Umhverfisnefnd vélhjólafélagana leitar til þín

Í febrúar síðastliðnum fundaði Umhverfisnefnd vélhjólafélaganna með Reykjanesfólkvangi, Landgræðslunni, Landvernd og Umhverfisstofnun.
Þessi fundur var gagnlegur fyrir margra hluta sakir þó ekki væru allir sammála um málefnin. Helsta niðurstaða fundarins var sú að Umhverfisstofnun sá um að skrifa bréf til Umhverfisráðherra þar sem hann var beðinn um að beita sér fyrir því að innan ráðuneytisins yrði stofnuð nefnd sem tæki á hitamálum vélhjólafólks þessa dagana – þ.e.a.s. – umhverfismálunum.

Nokkrum mánuðum síðar barst neikvætt svar frá ráðuneytinu. Við vorum undrandi yfir þessu og fengum í kjölfarið fund með ráðuneytisstjóra Umhverfisráðuneytisins. Sá fundur leiddi til þess að málinu var vísað aftur til Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun hefur nú kallað saman vinnuhóp sem ætlað er að taka á akstri vélhjóla í náttúru Íslands. Þátttakendur í þessum vinnuhópi verða, auk VÍK og Umhverfisstofnunar, Samtök sveitarfélaga og Vegagerðin. Vinnuhópurinn hefur fundað einu sinni óformlega, en fyrsti formlegi fundurinn verður haldinn núna í september.

Nú leitum við til þín!

Umhverfisnefnd vélhjólafélaganna vinnur hörðum höndum að undirbúningi þessa samstarfs og allar hugmyndir sem rúmast innan þessa vinnuhóps eru vel þegnar – hvort sem það eru breytingar á lögum og reglum, skipulagsmál, slóðamál, umhverfismál eða fræðslumál.
Tryggingamál og skráningamál verða væntanlega ekki tekin fyrir á þessum vettvangi og ekki verður fjallað um keppnishlutann. Áhugasamir eru beðnir um að senda hugmyndir sínar til Umhverfisnefndar  vélhjólafélaganna sem fyrst á veffangið jakob@geokobbi.com .

Kv.  Umhverfisnefndin

Skildu eftir svar