Vafrari janúar mánaðar

Þó einungis séu tæpir átta dagar liðnir af þessum mánuði þá hefur Sveinn Markússon tvímælalaust unnið sér inn titilinn, „Vafrari mánaðarins“.  Til viðbótar við fyrri innlegg í dag þá sendi hann vefnum grein með mynd um fyrsta vélknúna vélhjólið á Íslandi.  Sveinn var ekki hættur þar heldur gróf hann upp „mugshot“ af einum af frægustu mótorhjólamönnum síðustu aldar.  Og enn var Sveinn ekki hættur.   Hann grefur upp grein sem var skrifuð fyrir danska helgarblaðið Weekendavisen og birt helgina 21.-22. júlí 2001.  Vefurinn selur þetta ekki dýrara en hann fékk það, en greinin er á íslensku, svolítið sjúskuð í uppsetningu en vefurinn hafði „ótrúlega“ lúmskt gaman af lesningunni. Grein skrifuð fyrir danska helgarblaðið Weekendavisen, birt helgina 21.-22. júlí 2001.:

Turen går til Island

Flestir ferðamenn koma til
Íslands til þess að fara útí
náttúruna. Náttúran á Íslandi er ágæt.
Vandamálið er bara að það er ekkert
hægt að vera úti á Íslandi. Það er
alltof kalt. Íslendingar eru aldrei
„úti“ í náttúrunni. Þeir vita sem er að
það þýðir ekkert. Þeir skoða
hana bara í gegnum gler: Inni í sumarbústað
eða í bílnum á leiðinni þangað.
Þegar Íslendingar keyra út á
land stoppa þeir aldrei nema til að
kaupa bensín og pulsu. Þeir eru alltaf
að flýta sér. Þeir vilja helst ná uppí
bústað fyrir fréttir, áður en
leikurinn hefst, áður en heimildamyndin
um hálendið byrjar. Um leið og
þeir eru komnir hringja þeir í
kunningjana til að láta vita að
þeir hafi ekki verið „nema einn og
hálfan tíma uppeftir“.

Við Íslendingar erum
fyrir löngu búnir að sætta okkur við að
horfa á náttúruna í gegnum gler:
Stofuglugga, framrúðu eða
sjónvarpsskjá. Við
mælum landslag í
mínútum. „Borgarfjörðurinn er nú bara
korter“. „Ég fór Holtavörðuheiðina á innan
við 12 mínútum“. Náttúra Íslands er
ónáttúra Íslendinga.

Það eru bara brjálaðir
útlendingar sem fara „út“ í íslenska
náttúru: Þýskir álfavinir sem
leggjast út í óbyggðirnar með sínar 20
kg álfamyndavélar og koma
ekki til baka fyrr en
þurrmjólkurbirgðirnar eru
á þrotum, svissneskir
bankastarfsmenn sem fara í
brúðkaupsferð um
eyðifirðina fyrir vestan
af því það er ekki séns að eyða neinum
peningum þar eða hollensk
masókista-pör sem fara á reiðhjólum í
kringum landið með tjald úr fjölmettuðum
kornmassa sem þau éta smám saman á
leiðinni.

Þegar Íslendingar keyra á
sínum jeppum framhjá svoleiðis liði
reyna þeir alltaf að skvetta á það
úr drullupollum. Við eigum erfitt með að
sætta okkur við það að eina
fólkið sem leggur það á sig að upplifa
íslenska náttúru eru útlendingar.
Við fyrirlítum útlendu túristana og
tökum þá aldrei uppí bílinn ef
þeir gefast upp á leiðinni yfir
Möðrudalsöræfin í
úrhellisregni og
roki. „Ja, þeim er nær að vera ekki á
bíl eins og almennilegt fólk.“
Besta myndin af nútíma-
Íslendingum: Ungt par sem situr á
stuttermabol inní funheitum bíl útí 6
stiga frosti og hörku skafrenningi að
borða ís.

Sum okkar fá þó
samviskubit yfir útiveruleysinu og
verja öllu sínum
frítíma í það að „vernda
hálendi Íslands“ og berjast gegn
hverskonar virkjunarframkvæmdum þar.
Samt hafa flestir þeir
náttúruverndarsinnar
aldrei komið uppá
hálendið. En þeir segjast reyndar vera á
leiðinni.  Þeir „ætla að fara í
sumar“ af því að þeir „komust ekki í
fyrra“ af því að þá fóru þeir á
Roskilde. Í ærandi rafmagnshávaðanum frá
Rammstein og Radiohead var gott að
vita af þögninni á gjörvöllu hálendinu
heima.

Sannleikurinn er
hinsvegar sá að hálendi Íslands er
hundleiðinlegt.
Þarna er ekkert að sjá
nema ljót eldfjöll, úrill hraun og sanda
sem aðeins hörðustu
mínímalistar hafa gaman af. Árnar eru
moldbrúnar af jöklaskít, fossarnir eins
og illa lyktandi niðurföll og hin
frægu jökulsárgljúfur lítið
annað en risavaxin opin holræsi. Á
þessum auðnum vaxa ekki nema allra
mestu þverhausarnir í plönturíkinu og
einu fuglarnir sem sjást þarna
eru þeir sem hafa orðið fyrir
alvarlegu einelti niðrá fjörðunum:
Bæklaðir mávar og blindir
hrafnar, kannski einn nefbrotinn lundi
eða samkynhneigður spói.
Fyrir utan þá er í raun ekkert
merkilegt að sjá
þarna nema nokkrar
fallegar virkjanir og tvo, þrjá jökla
sem eru reyndar
orðnir svo góðir með sig
af öllum opnumyndunum sem þeir eru
búnir að fá af sér í Die Zeit og Welt
am Sonntag að maður getur ekki einu
sinni gert þeim það að horfa á þá.
Hvað er líka svona merkilegt við jökla?
Þetta eru bara einhverjir
grútskítugir íshlunkar, ofmetnar
risaeðlur frá ísöldinni sem leið, stafa
engu frá sér nema kulda, öllum til
óþurftar og mættu helst bráðna sem
fyrst. En það má víst ekki. Bráðum verða
þýsku jöklanördarnir búnir að
stofna félag með slagorðinu „verndum
jöklana!“ í ætt við okkar innlenda
slagorð „verndum hálendið!“ Samt eru nú
jöklar bara frosið vatn. En það
er semsagt allt í lagi að helmingurinn
af hálendinu fari undir
frosið vatn þó enginn megi hugsa til
þess að það fari undir venjulegt vatn.

Það er margt skrýtið í
náttúruverndinni. Líklegast er hún bara
íhaldssemi í sinni
hreinustu mynd. Og nú beinist hún að
þeim áformum
Ríkisstjórnarinnar að
reisa stærstu virkjun Íslandssögunnar á
hálendinu norður af Vatnajökli sem
á að sjá nýju álveri fyrir rafmagni,
álveri sem reisa á í einum af
fjörðunum fyrir austan. Þrátt fyrir
fjölbreytta sókn Íslendinga inn á ný
atvinnusvið eins og hugbúnaðargerð,
gerviútlimaframleiðslu og
fiskeldi dettur ráðamönnum aldrei
neitt annað í hug en álver þegar
kemur að því að peppa upp atvinnulífið.
Og fólkið fyrir austan hrópar á
álver; Íslendinga dreymir um að vinna í
álveri af því það er svo hlýtt inní
þeim: Þeir eru fyrir löngu hættir að
vinna í ísköldum frystihúsunum
þar sem tómir útlendingar standa við
færiböndin og það gefur auga leið
að „úti“-vinna er óvinsælasta vinna á
Íslandi.

En hálendisfasistarnir í
höfuðborginni sem allir vinna inni á
þægilegum skrifstofum vilja meina
landsbyggðarfólkinu að fá að verma sín
andlit við ofnana í álverunum,
og allt í nafni náttúrufriðunar, hinnar
nýju trúar á stokka og steina.

Jöklasnobb Íslendinga
verður víst að skrifast á nóbelsskáldið
okkar Halldór Kiljan Laxness.
Hann átti það til að fara yfir strikið í

ofdýrkun á íslenskri
náttúru sem samkvæmt honum var „ofar
æðstu kröfu“ (hvað sem það nú þýðir)
og bjó í raun til hina þjóðernissinnuðu
náttúrudýrkun sem á
einkennilegan hátt var ætíð tengd
sósíalisma og enn er ekki með öllu dauð.

Hún var eiginlega
tilbrigði við stalíníska
kenningu: „Sósíalismi
í einu landi sem er fegursta
land í heimi“. Formúlan var þessi: Einn
fjörusteinn í flæðarmáli
Íslands er dýrmætari en allt Hollywood.
Það tók ekki að fjara undan
þessari kenningu fyrr en Hollywood gerði
myndina „Romancing the Stone“ og
nú er reyndar búið að selja þennan
umrædda stein. Það var
kvikmyndamógúll frá L.A. sem keypti
hann, og allan
fjörðinn að auki.
„Þar sem jökulinn ber við
loft… þar ríkir fegurðin ein“ er
frægasta Laxness-tilvitnunin og
var þegar í stað tattúveruð yfir þvera
þjóðarbringuna sem síðan
hefur verið barin af náttúruverndandi
þjóðernissinnum allar
götur síðan. Sannleikurinn er hinsvegar
sá að þar sem jökulinn ber við loft
ríkir fyrst og fremst kuldi. Kuldi og
leiðindi. Það er það sem
menn vilja vernda. Af því á
meginlandinu er
víst til fullt af fólki
sem sækir í slíkt. Það hefur verið
rannsakað:  Ísland er það land sem
laðar að sér leiðinlegustu túrista í
heimi: Fólk sem kemur með allan
matinn með sér en enga peninga og fer að
sofa klukkan tíu á kvöldin til
þess að geta vaknað klukkan fimm til
þess að verða fyrst niður í
morgunmat.

Ég slysaðist einu sinni
til að gista í fjallakofa í einum
þjóðgarðinum okkar. Í kojuhorni hafði
hreiðrað um sig ein þýskumælandi
meinlætakona;
grænmetisgrá í framan og
vannærð á kroppinn; sannkölluð
jöklanunna. Hún
fylgdist stöðugt með
okkur þegar við opnuðum ísskápinn; að
við stælumst
ekki í Soja-Vollmilch-
fernuna hennar sem hún hafði flutt með
sér yfir hálfa Evrópu. Við
vinirnir grilluðum lambakjöt fyrir utan
kofann og henni tókst næstum því að
slökkva í kolunum með augnaráðinu einu
saman. Hún var greinilega
hardcore grænmetisæta; sú sem borðar
bara grænmeti sem vex í yfir 600 m hæð
yfir sjávarmáli. Þetta var sumarið ´98:

Heimsmeistarakeppnin í
fótbolta stóð yfir. Fyrir einhverja
undarlega en mjög íslenska tilviljun
stóð gamalt Blaupunkt-sjónvarpstæki í
einu horni kofans. Okkur tókst að
kveikja á því: England-Rúmenía. Það var
eins og að kveikja á klámmynd í
klaustri. Strax í fyrri hálfleik hóf hún
að spyrja: „Hvenær er þetta… þessi
leikur búinn?“ Eftir að hún hafði
þrisvar sinnum tjáð okkur að
samkvæmt alþjóðlegum reglum sem gilda í
þjóðgörðum ætti hún rétt á „Ruhe“
klukkan 22.00 skrúfuðum við niður í
hljóðinu. Um miðjan seinni hálfleikinn
stundi hún upp úr svefnpokanum að hún
gæti ekki sofið, skermurinn
væri of bjartur. „Zu hell“. Við þóttumst
ekki skilja og sögðum henni að
hún væri komin „to hell“. Það er engin
tilviljun að náttúrudýrkendur og náttúruverndarfólk
er margt fyrrverandi
kommúnistar. Það er stutt
í þá fasísku taug sem vill helst
útrýma tiktúrum mannlífsins
fyrir stílhreina heildarmynd þar sem
vindurinn fær einn að blása og
sandurinn að fjúka. Þar sem mosinn
breiðir úr sér samkvæmt fimm ára
áætlunum.

II.
En þó Ísland sé kalt og
Íslendingar hafi lært það á 1100 árum að
halda sig inni við koma þó
stundum sólardagar á „skerinu“. Í
Reykjavík eru það þrír dagar á ári. Einn í
júní og tveir í júlí. Þá er öllum gefið
„sólarfrí“: fyrirtækjum er lokað og fólk fer uppí jeppana sína
og keyrir uppí bústað. Munurinn er
hinsvegar sá að nú er hægt að hafa
rúðuna opna á leiðinni.
Fyrir norðan eru sólardagarnir hinsvegar fleiri. Átta
talsins. Gallinn við þá er hinsvegar sá að
þá fara allir íbúarnir í öllum litlu
þorpunum úr öllum fötunum. Það
skiptir engu máli hvort fólk er tvítugt
eða hundrað ára; allir á nærbuxunum niður í kaupfélag. Þá er
gott að vera með sólgleraugu þegar
maður stoppar á bensínstöð og
afgreiðslumaðurinn, 73ggja ára skröggur með
innfallna bringu, kemur töltandi á
sundskýlu einni saman útúr afgreiðsluhúsinu og spyr hvort eigi að
„fyllann?“ Þá er kannski heill vetur frá
síðasta „sólardegi“ og næpuhvítur líkami
afgreiðslumannsinns getur valdið asagláku hjá kúnnanum. (Í
torfbæjunum í gamla daga, þegar ljós
var af skornum skammti, fóru Íslendingar
stundum úr að ofan til að fá smá
birtu í kofann.)

Fyrir utan þetta allt er
Ísland ofur venjulegt land með ofur
venjulegu þjóðfélagi. Eins og
smækkuð mynd af öllum öðrum
þjóðfélögum. Við erum
með forseta. Hann heitir
Ólafur Ragnar Grímsson. Fyrir nokkrum
árum missti hann konuna sína,
Guðrúnu Katrínu, sem var mjög dáð meðal
landsmanna. Í fyrra
trúlofaði hann sig enskri konu úr
skartgripabransanum, Dorrit Moussaieff. Íslendingar fíla hana
frekar vel og eru mjög líbó gagnvart
sambandinu. Eini vandinn er sá að
sjálf er Dorrit næstum því jafn
rík og íslenska ríkið. Þetta veldur
alltaf vissum óþægindum þegar þau
ferðast um fámennar byggðir sem eiga í
fjárhagskröggum. Með einni ávísun gæti kærasta forsetans
reddað heilum landshlutunum frá því að
fara í eyði; keypt eins og eitt álver í
fjörðinn. Undanfarna daga
hafa heyrst þær raddir sem vilja að
forsetinn kvænist heitkonu sinni
sem fyrst. Aðrir eru ekki vissir hvort
hún sé sú rétta fyrir hann. Gamlar
konur á Íslandi eiga enn þá von í
brjósti að forsetinn taki upp sambúð
með gamla forsetanum okkar Vigdísi
Finnbogadóttur. Þannig fengjum við tvo fyrir einn. Á Íslandi
eru nokkrir stjórnmálaflokkar en
eiginlega bara einn pottþéttur
stjórnmálamaður, maður sem við treystum.
Hann heitir Davíð Oddsson og er búinn að
vera forsætisráðherra síðustu
tíu árin. Þau hafa verið okkur sérlega
hagstæð. En vandinn er bara þessi:
Eins og allir sannir Íslendingar er
Davíð Oddsson líka rithöfundur.
Og forsætisráðherrann stefnir nú á það
(eins og fleiri) að gefa út bók
fyrir næstu jól. Þess vegna hefur hann
undanfarna mánuði þurft
að einbeita sér meira að skriftum en
efnahagsmálum. Afleiðingin er fyrsta efnahagslægðin í
tíu ár, gengi krónunnar fellur dag frá
degi, þroskaþjálfar og sjómenn í
verkfalli, allt í kaldakoli. Nokkrir
nýmóðins og ólittererir
viðskiptamógúlar eru
orðnir uggandi um hag
sinn en þjóðin er ósköp róleg yfir þessu.
Eins og heimurinn veit eru
Íslendingar mjög bókelskir og alveg
tilbúnir að fórna
efnahagnum fyrir vonina
um góða bók um næstu jól.

Á Íslandi eru margir
fjölmiðlar. Við erum með tvær
ríkisreknar útvarpsstöðvar. Önnur
þeirra útvarpar svotil eingöngu
veðurfregnum allan sólarhringinn. Þessi stöð
er vinsælust hjá gamla fólkinu. Þegar
Íslendingar eldast gera
þeir svotil ekkert annað en að spá í
veðrið. Á elliheimilunum eru
starfræktir Veðurklúbbar og einnig
Veðraspilavíti þar sem veðjað er grimmt á
hitastig og vindstyrk morgundagsins. Það
eru stórar fjárhæðir sem
skipta um hendur eftir aðal
veðurfréttatímann á hverju kvöldi.

Fyrir utan þessar tvær
stöðvar eru 5 „frjálsar útvarpsstöðvar“.
Þær eru allar í eigu sama mannsins.
Hann býr hinsvegar ekki á
Íslandi þannig að
það er frekar lítið
hlustað á þessar stöðvar.

Stærsta dagblaðið á
Íslandi heitir Morgunblaðið. Það er samt
varla hægt að kalla það dagblað. Það
kemur bara út 300 daga á ári. Það
tekur sér hálfsmánaðar jólafrí, tíu
daga páskafrí og kemur aldrei út á
mánudögum.
Þetta er samkvæmt gamalli
hefð. Um miðja síðustu öld ákvað
Ríkisstjórn Íslands að hafa
einn „fréttalausan dag“ í hverri viku.
Þetta var hugsað til þess að koma í veg
fyrir sjóslys og umferðaróhöpp og lá í
augum uppi að það yrði sunnudagur.
Þá myndi ekkert gerast. Og þá þyrfti
ekkert blað á mánudögum. Okkur hefur
yfirleitt tekist að fylgja þessari
reglu, en eldfjöllin eiga það
stundum til að brjóta hana. Í fyrra
byrjaði til dæmis Hekla að gjósa á
laugardags-eftirmiðdegi. Morgunblaðsmenn
skildu ekkert í þessu, því Hekla
hafði yfirleitt gosið í miðri viku
hingað til. Og þar sem þeir voru
nýbúnir að loka sunnudagsblaðinu og þetta var auk
þess laugardagur fyrir páskadag, þá urðu þeir
að láta sig hafa það að birta fyrirsögnina „Gos í
Heklu“ fjórum dögum eftir að gosið hófst.
Gosið var reyndar búið
þá, en það var allt í lagi. Morgunblaðið beið með
þá frétt þartil daginn
eftir.

Á undanförnum árum hafa
erlendir fjölmiðlar skrifað mikið um það
hve auðvelt sé að fá
íslenskar konur með sér í rúmið. Fyrir
einu og hálfu ári breyttist það
hinsvegar. Þá var opnunartími
skemmtistaða í Reykjavík
gefinn frjáls og nú er
eiginlega orðið vonlaust fyrir menn að
ná sér í konu á næturlífinu. Áður
fyrr var öllum hent út klukkan þrjú og
þá lá leiðin beint heim í rúm
en nú er fólk að rottast þetta á
stöðunum til klukkan sjö á morgnana.
Þá er eftir að finna leigubíl, laga te,
og spjalla soldið. Þá er
klukkan yfirleitt orðin níu og fólk búið
að vera á djamminu í 12 klukkutíma.
Það skeður æ oftar að það sofnar bara
í staðinn fyrir að sofa
hjá. Á þeim tveimur árum síðan opnunartímanum var breytt hefur frjálsum
barneignum á Íslandi fækkað um helming.
Og þar sem lausaleikskróar eru
undirstaða Íslensks samfélags hefur borgarstjórn Reykjavíkur nú ákveðið
aðfæra opnunartímann í fyrra horf.

Þá að íþróttum. Við erum
þokkalega góðir í fótbolta og eigum
marga góða knattspyrnumenn sem leika
með erlendum stórliðum. Landsliðið
okkar er nokkuð gott en deildin
hérna heima er frekar slöpp. Íslenski
boltinn er eins og enski boltinn á
róandi lyfjum. Það er mjög erfitt að sjá
muninn á því í sjónvarpinu hvort
verið sé að sýna hægt eða ekki. Það
þarf reyndar mjög sjaldan að
sýna atriði úr leikjunum í íslensku
deildinni í hægri endursýningu. Það
gerist yfirleitt ekki neitt fyrr en á
80. mínútu. Þá eru leikmenn
sjálfir orðnir svo leiðir á leiknum að
þeir byrja að slást. Það getur
svosem oft verið gaman. Íslenskir
fótboltamenn berjast oft mjög vel.

Á Íslandi eru ekki margir
innflytjendur. Flestir eru frá
Póllandi og fyrrum
Júgóslavíulöndunum. Þeir vinna flestir
í fiski af því að það er
orðið alveg vonlaust að
fá Íslendinga til þess; þeim finnst svo
kalt í frystihúsunum. Mjög
fáir „nýbúanna“ eru svartir. Þeir verða
því oft fyrir kynþáttafordómum. Í
íslenska boltanum eru nokkrir svartir
sóknarmenn. Það ríkir
samt almennt samkomulag á milli liðanna
og áhorfenda að láta þá ekki
skora. Það hefur tekist hingað til.
Reyndar tókst einum þeirra að
skora mark fyrir tveimur árum. Hvorki
áhorfendur né samherjar hans fögnuðu
markinu. Það var heldur ekki talið með
í úrslitum leiksins. Við
viljum samt hafa nokkra svarta menn í
liðunum. Það lúkkar meira
prófessjonal.

Nýlega hefur þessu
kynþáttahatri okkar verið gefið nafnið
„hversdagsrasismi“. Hann
er alls ekki eins grimmur og
„heilsársrasisminn“ sem
stundaður er meðal stærri þjóða. Við Íslendingar gefum fórnarlömbunum fríum
helgar. Og við viljum endilega fá fleiri útlendinga til landsins af því að reynslan
hefur sýnt okkur að þeir eiga mun auðveldara með að harka af sér hina óblíðu íslensku
veðráttu en við sjálf. Okkur vantar alltaf fólk til þess að vinna
„úti“störfin. Ísland er ágætt. Bara
dáldið kalt. En við bindum miklar vonir við Global Warming.

Skildu eftir svar