenntur fyrir því að kynnast fjórhjóla og götuhjólageiranum.  Ég geri þær kröfur til sjálfs míns að ég læri og kynnist þessum markaði vel og vænti þessi að ég geti þá veitt bestu hugsanlegu þjónustu.

Finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt?
Já og nei.  Ég er verulega ánægður með hvað flokkum hefur fjölgað og álít það vera einn af stærstu þáttunum fyrir almennri aukningu í sportinu.  Menn þurfa hinsvegar að passa sig á liðakeppnunum.  Ég er farinn að finna fyrir ríg og lélegum móral á milli liða.  Menn mega ekki gleyma því að við erum í sportinu til að hafa gaman af því og leika okkur.

Gerir þú ráð fyrir einhverjum breytingum á árinu 2004, sbr. meiri/minni sölu, meiri/minni samkeppni, meiri/minni keppnisharka. meiri/minni móral o.s.frv.
Vonandi.  Ég vonast eftir betri móral (ekki það að hann sé alslæmur) og enn meiri fjölbreytni í keppnishaldi.  Það hefur sýnt sig, þeim mun fleiri flokkar því fleiri mæta.

Mér lýst hræðilega á þá hugmynd að láta A og B keyra saman í enduroinu.  Ef af því yrði þá finnst mér það vera skref aftur í fornöld.  Að sama skapi finnst mér að 125 tvíg. / 250 fjórg. eigi að fá að njóta sín sér, en ekki keppa með 250 tvíg / 450 fjórg eða stærri hjólum.  Ég er að vonast eftir því að hægt er að keyra fleiri flokka á hverjum keppnisdegi.  Ég veit að þetta tekur allt tíma og ný vandamál verða til en allt er hægt að leysa með jákvæðu hugarfari.

Einnig þá vonast ég eftir því að Verslunin Nítró komi sterk inn á markaðinn og ég eigi eftir að selja hrúgu af hjólum ásamt gæða fatnaði, aukahlutum og varahlutum á besta hugsanlega verði.

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
Markmið Nítró er að bjóða upp á góða vöru á betra verði en flestir aðrir.

Númer eitt, tvö og þrjú er að við erum að setja upp alvöru verkstæði.  Ég er vélvirki sjálfur og þekki vel til.  Valdi mér því súper mann, sjálfan Gunnar Sölvasson, en ég hef sjaldan séð eins vandvirkan og nákvæman viðgerðamann.  Ég er ekki í vafa um að viðskiptavinir verkstæðisins verða hæstánægðir með vinnubrögðin hjá honum.

Ég á ennþá örfá 250 fjórgengis Kawasaski hjól sem ég er að bjóða án allrar álagningar vegna opnunar verslunarinnar, kr. 736,000.

12 janúar er ég að fá frábæran fatnað fyrir götuhjólageirann frá framleiðandanum „Spidi“.  Hanskar, skór, jakkar buxur… þetta er götuhjólafatnaður og aukahlutir út í gegn.

Þú ert ávallt rúmlega velkomin(n) í Nítró.

 

6 janúar 2004
Viðtal við Guðna Friðgeirsson, Verslunin Púkinn.com

Hvað er eftirminnilegast gagnvart sportinu frá árinu 2003?
Keppnin á Klaustri og þá sérstaklega startið.  Ég gleymi aldrei startinu þegar um 200 manns voru ræstir.

Hvað er eftirminnilegast útfrá verslunni frá árinu 2003?
Þegar við náðum mjög hagstæðum samningum við birgjana okkar og bættum nýjum vörum við línuna hjá okkur sbr. tannhjól, bremsuklossar og fl.

Hvað er eftirminnilegast persónulega frá árinu 2003?
Þegar 9 ára sonur minn stökk yfir pallinn í púkabrautinni á Álfsnesi og þegar ég komst á verðlaunapall á Selfossi í drullukeppninni.

Stóð árið 2003 undir væntingum?
Já og töluvert meira en ég átti von á, bæði persónulega og hjá Púkanum.  Við höfðum áætlað ákveðna sölu en hún reyndist síðan meir en tvöfallt meiri þegar upp var staðið.

Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2004?
Við áttum engan vegin von á þeim frábæru undirtektum sem púkinn.com fékk á síðasta ári.  Á þessu ári ætlum við að auka vöruúrvalið umtalsvert og erum einnig byrjuð á dekkja innflutningi.  Þetta eru alvöru dekk sem  eru á gríðarlega góðu verði.  Þessi dekk hafa selst mjög vel í Evrópu og bind ég miklar vonir við að þau gangi vel í Íslendinga.

Markmiðið er að bæta sig, fjölga vörum, auka þjónustuna og bjóða bestu verðin.

Ég vænti þess að púkinn.com verði áfram vörður litla hjólamannsins.  Mín tilfinning hefur verið sú að þegar við bjóðum einhverja vöru á frábæru verði þá hafa aðrar verslanir tilhneigingu til að nálgast okkar verð örlítið.  Ég vænti þess að þetta haldi áfram.

Markmið keppnisliðs okkar, Team Pukinn.com er/verður að hafa gaman af hlutunum.

Finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt?
Já, mér finnst það vera að stækka og dafna.  Mér finnst nýir menn bætast við í hverjum mánuði og er nokkuð ánægður með þetta.

Mér finnst 125 tvíg. / 250 fjórg flokkur eiga fullan rétt á sér og þá alveg sér, til að yngri ökumenn lendi ekki strax á móti þeim al-hörðustu.

Mér finnst framlag Inga Þórs Tryggvasonar frábært og tími til kominn að einhver taki að sér kennslu í sportinu.

Gerir þú ráð fyrir einhverjum breytingum á árinu 2004, sbr. meiri/minni sölu, meiri/minni samkeppni, meiri/minni keppnisharka. meiri/minni móral o.s.frv.
Ég á ekki von á að samkeppnin breytist mikið en mér finnst öll umboðin farin að leggja gríðarlega mikið upp úr góðum keppnismönnum og sé ég fram á meiri keppnishörku.

Verslunin Pukinn.com mun tvímælalaust vaxa á þessu ári.

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
Eitt af markmiðum Púkans er, ef við náum ekki vörunni til landsins á hagstæðum verðum þá höfum við ekki haft áhuga á að bjóða upp á hana.  Hjólamenn geta því gengið að því vísu, að hjá okkur eru alltaf hagstæðustu verðin.

Í Supercrossinu í vetur ætlum við að vera með skemmtilegan leik í samstarfi með Sýn. Leikurinn fer þannig fram að í hverjum þætti verður spurð ein spurning og áhorfendur fara svo inn á www.syn.is  og svara spurningunni. Í næsta þætti á eftir verður verðlaunahafinn kynntur og nýrri spurningu varpað fram.  Í verðlaun verða flottar vörur frá pukanum.

Hver spurning verður með þrem svar möguleikum og þú hakar við rétta svarið.  Þeir hjá Sýn draga úr réttum svörum.  Ég hvet alla hjólamenn til að taka þátt í þessum vikulegu getraunum þar sem Sýn er m.a. að nota þetta til að kanna áhorfið og áhugan.  Því ef Sýnarmenn finna fyrir góðum viðbrögðum með Súpercrossið þá er aldrei að vita nema við fáum meiri umfjöllun um mótorhjól.“(mótorsport)

Ég óska öllum hjólamönnum gleðilegs árs og megi þeir eiga frábært hjólasumar.  Þakka samstarfið á liðnu ári.

 

 

6 janúar 2004
Viðtal við Jón Hafsteinn Magnússon hjá JHM Sport

Hvað er eftirminnilegast gagnvart sportinu frá árinu 2003?
Hvað það var mikið líf í þessu.

Hvað er eftirminnilegast útfrá verslunni frá árinu 2003?
Innkoma GASGAS umboðsins og hversu mikla tryggð viðskiptavinir sýndu mér

Hvað er eftirminnilegast persónulega frá árinu 2003?
Árangur hjá Viggó og Kára gladdi mig mikið á árinu.

Stóð árið 2003 undir væntingum?
Sigur TM liðsins á Klaustri stóð uppúr. Ég var mjög sáttur við árangur Team JHMSport, sérstaklega í ljósi þess að við vorum einungis með þrjá menn í liðinu.

Rekstur verslunarinnar kom mér á óvart og var betri en ég bjóst við.

Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2004?
Ég óska þess að liðsmenn mínir leggi mikla áherslu á að hafa gaman af þessu. Að keppnirnar verði skemmtilegar og þeir séu að gera þetta af ánægju því þá verður árangurinn betri. Ég set ekki fram kröfu um neinn titil eða svoleiðis.

Ég vonast til að geta þjónað viðskiptavinum betur. Ég er að leita að betra húsnæði og mun fara í samstarf við Jón Bjarnarson um rekstur verkstæðis til að auka við þjónustu við hjólamenn og með því móti hafa góða búð og gott verkstæði á einum og sama stað.

Finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt?
Í sambandi við keppnirnar þá finnst mér mjög jákvætt að menn hópi sér saman í lið, æfi saman, flottari umgjörð o.s.frv. En hinsvegar finnst mér gleymast að þegar komið er á keppnisstað þá er þetta einstaklingskeppni og það er aðeins einn sem stendur uppi sem sigurvegari. Mér finnst mórallinn vera að versna og ekki ósvipaðu því sem gerðist hjá vélsleðamönnum fyrir nokkrum árum.

Ég vil sjá unglingaflokkinn keyrðan í 85cc og síðan nýjan 125cc flokk þar sem allir keppa. Um leið og unglingur fær sér 125cc þá er hann ekki lengur í unglingaflokki og keppir við alla aldurshópa í þessum sér 125cc flokki. Mér leist vel á fyrirkomulagið í enduroinu eins og það var. Ég vil ekki sjá A og B flokk keyrðan saman. Álít það verða eintómt klúður og skapa mikla hættu. Ég vil frekar að kraftarnir fari í að hugsa upp betra skipulag þannig að B flokkur sé ræstur á sömu mínútu og A endar o.s.frv.

Skráning á netinu er í góðu lagi en ég vil líka sjá stjórn VÍK halda félagsfund nokkrum dögum fyrir hverja keppni þar sem menn geta skráð sig og um leið fengið ítarlegar upplýsingar. Mér finnst ekkert líf vera lengur í félagsstarfinu og tel þetta til viðbótar vera góðan vettvang til að þjappa félagsmönnum saman.

Gerir þú ráð fyrir einhverjum breytingum á árinu 2004, sbr. meiri/minni sölu, meiri/minni samkeppni, meiri/minni keppnisharka. meiri/minni móral o.s.frv.
Það verða fleiri sterk keppnislið með frábærum ökumönnum. Ég geri ráð fyrir að umgjörð keppnisliða verði stærri og flottari.

Ég geri ráð fyrir meiri samkeppni.

Ég geri ráð fyrir aukningu í sölu á  GASGAS og TM ásamt auknum viðskiptum í tengslum við nýja verslun og verkstæði.

Ég held að þróunin á móralnum komi til með að snúast til betri vegar og vonast til þess að skipulagið verði betra á öllu keppnishaldi í tengslum við tafir og þess háttar.

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
JHM Sport mun halda áfram að þjóna öllum hjólamönnum burt séð frá því hvaða hjólategundum þeir aka og bjóða upp á mikið úrval fatnaðar, aukahluta og varahluta.

2004 árgerðin af TM125 og TM250 eru nákvæmlega sömu hjólin og kepptu í heimsmeistarakeppninni 2003.  Ég geri því ráð fyrir töluverðri aukningu í sölu á þessum hjólum þar sem menn eru að fá fullbúið keppnishjól með öllum aukahlutum á sama verði og venjuleg hjól kosta.

Þess má geta í framhaldi af umræðunni um ísakstur að JHM Sport er með mjög góða ís-ádrepara í þremur mismunandi litum og er mjög auðvellt að tengja þá.

 

6 janúar 2004
Viðtal við Karl Gunnlaugsson Verslunni Moto.

Hvað er eftirminnilegast gagnvart sportinu frá árinu 2003?
Hinn mikli fjöldi þáttakanda á Klaustri og árangur KTM keppnisliðana.

Hvað er eftirminnilegast útfrá verslunni frá árinu 2003?
Hin mikla sala í nýjum KTM hjólum.

Hvað er eftirminnilegast persónulega frá árinu 2003?
Frábær árangur sonar míns, Gulla og þriggja daga keppni sem ég tók þátt í og var haldin í Frakklandi í ágúst síðastliðnum.

Stóð árið 2003 undir væntingum?
Já, árið stóð undir væntingum.  Góð hjólasala og nokkuð jafnt að gera allt árið í búðinni.

KTM keppnismenn stóðu sig vel í öllum keppnum.

Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2004?
Að jafna árið 2003 og sjá mína menn á verðlaunapöllum.

Fyrir keppnistímabilið fáum við stuðning frá KTM í austurríki varðandi sérhæfð keppnishjól.  Við fáum tvö 125SXS hjól og SXS tempara fyrir alla liðsmenn í keppnisliðunum, en þess má geta að „S“ið aftast stendur fyrir „Semi-Factory“.

Finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt?
Mér finnst sportið vera að stefna í rétta átt en töluvert þarf að gera til viðbótar.

Ég er óánægður með að sjá okkur ekki ennþá inni sem fullgildir aðilar að ÍSÍ.

Ég tel keppnisfyrirkomulagið og keppnishaldið vera á réttri leið miðað við fjölda keppanda.

Gerir þú ráð fyrir einhverjum breytingum á árinu 2004, sbr. meiri/minni sölu, meiri/minni samkeppni, meiri/minni keppnisharka. meiri/minni móral o.s.frv.
Það verður meiri keppnisharka og meiri samkeppni.  Ég óttast að það komi til með að skapa verri móral en hvet alla sem að sportinu koma að halda fun-faktornum á lofti og gleyma því ekki að þetta er leikur en ekki heimsmeistarakeppnin.

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
Árið 2004 markar 10 ára afmæli KTM á Íslandi og með öflugum stuðningi frá KTM í Austuríki þá stefnum við á að halda okkar stöðu í keppnunum.

Við munum að sjálfsögðu halda áfram að bjóða góða þjónustu og vörur á hagstæðu verði.  Einnig verða ýmsar uppákomur á árinu tengdar þessu afmæli okkar.

 

 

7 janúar 2004
Viðtal við Pétur Bjarnasson hjá Suzuki umboðinu

Hvað er eftirminnilegast gagnvart sportinu frá árinu 2003?
Klausturskeppnin.  Mér fannst frábært að sjá útlendingana koma og sjá samanburðin á þeim og okkar íslensku ökumönnum.  Einnig hversu mikið áhuginn á sportinu hefur aukist.

Opnunin á Álfsnesbrautinni er merkur áfangi og frábært að vera kominn með alvöru braut á höfuðborgarsvæðið.

Hvað er eftirminnilegast útfrá verslunni frá árinu 2003?
Það hefur verið aukning í hjólasölu og við erum komnir með breiðari línu af hjólum.  Einnig jukum við vöruúrvalið í motocross og enduro vörum.  Í raun, hófum við sölu á fatnaði og aukahlutum alveg frá A til Ö.

Hvað er eftirminnilegast persónulega frá árinu 2003?
Fyrir mig persónulega, var það fæðing dóttur minnar en gagnvart sportinu þá er eftirminnilegast hversu góður andi og góð stemming skapaðist í kringum keppnislið Suzuki.

Stóð árið 2003 undir væntingum?
Já, ég mundi segja það.  Það sem stóð upp úr á árinu var góður árangur unglingaliðsins.  Ég er mjög ánægður með móralinn og umgjörðina á öllu sem sneri að keppnisliðunum.  Við erum sáttir við árið 2003.

Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2004?
Ég vonast eftir áframhaldandi frábærs liðsanda í kringum Team Suzuki og aukningu í hjólasölu.  Aðalatriðið að vera léttur í lund.  Einnig að sportið haldi áfram að verða sýnilegra.

Ég vonast til að betra „skikk“ komist á það hvar menn mega vera á sínum enduro hjólum.  Einnig að tryggingar á hjólum verði skynsamari.  Þetta kæmi til með að hjálpa mikið til með að bæta ímynd sportsins.

Finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt?
Mér finnst sportið vera að stefna að vissu leyti í rétta átt.  Varðandi keppnishaldið þá finnst mér að, aðskilja eigi 125 tvíg. / 250 fjórg. flokk þannig að þeir séu ekki að keppa með stærri hjólum.  Mér finnst þeir eigi að vera algjörlega sér.  Þetta er kannski ekki auðvellt í framkvæmd en fyrir þá sem eru að keppa á svona hjólum þá myndar þetta meiri spennu, sérstaklega fyrir áhorfendur.  Þetta gæti kannski leytt til þess að fjöldi áhorfenda mundi aukast þar sem menn sjá betur stöðuna á hverjum keppanda í staðinn fyrir að hafa þetta allt í einum graut.

Gerir þú ráð fyrir einhverjum breytingum á árinu 2004, sbr. meiri/minni sölu, meiri/minni samkeppni, meiri/minni keppnisharka. meiri/minni móral o.s.frv.
Samkeppnin er alltaf að aukast.

Ég sé fyrir mér áframhald á þeirri þróun að menn eru farnir að velja sér hjól eftir getu en ekki kaupa alltaf stærsta hjólið.  Krafturinn er ekki allt.

Ég gæti trúað því að fleiri yngri ökumenn komi inn.  Ég geri ráð fyrir að fjöldi keppenda aukist og um leið eykst keppnisharkan.

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
Ég þakka fyrir viðskiptin á liðnu ári og vonast til að sjá sem flesta í sumar, bæði á brautinni og í búðinni enda er vöruúrvalið orðið mjög gott.

Fyrsta RMZ 250 fjórgengishjólið kemur í hús fljótlega.  Við bíðum ásamt fleirum, spenntir eftir þessu hjóli.  Með haustinu fáum við síðan RMZ 450 hjólið sem verður alveg örugglega geggjuð græja.

Að lokum viljum við sérstaklega þakka Þór Þorsteinssyni fyrir sitt óeigingjarna starf í þágu Team Suzuki.

7 janúar 2004
Viðtal við Ragnar Stefánsson, Verslunin Vélhjól & Sleðar.

Hvað er eftirminnilegast gagnvart sportinu frá árinu 2003?
Mér finnst það helst það að sportið er ennþá að stækka og dafna.

Hvað er eftirminnilegast útfrá verslunni frá árinu 2003?
Það að ég er að byrja með verslunina.  Ég opnaði hana í nóvember síðastliðnum og er alltaf að bæta við vörum.  Er að fá fleiri og fleiri sambönd með hverjum deginum og hreint ótrúlegt hvað hægt er að gera á svona stuttum tíma.  Það sem stendur uppúr er hvað það hefur gengið vel með sérpöntunar þjónustuna.

Hvað er eftirminnilegast persónulega frá árinu 2003?
Eftirminnilegast er í raun ekki það að ég varð Íslandsmeistari í Motocross heldur einn frábær hringur sem ég keyrði á Klaustri í keppni við Mikka Frisk og James Marsh.  Þetta var brjálaður akstur.  Ég klikkaði upp um gír í viðbót og keyrði allstaðar hraðar.  Þess má geta að ég var fyrst að fatta það í gær að þessi Íslandsmeistaratitill er sá fyrsti sem er unnin á fjórgengishjóli eftir því sem ég best veit.

Stóð árið 2003 undir væntingum?
Já, nokkurn vegin.  Ég var einungis í  verkstæðis rekstrinum, en hann var helst til undir væntingum.  Bætti síðan við versluninni sem byrjaði mjög vel.  Hjólamenn virðast kunna að meta góðu þjónustuna og lága verðið hjá mér.  Með góðri þjónustu á ég m.a. við að ég er spurður um svo margt og hef ennþá gaman af að svara spurningum tengdum bransanum.

Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2004?
Bara áframhaldandi vöxt.  Ef að verslunin heldur áfram að bæta við sig þegar kemur inn í „season“-ið þá er ég mjög ánægður.  Ég stefni á að taka áttunda titilinn í crossinu og að hafa gaman af enduroinu.  Vonandi verður einhver endurokeppni þar sem ég dett inn í gírinn eins og í fyrra.

Finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt?
Já, það er ekki spurning.  Það þarf bara að halda áfram að þróa keppnishaldið og flokkaskiptinguna.  Spurning hvort að einhverntímann verði 125 tvíg. / 250 fjórg. flokkur en það er kannski helst til snemmt á þessu ári (2004).  Mér finnst gott skref að það skuli í það minnsta vera sér verðlaun fyrir þennan flokk.

Gerir þú ráð fyrir einhverjum breytingum á árinu 2004, sbr. meiri/minni sölu, meiri/minni samkeppni, meiri/minni keppnisharka. meiri/minni móral o.s.frv.
Ég hugsa að keppnisharkan eigi eftir að aukast.  Það gerir það sjálfkrafa með auknum fjölda.  Samkeppnin í verslunarrekstrinum virðist alltaf vera að aukast sem er bara gott mál fyrir kúnnan.

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
Ég vil bjóða öllum að hafa samband (587-1135) eða kíkja við til að sjá hvað við höfum upp á að bjóða.  Ekki vera hræddir við að spyrja spurninga.

Ég er með vaxandi söluskrá yfir notuð hjól þannig að ef menn vilja skoða tilboð og þessháttar þá geta menn farið inn á www.raggi.is   Einnig ef menn vilja senda mér email með fyrirspurn eða spurningu þá er emailið raggi@raggi.is

Ég lækkaði föst verð á ákveðnum verkum um 20% í fyrra og hef haldið þeim.  Þetta eru m.a. 2T mótor sundur/saman, dekkjaskipti og fl..  Á verkstæðinu er landsins mesta þekking á dempurum og hefur það verið að koma í ljós betur og betur á síðasta ári.  Við eigum pakkdósir í flesta dempara, bæði framan og aftan.  Í versluninni stefnum við alltaf á að hafa góða vöru á lágum verðum og sérpantanir koma á þrem dögum.

7 janúar 2004
Viðtal við Sigurð Baldursson, Verslunin Motul.is

Hvað er eftirminnilegast gagnvart sportinu frá árinu 2003?
Klaustur er eftirminnilegast en ég bauð P.Lundmark til landsins í tengslum við Klaustur.  Einnig HH ferðin í haust sem er tveggja daga helgarferð um hálendið.

Hvað er eftirminnilegast útfrá verslunni frá árinu 2003?
Aukin sala og meira líf í kringum sportið.  Hjólasportið hefur vaxið mjög mikið hér fyrir norðan.

Hvað er eftirminnilegast persónulega frá árinu 2003?
Það að ég er hættur að haltra eftir stóra hnéaðgerð.  Var með slitið aftara krossband og liðband.  Ég hef verið með spelkur í tæp 2 ár en er nú laus við þær.

Stóð árið 2003 undir væntingum?
Já, í mínu plani.  Fyrirtækið er þriggja ára og ég er þokkalega sáttur.  Ég er með 5 ára plan að koma þessu á fæturnar og fylgi planinu.  Stór hluti af mínum plani var að koma með stóran söluaðila í Reykjavík á mínum motul olíum og vörum.  Ég náði því rétt fyrir áramót en verslunin Nítró mun selja vörur frá mér.

Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2004?
Ég vonast eftir aukinni sölu í kjölfar þess að ég er að auka mikið úrvalið af hjólavörum.  Ég er að byggja upp aukna þjónustu við hjólamenn og m.a. er ég  í samstarfi við Gauta Möller um alla verkstæðisþjónustu en verkstæðið er þjónustuaðili fyrir mig í hjólaviðgerðum.  Ég mun einnig verða endursöluaðili á Kawasaki og KTM hér fyrir norðan og ætla mér að byggja upp góða þjónustu í tengslum við það.

Motul.is er að sponsera nýtt lið á árinu sem er „Team Motul / Kawasaki“.  Við Haukur ætlum að standa vel að þessu liði en liðið á að vera til fyrirmyndar í alla staði, koma vel fyrir og vekja mikla athygli.

Finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt?
Já, það er aukning í sportinu.  Það er verið að byggja upp svæði á mörgum stöðum sem er mjög jákvætt.  Við eigum að vísu ekkert opinbert endurosvæði en við erum á litla Íslandi.

Mér finnst jákvætt hvað mikil vinna er lögð í starfsemina fyrir yngri ökumenn en leiðinlegt hvað yfirvöld eru treg að sýna þessu skilning.

Gerir þú ráð fyrir einhverjum breytingum á árinu 2004, sbr. meiri/minni sölu, meiri/minni samkeppni, meiri/minni keppnisharka. meiri/minni móral o.s.frv.
Já, verslunum er að fjölga sem mun leiða til aukinnar samkeppni sem ég tel jákvætt.  Persónulega held ég að keppnisharkan aukist og rígurinn milli hjólategunda mun aukast.  Rígurinn þarf alltaf að vera fyrir hendi sbr. „Hjólið mitt er alltaf besta hjólið“.  Ég geri hinsvegar ekki ráð fyrir að þetta fari út í einhver illindi en þetta kemur til með að auka metnaðinn í að standa sig og þá á ég við, ekki bara að vera fyrstu í mark heldur að menn læri það betur hér á Íslandi eins og erlendis, að það er mikið atriði að vera kurteis, hreinlegur og koma vel fyrir (lúkka vel).

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
Við erum komnir með nýja línu af fatnaði.  Motocross fatnað frá Alloy.  Þetta merki er mjög þekkt núna út af Alessi bræðrum sem eru að gera góða hluti í motocrossi erlendis.

Við erum með innflutning á Twinair og STR fatnaðinum frá Svíþjóð sem hefur selst meira og meira.

Eina atvinnu mótorsport síðan á Íslandi, sem er uppfærð mjög reglulega frá A til Ö er www.motul.is svk. minni bestu vitund.  Kíkið reglulega inn á þessa síðu því þar eru tilboð í gangi í hverri einustu viku.

7 janúar 2004
Viðtal við Sigurjón Bruno, Verslunin Arctic Trucks.

Hvað er eftirminnilegast gagnvart sportinu frá árinu 2003?
Góð þáttaka fannst mér standa uppúr.

Glæsileg Klausturs keppni.

Nýliðar, 125 og unglingaflokkur standa vel upp úr þar sem mikil aukning (efling) hefur orðið í því.

Einnig fannst mér eftirminnilegur mórallinn upp á Húsmúla þegar allir fóru heim.  Fannst það ekki gaman.

Að lokum er eftirminnileg opnunin á brautinni á Álfsnes og þeir menn sem að því stóðu eiga hrós skilið.

Hvað er eftirminnilegast útfrá verslunni frá árinu 2003?
Glæsilegur árangur starfsfólks í að tileinka sér merki Yamaha á þessu fyrsta sumri sem við seljum þessi hjól.   Það var mikið að læra og þetta tímabil er búið að vera mjög spennandi.

Hvað er eftirminnilegast persónulega frá árinu 2003?
Eftirminnilegasti túrinn var þegar ég fór með Lucky Joe, Kalla og fleirum 4 júní 2003 upp á Syðri-Fjallabak.  Krapi, snjór, frábærir slóðar og túrinn í heild var eitt ævintýri.

Stóð árið 2003 undir væntingum?
Það gerði það og gott betur.  Við seldum umfram áætlun og þurftum að auka við pantanir.  Við hefðum getað selt mun fleiri hjól hefði ekki verið uppselt frá framleiðanda.

Strákarnir í keppnisliðinu gerðu meira en við bjuggumst við.  Þeir náðu þriðja sæti í liðakeppninni í enduro.  Þeirra framkoma og framlag hjálpaði okkur í að styrkja ímynd Yamaha hér á Íslandi.

Það kom mér á óvart hversu mörg barna og unglingahjól seldust.  Í fyrstu var ég hræddur við að panta einungis tvö 85cc hjól en seldi síðan vel umfram það.

Fyrirtækið er ánægt með árangurinn frá fyrsta ári.

Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2004?
Við komum til með að flytja inn mun breiðari línu af hjólum.  Við ætlum að leggja mikla áherslu á barna og unglingahjól.

Við ætlum að auka úrvalið okkar af fatnaði og fylgihlutum fyrir hjólin og halda áfram með það sem við byrjuðum 2003, að vera samkeppnishæfir í varahlutum og aukahlutum ásamt því að eiga flest alla hluti á lager.

Með þessum aðgerðum væntum við þess að ímynd Yamaha styrkist á Íslandi og hjólasala ásamt sala á fatnaði og  aukahlutum aukist.

Finnst þér sportið vera að stefna í rétta átt?
Já, mér finnst sportið vera að stefna í rétta átt.  Það er aukning í sportinu.  Keppnisfyrirkomulagið er að verða betra.  Menn hafa alltaf lagt áherslu á öryggisbúnaðinn og hjólamenn hafa alltaf verið vel útbúnir.

Mér finnst að félagsstarf mætti vera meira og þá sérstaklega fyrir yngri kynslóðina.  Tvö til þrjú vídeó kvöld á sumri er ekki nóg.

Ég er hlyntur því að stofna nýjan 125 tvíg. / 250 fjórg flokk þar sem það eykur fjölda verðlauna og setur meiri spennu í þetta fyrir byrjendur.

Gerir þú ráð fyrir einhverjum breytingum á árinu 2004, sbr. meiri/minni sölu, meiri/minni samkeppni, meiri/minni keppnisharka. meiri/minni móral o.s.frv.
Ég geri ráð fyrir töluvert meiri samkeppni.  Í heildina, fyrir allt landið, geri ég ráð fyrir meiri sölu.  Nýskráð torfæruhjól fyrir 2003 voru 167 og ég tel þau muni fara yfir 200 árið 2004.  Við höfum gert áætlanir um aukningu í sölu.  Við munum fjölga keppnisliðum og ætlum að leggja mikla áherslu á keppnishald.  Við erum með A, B og unglingalið.  Ég geri ráð fyrir að baráttan verði meiri í sumar en mórallinn verði betri.

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
Ég vil þakka viðskiptavinum, Yamaha eigendum og öðrum hjólamönnum fyrir viðskiptin 2003.  Vonandi að 2004 verði jafn gott ár.

Ég vil minna menn á að 2004 línan er komin í hús og samningsborðið er opið frá 9 til 18 alla virka daga.

 

Skildu eftir svar