Umhverfisnefnd VÍK fordæmir vinnubrögð skálavarðar FÍ.

Eftirfarandi tilkynning var send á fjölmiðla í dag í tilefni fréttaflutnings af eftirlitsferð þyrlu Landhelgisgæslunnar um helgina.

Umhverfisnefnd Vélhjólaíþróttaklúbbsins (VÍK) fordæmir allan utanvegaakstur vélhjóla og bíla á Íslandi. Nefndin fordæmir á sama hátt þau vinnubrögð skálavarðar Ferðafélags Íslands í Hvanngili að kæra utanvegaakstur mótorhjóla um síðustu helgi þar sem lítill eða enginn fótur reyndist fyrir kærunni eftir því sem fram kom í fjölmiðlum. Kæran hafði það í för með sér að kölluð var út þyrla Landhelgisgæslunnar með tilheyrandi kostnaði fyrir skattborgaranna. Falskar upphrópanir sem þessar skemma án efa fyrir því uppbyggilega forvarnarstarfi sem félög á borð við VÍK og Ferðaklúbbinn 4×4 eru að vinna að. Íslensk náttúra er ómetanlegur fjársjóður og hvetur Umhverfisnefnd VÍK því landverði

sem og alla aðra til að kæra tafarlaust öll raunveruleg spjöll á náttúru landsins
hvort sem um er að ræða sakir vélhjóla-, jeppa-, hesta- eða annars útivistarfólks.
Kærur sem byggja jafnvel á fordómum og skilningsleysi gagnvart einstökum hópum
útivistarfólks eru hins vegar eingöngu til þess fallnar að hvetja til óeiningar og
samstöðuleysis gagnvart þessu mikilvæga máli sem náttúruvernd er. Það er
umhugsunarvert hvort viðkomandi skálavörður hefði brugðist eins við og hann gerði er
hann sá 30 vélhjólamenn ef t.a.m. 30 jeppamenn, 30 hestamenn eða 30 göngumenn hefðu
mætt á hans umráðasvæði. Á sama hátt má velta fyrir sér hvort lögreglan hefði
brugðist eins við og kallað út þyrlu. Því er erfitt að svara en lítið hefur heyrst
af því í fjölmiðlum að þyrlur hafi verið sendar upp á hálendið til að kanna
náttúruspjöll annarra hópa en vélhjólamanna.

Þeir sem ferðast um hálendið og annarsstaðar í náttúru Íslands sjá víða ummerki
eftir þá sem á undan hafa farið. Í sumum tilfellum er það eðlilegt því leggja þarf
vegi og slóða svo fólk geti farið um landið til að njóta náttúrunnar. Sumir kjósa að
gera það gangandi, aðrir á hestum, bílum, vélhjólum eða öðrum farartækjum. Ný
vandamál hafa verið að skjóta upp kollinum síðustu áratugina. Samhliða vaxandi
ferðamennsku, innlendri sem erlendri, hefur álagið á landið aukist. Ljót sár eftir
utanvegaakstur bíla og vélhjóla sjást víða auk þess sem djúp sár eftir hesta eru
sífellt meira áberandi. Það er einnig vitað að umferð starfsfólks opinberra
fyrirtækja hefur víða markað spor sem ekki verða aftur tekin.

Félög jeppafólks og vélhjólamanna hafa tekið af ábyrgð á vandamálinu í sínum hópum
og reyna eftir fremsta megni að reka áróður fyrir ábyrgu aksturslagi sinna manna –
en betur má ef duga skal. Hestafólk þarf einnig að taka fastar á sínum málum. Og
þeir sem ganga t.a.m. Laugaveginn sjá skýr merki þess að umferð göngufólks getur
líka skilið eftir sig ljót ummerki í náttúrunni. Verkefni náttúruunnenda eru því
fjölmörg og krefjandi og því mikilvægt að málum sé sinnt fordómalaust og með opnum
hug.

Umhverfisnefnd VÍK vill því hvetja allt ferðafólk til að sýna nærgætni og tillitsemi
í náttúru Íslands og hvetur til samstöðu ólíkra útivistarhópa gegn náttúruspjöllum.

Nánari upplýsingar veitir Leópold Sveinsson umhverfisnefndarmaður VÍK í síma 896
2900, leo@argus.is <mailto:leo@argus.is> .

Skildu eftir svar