Miðalausir í Bolaöldu – ökumaður í 6 vikna bann

Stjórn VÍK fundaði í dag m.a. um viðbrögð við þeim fjölmörgum sem virðast sleppa því að borga í Bolaöldubrautina. Þetta verður alls ekki liðið lengur og hefur stjórn ákveðið eftirfarandi viðbrögð í þessum tilvikum til að taka af allan vafa.

Vinnureglur VÍK í Bolaöldubrautinni verða hér eftir þessar:

1. Miðalaus ökumaður í brautinni og miðinn er "inni í bíl" = brottvísun úr brautinni fyrir daginn.
Þetta er algengasta svarið sem menn gefa fyrir miðaleysi og engin leið elta menn um allt bílastæði til að sannreyna þetta.

2. Miðalaus ökumaður í annað skipti = 30 daga útilokun frá brautum VÍK.
Sektir eða almenn tilmæli og áróður virðist duga skammt á suma og því hefur félagið ákveðið að bregðast mjög hart við ítrekuðum tilfellum. Ásókn og slit á brautunum er gríðarlegt sem kallar á mjög mikla og dýra ýtuvinnu á nánast hverjum einasta degi. Þeir sem ekki borga verða hreinlega að vera annars staðar.

3. Alvarlegri brot eða enn ítrekuð = ákvörðun stjórnar VÍK í hvert sinn.

Með tilliti til þessarar ákvörðunar hefur stjórn VÍK ákveðið að banna Michael B. David afnot af svæðum VÍK næstu sex vikurnar eða til og með 18. júní. Michael var miðalaus í brautinni síðasta sumar og sýndi í kjölfarið af sér óíþróttamannslega hegðun. Í kjölfarið samþykkti hann að vinna 10 klst. í sjálfboðavinnu fyrir félagið. Hann hefur aðeins unnið 5 tíma af þessum 10 og er bannið því lengra fyrir bragðið.

Það er stjórn síður en svo ánægjulegt að þurfa standa í svona aðgerðum eða skilaboðum. Það er hins vegar alveg klárt að ef félagið á einfaldlega að lifa þennan gríðarlega vöxt og aðsókn verður að grípa til svona óskemmtilegra aðgerða.

Stjórn VÍK

Skildu eftir svar