Vefmyndavél

Klaustur 2021

 

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu og eftir samtal við ábúendur á Ásgarði á Kirkjubæjarklaustri, hefur VÍK í samráði við ábúendur, ákveðið að halda ekki Klaustur í ár.

Það er algerlega ómögulegt að vita hvernig aðstæður verða í Maí og ekki endilega forsendur til þess að halda keppni fyrir alla sem koma að henni. Þá er einnig átt við sveitafélagið og björgunarstarfsmenn og fleira og fleira.

Við hjá VÍK látum þetta ekki draga okkur niður, heldur setjum við kraft í annað keppnishald hjá okkur, þar sem allt sem við gerðum 2020 heppnaðist svona svakalega vel! Það verður nóg að gerast hjá okkur í ár og erum við endalaust að ræða nýja og spennandi hluti sem hægt er að gera í kringum sportið.

Stefnan er að halda Víkinga Bolaöldu og svo verður brjálað stuð í kringum ENDURO FYRIR ALLA!!!

Vonandi verða forsendur fyrir keppnishaldi á Kirkjubæjarklaustri 2022.

Með bestu kveðju: Stjórn VÍK

Aðalfundur VÍK 2020, 18.febrúar

Aðalfundur VÍK verður haldinn í Laugardalnum, fimmtudaginn 18 febrúar kl. 20:00. Fundurinn fer fram í sal D í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal við Engjaveg 6. Á boðstólum verður kaffi og með því. Dagskráin verður í samræmi við hefðbundin aðalfundarstörf.
Skv. lögum VÍK er stjórn félagsins kosin á hverju ári. Það á við um formann, stjórnarmenn og varamenn. Hvetjum við alla sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu starfi eða bjóða sig fram í stjórn, að mæta á fundinn. Framboð eru beðin um að berast til formanns eða stjórnarmanna fyrir fundinn. Einnig er hægt að senda framboð á vik@motocross.is.
Margar hendur vinna létt verk!
Endilega mætið og takið þátt.
Með bestu kveðju.
Stjórn VÍK

Aðalfundi frestað

Vegna samkomutakmarkana hefur stjórn VÍK ákveðið að fresta aðalfundi til 3.febrúar 2021. Tíma- og staðsetning auglýst síðar.

Lokanir á slóðum í Bolaöldu:

Frá og með deginun í dag (8. nóvember 2020) er ekki lengur leyfilegt að keyra eftirfarandi slóða í Bolaöldum, sem lagðir voru vegna Hard Enduro keppninar þann 5. september sl.
• Klifurbrekka fremst í Jósepsdal (nr. 1 á korti)
• Slóði upp á Sauðadalshnúk (nr. 2 á korti)
• Slóði á milli Sauðadalshnúk og Blákollu (nr. 3 á korti)
• Slóði upp brekku við Þórishamar og ofan á hrygg(nr. 4 og 5 á korti)
• Slóði upp brekku við svæðið sem nefnist Dómadalshlíð (nr. 6 á korti)

Ástæða fyrir lokunum á þessum slóðum eru athugasemdir frá Umhverfisstofnum og hefur stjórn VÍK ákveðið að lúta þeim. Þess vegna er akstur á þessum leiðum með öllu óheimill og biðjum við alla þá sem hjóla á Bolaöldusvæðinu að halda sig annaðhvort í MX brautum eða á eldri slóðum. Búið er að loka fyrir megnið af slóðunum með staurum, böndum og skiltum og stefnt er að þerri vinnu verði lokið föstudaginn 13. nóvember.
Einnig skal tekið fram að allur akstur um Ólafsskarð er með öllu óheimill!
Vinsamlegast virðið þetta, stjórn VÍK.

Tilkynning frá MSÍ

Keppnishaldi MSÍ frestað!

Að gefnu tilefni þá hefur öllu íþróttastarfi, þar með talið akstursíþróttum, verið aflýst um óákveðinn tíma. Þetta er ráðstöfun sem tekin er af ÍSÍ og aðildarsamböndum (MSÍ ofl.) að höfðu samráði við Almannavarnir og Landlækni.

Stjórn MSÍ fylgist vel með öllum fréttum sem berast og mun upplýsa um þær á netmiðlum. Gera má ráð fyrir að þetta ástand muni vara að lágmarki næstu 4-6 vikurnar. Stjórn MSÍ mun birta uppfærðar fréttir af gangi mála 20. apríl. Keppnishaldi hefur þegar verið frestað í Sno-Cross keppnum og líklegast er að einhverjum fyrirhuguðum keppnum í maí verði frestað fram á sumar. Stjórn MSÍ mun leita allra ráða til þess að allar keppnir á keppnisdagatali fari fram þó svo að finna verði nýjar dagsetningar.

Hert samkomubann gildir frá miðnætti mánudagsins 23. mars 2020. Allar samkomur verða takmarkaðar við 20 manns hvort heldur er í opinberum rýmum eða einkarýmum og jafnframt er krafa um að tveggja metra fjarlægðarviðmiðinu sé framfylgt. Hreinlæti og sóttvörnum skal fylgt eftir sem áður. Þetta setur skorður á allt keppnishald MSÍ.

Tekið af síðu MSÍ hér.

Tilkynning frá ÍSÍ. Allt íþróttastarf fellur niður.

Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, hefur sent frá sér leiðbeinandi viðmið um hvernig beri að túlka auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna.

Hvað varðar íþróttastarf barna og ungmenna er eftirfarandi beint til íþróttahreyfingarinnar:

„…að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur.“

Hvað varðar íþróttaiðkun fullorðinna þá er eftirfarandi beint til til íþróttahreyfingarinnar:

„…er þeim tilmælum beint til ábyrgðaraðila og skipuleggjenda annars íþrótta- og æskulýðsstarfs að með sama hætti verði gert hlé á starfi sem felur í sér snertingu eða nálægð milli iðkenda sem er minni en 2 metrar, í samræmi við þær meginreglur sem fram koma í auglýsingu um takmörkun á samkomum og á meðan þær takmarkanir eru í gildi.“

Jafnframt hvetja ráðuneytin skipuleggjendur íþróttastarfs til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.

Eftirfarandi árétting barst frá sóttvarnalækni í dag í tilefni útgáfu leiðbeinandi viðmiða frá heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti:

„Sóttvarnalæknir vill árétta að í auglýsingum heilbrigðisráðherra um samkomubann og um takmarkanir á skólastarfi er fjallað um að nálægð einstaklinga verði ekki minni en tveir metrar ef því er við komið. Einnig er ljóst að með vísan í leiðbeiningar um almennar sóttvarnaráðstafanir t.d. varðandi hreinlæti og smitleiðir að sameiginleg notkun á hverskonar búnaði til íþróttaiðkunar boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleira án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga er mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir.
Því er augljóst að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa.
Sóttvarnalæknir vill beina því til Íþrótta- og ólympíusambands Íslands að, líkt og gert hefur varðandi börn og ungmenni, að tekið verði hlé í æfingum og keppnum á vegum sambandsins og aðildarfélaga þeirra á meðan samkomubann varir.“ (birt á Facebook síðu Almannavarna).

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og UMFÍ treysta því að öll íþróttahreyfingin muni fara að þessum afgerandi tilmælum og að allt íþróttastarf falli tímabundið niður. Það er augljóslega ekki auðvelt fyrir íþróttahreyfinguna en við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að þjóðin standi saman sem einn maður og að íþróttahreyfingin sýni fulla samstöðu og ábyrgð.

Við viljum jafnframt minna á mikilvægi þess að landsmenn haldi áfram að hreyfa sig þrátt fyrir að skipulagt íþróttastarf sé ekki til staðar. Þá er mikilvægt að félög haldi áfram að þjónusta sína iðkendur með þeim hætti sem mögulegt er, með fjar- og heimaæfingum.

Leiðbeiningarnar frá ráðuneytunum í heild sinni er að finna hér.

Síða 1 af 94012345...2040...Síðasta »