Byltingarkennt Enduro-hjól frá Husaberg

2009 árgerðirnar af Husaberg FE 450 og FE 570 Endurohjóli eru komnar til landsins og verða sýndar í vikunni hjá Nítró, umboðsaðila Husaberg á Íslandi. Hönnun og gerð þessa hjóls þykir sæta miklum tíðindum í veröld mótorhjólanna og hafa Husaberg aðdáendur beðið þeirra með óþreyju.

Að sögn Husaberg þykir hjólið markar tímamót í hönnun Endurohjóla. Meðal þeirra nýjunga sem er að finna í hjólinu er byltingarkennd vélarhönnun þar sem sveifarásnum með sína gírókrafta er komið fyrir eins nálægt þungamiðju hjólssins eins og hægt er. Þetta gerir það að verkum að léttleiki og beygjueiginleikar hjólsins eru eins og hjá helmingi minna hjóli. Það er hinn sérstaki 70° halli á cylinder nýja hjólsins sem gerir þetta kleift. Um leið minnkar hæð vélarinnar sem einfaldar vinnuna þegar ventlar eru stilltir. Í hjólinu er líka bein innspýting frá Keihin svo ekki þarf að stilla eftir hita og loftþrýstingi auk þess sem hægt er að velja úr tveimur stillingum á kveikju og innspýtingu eftir því hvort ökumaður sækist eftir hámarks afli eða viðráðanleika. Loftsían situr hátt milli tanks og sætis og er því vel varin fyrir vatni. Nett og létt plast-afturgrind og nýjar Brembo bremsur eru einnig meðal þess sem gera þetta nýja hjól einstakt. Hjólið er einnig búið rafstarti sem auðveldar til muna gangsetningu og fremri pústpípu sem er hönnuð með það í huga að skemmast ekki ef ökumaður fellur af hjóli sínu. Nýja Husaberg hjólið fæst bæði með 450cc og 570cc vél.

Það er mótorhjólaverslunin Nítró sem er umboðsaðili fyrir Husaberg. Þau verða sýnd í verslun Nítró við Bíldshöfða 9., 10. og 11. mars og svo á Akureyri frá 12. mars auk þess sem þau verða sýnd á Íscross/Snocross mótinu á Mývatni 14. mars.

Skildu eftir svar