TransAtlantic Offroad Challenge formlega aflýst

Undanfarna mánuði hefur mikið verið rætt og skrifað um framhald TransAtlantic Offroad Challenge keppninna á Klaustri. Keppnin var haldin í fyrsta sinn árið 2003 fyrir tilstuðlan Kjartans Kjartanssonar í samstarfi við Vélhjólaíþróttaklúbbinn. Síðan þá hefur keppnin vaxið á hverju ári og á síðasta ári kepptu tæplega 500 manns í aðalkeppninni.
Undirbúningur fyrir keppnina hefur verið mikill og því miður, eins og oft er, lent á sömu fáu aðilunum ár eftir ár. Keppnisumfangið hefur farið ört vaxandi og af þeim sökum verður erfiðara og erfiðara að standa að undirbúningi. Þegar svo bætast við árviss átök við landeigendur (sjá meira neðar) sem ganga m.a. hart fram í því að stórhækka keppnisgjöld, þá hefur mælirinn fyllst. VÍK vill ekki taka þátt í að vélhjólafólk sé haft að féþúfu og telur kröftum sjálfboðaliða varið betur á öðrum vettvangi. Málum hefur því lyktað þannig að VÍK hefur alfarið dregið sig frá þátttöku í Klausturskeppninni.

Stjórn VÍK


Öll vinna og skipulagning hefur verið í höndum Kjartans ásamt stjórnar og félagsmanna VÍK, án utanaðkomandi styrkja eða aðstoðar.  Keppnin hefur verið í hugum flestra, formlegt start á sumrinu og eitthvað sem allir hafa hlakkað til.  Án efa hafa íbúar á svæðinu í kringum Kirkjubæjarklaustur notið góðs af framtakinu sem hefur laðað til sín fjölda ferðamanna síðustu helgina í maí undanfarin ár.
Eins og fram hefur komið var útlit fyrir að keppnin yrði ekki haldin vorið 2007.  Viðræður við landeiganda í Efri-Vík um framhaldið gengu stirðlega og lengi vel var óvíst hvort keppnin færi fram.  Á endanum tókust þó sáttir um keppnishaldið.  Í því ferli óskaði VÍK eftir viðræðum við landeigendur um framhaldið til næstu ára, en viðbrögð létu á sér standa.
Í huga þeirra sem hafa staðið að  undirbúningi keppninnar, var lítill áhugi á að endurtaka leikinn frá síðasta vori – þ.e.a.s. að standa í þrasi við landeiganda um fyrirkomulag keppninnar, greiðslur fyrir landið og fl., fram á síðustu stundu.  
Í upphafi árs gaf VÍK því út tilkynningu þess efnis að keppnin yrði ekki haldin í ár.
Í kjölfar þess hafði fulltrúi landeiganda samband við VÍK – lýsti yfir áhuga á að auka samstarfið um keppnina og óskaði eftir viðræðum um framhaldið.  Í framhaldinu átti VÍK tvo fundi með sitt hvorum aðilanum frá Efri-Vík þar sem keppnin og forsendur hennar voru ræddar.  Á seinni fundinum sátu sveitarstjóri og fulltrúi Skaftárskála sem hafa sýnt mikinn áhuga á að halda keppninni innan svæðisins.  Á fundunum var óskað eftir að við myndum endurskoða ákvörðun okkar um falla frá þátttöku. Viðhorf VÍK varðandi keppnishaldið og hvað þyrfti að breytast til að við breyttum ákvörðun okkar voru skýr. Við lögðum til að samningur yrði gerður til þriggja ára og fórum fram á aukið samstarf um keppnishaldið –  byggingu salerna, aðstoð við brautarlagningu o.fl.  Síðst en ekki síst vildi VÍK að hætt yrði við dansleikinn sem landeigandi hefur haldið undanfarin ár í óþökk VÍK.  Sú "skemmtun" hefur laðað að umtalsverðan fjölda annarra en vélhjólafólks með tilheyrandi drykkjulátum og óspektum.  Slíkt hefur svo kallað á mikla umræðu sem hefur ratað í fjölmiðla og gert íþróttinni ekkert nema ógagn.  Um leið hafa fjölmiðlar þagað þunnu hljóði um aðra og jákvæðari hliðar keppnishaldsins.
Óskir landeiganda voru á móti, að koma að framkvæmd keppninnar, hækka keppnisgjöld verulega, selja inn á svæðið, draga úr utanvegaakstri í kringum pittsvæðið og utan brautarinnar en um þetta síðasta atriði var full sameining um.  Í kjölfar seinni fundarins sendum við okkar hugmyndir á landeiganda sem svaraði um hæl með nýjum og óásættanlegum kröfum sem fólust fyrst og fremst í:

Hækkun keppnisgjalds upp í 8.000 kr. og af því fengi landeigandi 50% í stað 25% áður.
– Landeigandi fengi allan aðgangseyri inn á svæðið til að dekka greiðslur til aðstoðarmanna (björgunarsveitar og annarra). Þetta er liður sem VÍK hefur greitt fyrir hingað til enda björgunarsveitin verið hluti af öryggi keppenda.

Óljós svör voru með samkomuhald en hugmyndir VÍK gengu út að halda samkomu þar sem menn gætu hist og borðað saman og allir sem komið hefðu að keppninni, börn jafnt sem fullorðnir gætu gert upp daginn. Það gerist ekki á stað þar sem er vínveitingaleyfi, hljómsveit og meðfylgjandi ólæti.
Á móti lýsti landeigandi sig fúsan til að leggja kostnað í salernisbyggingu og aðra þætti. Kostnaðartölur vegna þessara liða voru þó að okkar mati stórlega ofmetnar og til þess settar fram að réttlæta gríðarlega hækkun á greiðslum til landeigandans.
Síðasta ár greiddi félagið 599 þús. kr. fyrir landið en miðað við óbreyttan keppendafjölda hefði mátt ætla að greiðsla nú til EV færi í  rúmar 2,2 milljónir.  Er þá miðað við svipaða aðsókn og síðasta sumar. Hækkun um 360% á greiðslu fyrir svæðið til EV er í engu samhengi við þá vinnu eða kostnað sem við sjáum koma frá Efri-Vík.  Auk þess er líklegast að aðsókn muni dragast stórlega saman m.v. þessar forsendur.

Undanfarin ár hefur VÍK greitt landeiganda fyrir tiltekt á svæðinu, sléttun á brautinni,  dreifingu fræs og áburðar á gróin svæði o.m.fl.  Lítið hefur verið um efndir á þessu og sem dæmi má nefna að síðasta vor greiddi félagið fyrir alla jarðýtuvinnu o.fl. sem þó hefði átt að vera framkvæmd og greidd af Efri-Vík árið áður.  Auk þess hreinsuðum við svæðið fyrir síðustu keppni og sáum engin ummerki um nokkra vinnu þar af hálfu EV sem þó hafði verið greitt fyrir.

VÍK hefur vanalega greitt fyrir alla vinnu sem við óskum eftir í kringum keppnina aðra en sjálfboðavinnu og þurfum ekki á aðstoð að halda við það.  Ef framkvæmdir við salerni eiga að réttlæta þessa hækkun þá liggur beinast við að halda áfram að vera með færanleg salerni á kostnað félagsins þó slíkt hafi verið óskemmtilegt.
Óskir landeiganda mátti líta á sem einhliða kröfugerð sem VÍK bæri að samþykkja og við slíkt getum við ekki unað.  Miðað við þessi og fyrri samskipti ásamt fyrirlyggjandi forsendur sjáum við því miður ekki nokkurn flöt á því fyrir VÍK að taka þátt í keppnishaldinu á Klaustri.  Því miður finnst okkur þetta vera áþreifanlegt dæmi um hvernig gott frumkvæði og uppbyggingarstarf örfárra er drepið niður af fégírugheitum og yfirgangi.
Það er út í hött að hækka keppnisgjald á einu ári um 60% – 1.000 kr. hækkun á milli ára er hófleg en með 3000 kr. hækkun munu keppendur væna okkur um að hafa sig að féþúfu – nógur er kostnaður þeirra samt.
Gagnvart öðrum hagsmunaaðilum á staðnum þykir okkur þessi staða sérlega leiðinleg enda höfum við átt mjög góðar stundir þarna og reynt að skila okkar til staðarins þessi ár sem keppnin hefur farið fram.
En brautin situr eftir í landi Efri-Víkur og landeigandinn hefur lýst því yfir að hann ætli að halda keppnina á eigin vegum í ár.

 

Skildu eftir svar