Hefði farið út með næstu öldu ef ekki fyrir stuðning félagans

Vélhjólaeigandinn Guðmundur Á. Guðlaugsson var hætt kominn á föstudaginn langa, þegar hann var á ferð við fjórða mann á vélhjólum um fjörur Sólheimasands. Þar lenti hann í ógöngum í flæðarmálinu og mátti litlu muna að hann léti í minni pokann fyrir náttúruöflunum þennan dag. Víða eru, að sögn Guðmundar, lítt sjáanlegar hættur sem rétt er að vara fólk við.


Ferðafélagarnir voru á tveimur ferðahjólum og tveimur fjórhjólum og keyrðu sem næst flæðarmálinu þar sem gróður er enginn, þar til komið var að ánni Klifandi, að sögn Guðmundar. Þar afréð hann, eftir tvær brokkgengar tilraunir félaga sinna til að komast yfir ána nokkru ofan óssins, að fara yfir hana 50-100 metrum ofan flæðarmálsins. Þar breiðir áin úr sér og virðist hálfpartinn hverfa út í sandinn.

„Við höfðum keyrt yfir sprænur sem hurfu svona út í sandinn fyrr þennan dag. Það virtist ekkert mál,“ segir Guðmundur, sem er vanur ferðamennsku og er m.a. bílstjóri hjá björgunarsveitinni Kili á Kjalarnesi. Hann hafi fundið að sandurinn var blautur en ekki áttað sig á þeirri miklu hreyfingu sem var í honum. Þegar út á sandbleytuna var komið sökk hjólið lítið, en færðist á mikilli ferð í átt til sjávar.

„Þetta var kannski 30-50 metra breitt yfir á bakkann hinum megin, en ég átti rúmlega þrjá metra ófarna þegar ég komst ekki lengra,“ segir Guðmundur. Þá var hann kominn svo nálægt sjónum að stór alda lenti á honum og sló hann af hjólinu. Hann hafði þá borist tugi metra til hliðar. Guðmundur fékk þá á sig hverja ölduna á fætur annarri, sem kaffærðu hann og drógu úr honum mátt. Að lokum missti hann hjólið frá sér eftir mikla baráttu við öldurnar og þurfti hjálp frænda síns og ferðafélaga til að komast upp á bakkann. „Ég var alveg búinn, og hefði farið út með næstu öldu ef hann hefði ekki stutt mig upp á bakkann,“ segir Guðmundur.

Hann segist hafa misst áttirnar algjörlega í öldurótinu og varla hafa vitað hvaðan á sig stóð veðrið. Honum hafi þó orðið hugsað til slyss sem varð í Reynisfjöru sl. vor, þar sem þýskan ferðamann tók út í ölduróti. Guðmundur segir mikilvægt að hann og aðrir læri af þessum mistökum. Allir ættu að vara sig á aðstæðum sem þessum. Föstudaginn langa var veður gott og ekkert sem benti til að illa gæti farið. Guðmundur segir duldar hættur af þessu tagi víða að finna. „Menn eiga að passa sig á öllum svona sprænum og sandpyttum í fjörum sem hægt er að festast í. Ef öldurót er fyrir utan geta aðstæður breyst á örskömmum tíma, jafnvel þótt veður sé gott,“ segir hann.

tekið af mbl.is

Skildu eftir svar