Íslendingar eru allsstaðar – Nú í Bretlandi


Svona er nú það!

Sunnudaginn 1. maí var haldin önnur keppni ársins í SWOR áhugamannaröðinni í motocrossi í Suð-Vestur Englandi á braut sem heitir Dartmoor.  Að sjálfsögðu var Íslendingur á staðnum, Gummi nr. 116, að ná sér í æfingu fyrir Klaustur.  Þetta er ein 14 keppna sem haldnar eru á tímabílinu 17. apríl til 22. október á 8 mismunandi brautum á svæðinu.  Þessi mótaröð er eins konar 2. deild, því svo er einnig mótaröð fyrir bestu ökumennina á nokkuð stærra svæði og svo er mótaröð til Bretlandsmeistara sem nær um allt Bretland og mætti kalla úrvalsdeildina.

Keppnisformið er aðeins öðruvísi en við eigum að þekkja.  Samtals voru 170 keppendur mættir til leiks í 6 flokkum, sem er getu- og aldursskipt.  Kvenmenn eru ekki keyrðir sér, heldur keppa í þeim flokki sem passar þeirra getu.  Að auki er einn opinn flokkur fyrir þá sem ekki er búið að getumæla, svo sem aðkomna Íslendinga.  Keppnisgjaldið er 28 pund, ca 5.000 kr,- og svo 10 pund auka fyrir þá sem ekki eru félagsmenn.

Dagurinn byrjaði á léttri upphitun þar sem hver flokkur keyrði nokkra hringi til að kynnast brautinni.  Strax í kjölfarið byrjaði keppnin og draga keppendur númer í upphafi hvers mótós til að raða á ráslínu.  Það eru því engar tímatökur eins og við eigum að venjast.  Keppnin sjálf er 3 mótó hjá hverjum flokki, sem eru 10 mínútur plús einn hringur hvert.

Horft yfir brautina í áttina að pittinum

Dagskráin var keyrð áfram af mikilli röggsemi og rúllað hringinn á flokkana þannig að hver flokkur keppir sjötta hvert mótó.  Stoppað er um miðjan dag, brautin vökvuð og skipt um flaggara.

Þetta er mjög týpísk braut fyrir svæðið og er talsvert frábrugðin því sem maður á að venjast á Íslandi.  Hún er ofan í nokkuð bröttu dalverpi og er sáralítið búið að eiga við brautarstæðið fyrir utan 2 litla stökkpalla sem rutt var upp ofan í dalverpinu.  Brautin liggur því fyrst og fremst upp og niður hlíðarnar sitthvoru megin með litlum dropstökkum niður í 180 gráðu beygjur og upp aftur. Þetta skýrist af því að brautirnar eru lagðar inn á landareignum bænda á spildum sem ekki nýtast til ræktunar vegna miklis halla.  Jarðvegurinn er hörð mold sem myndar spor en vúppsast ekki mikið miðað við það sem maður er vanur heima.

Haugsugan

Startið er frekar stutt, upp bratta brekku og efst í henni er snúið við og beygt inn í brautina niður brekkuna aftur.  Brautin er frekar þröng og því afar mikilvægt að ná góðu starti.  Það tekur smá stund að venjast því að vera sífellt að vera að taka dropstökk niður brattar brekkur, U- beygjur neðst og þrykkja upp aftur.  Að þessu leyti er brautin nokkuð tæknileg, en ekki erfið eða hættuleg.

Ljóst er að keppendur eru eins um allan heim.  Um leið og hjálmurinn er kominn á og hliðið fellur, þá týnist allt sem heitir vit og vinir.  Öll almennilegheitin í pittinum horfin og barist um hvert sæti.   Eins og gengur er tempóið mjög breytilegt eftir flokkum og mönnum, en óhætt að segja að bestu ökumennirnir á Íslandi hefðu raðað sér þarna í efstu sætin, þótt expert flokkurinn hafi minnt mjög á A-flokkinn heima.  Sjálfur keppti ég í blönduðum flokki og endaði 12 af 40, sem er svipað og ég er búinn að vera að dúllast í B-flokknum undanfarin sumur.

Stemmingin í kringum brautina er svipuð því sem maður kannast við.  Fólk þekkist meira og minna allt og mikið skrafað milli mótóa.  Helsti munurinn sá að í staðinn fyrir gosþambið voru menn almennt í te, sem hentaði mér ágætlega.  Það hjálpar mikið upp á rólegheitin í pittinum að harðbannað er að keyra í honum og er keppendum umsvifalaust vikið frá ef þeir eru staðnir að því.

Ekki er hægt að segja annað en að vel hafi verið tekið á móti Íslendingnum sem var mættur þarna á svæðið.  Andy á Wheeldon Farm hafði séð um að skrá mig til keppni og kynna mig til leiks ásamt því að útvega mér hjól fyrir daginn, flunkunýtt RM450 sem reyndist frábærlega, og gulan galla í stíl.  Kann ég honum bestu þakkir fyrir alla aðstoðina.

Dregið um númer á ráslínuna
Öllum raðað upp áður en farið á ráslínu. Menn fara út úr þessum pitti í þeirri röð sem klemmurnar segja til um og velja sér hlið.
Stuð í gangi
Startið upp brekkuna
"Jesus had a wee on us” – það kom úrhellisdemba í upphafi þriðju umferðar og allt fór á kaf í drullu

Gummi #116

Skildu eftir svar