Ed Bradley með yfirburði í Ólafsvík ( Fréttatilkynning )

Nýuppgerð sandbraut heimamanna í Ólafsvík skartaði sínu fegursta í blíðviðri síðustu helgar þegar keppendur í Íslandsmótinu í mótorkrossi óku fyrstu umferð sumarsins.  Fyrirfram var búist við hörkuspennandi keppni þar sem Ragnar Ingi Stefánsson, núverandi Íslandsmeistari og keppnismaður

 Honda liðsins fékk harða samkeppni frá Ed Bradley frá Bretlandi sem keppir fyrir KTM og Brent Brush frá Bandaríkjunum sem keppir fyrir Yamaha.

Ed Bradley tók strax forystuna
Ed Bradley, sem hafði langbesta tímann í tímatökum, hóf daginn af miklum krafti og tók forystu strax í startinu.  Einar Sigurðarson, KTM náði góðu starti, fann sig vel í sandinum og hékk lengi vel á öðru sæti.  Brent Brush, sem þó er óvanur mjúkum sandbrautum, sýndi frábæra spretti og mikil tilþrif á stökkpöllunum.  Hann náði fljótlega að komast í annað sæti og hafði Ragnar Inga á hælum sér.  Hinn ungi ökumaður Kári Jónsson á TM sem nýlega varð 17 ára hefur náð miklum framförum síðan í fyrra og keyrði þétt á meðal fremstu manna.  Kári datt illa undir lokin og náði ekki að klára keppnina, en hann á eflaust eftir að sýna fleiri takta í sumar.  Valdimar Þórðarson á Yamaha, Gunnlaugur Karlsson á KTM og Jóhann Ögri Elvarsson á KTM slógust lengi um næstu sæti.  Jóhann sprengdi mótor í lokin og Valdimar hafði betur í baráttunni við Gunnlaug.  Gunnlaugur er ekki nema 15 ára og á því enn mjög mikið inni í sportinu.

Spennandi barátta og hrikaleg stökk
Mótið fór fram í einni glæsilegustu mótorkrossbraut landsins sem framsæknir heimamenn hafa byggt upp síðustu ár, en þessi krefjandi sandbraut státar meðal annars af stærsta stökkpalli landsins.  Ökumenn keyra þrjár umferðir sem hver um sig varir í 15 mínútur auk tveggja aukahringja.  Bradley sigraði allar umferðirnar.  Brent varð annar í tveimur umferðum en varð að sætta sig við þriðja sætið í lokaumferðinni.  Ragnar Ingi, sem náði þriðja sætinu í fyrstu umferð lenti í samstuði í annari umferð sem gerði Einari kleyft að taka þriðja sætið í þeirri umferð.  Ragnar Ingi gerði gott um betur í þriðju umferð, tók annað sætið og þótt hann náði aldrei að ögra Bradley var hann ekki langt undan.  Keppnin var æsispennandi og skemmtileg, stökkin voru hrikaleg og gaman að fylgjast með keppendunum skera þröngar sandbeygjurnar.  Það verður greinilega mikill hasar í komandi keppnum Íslandsmótsins í mótorkrossi.   

Úrslitin eru hér

{mosimage}
Aron Ómarsson á KTM sigraði 125cc unglingaflokk

{mosimage}
Ed Bradley á KTM tók forystuna strax í startinu

{mosimage}
Brent Brush á Yamaha sýndi mikið listflug á stóru stökkpöllunum og skellti hjólinu gjarnan á hlið í loftinu

{mosimage}
Ragnar Ingi á Honda hefur aldrei verið í betra formi og keyrði greitt á sérsmíðuðu afturdekki

{mosimage}
Keppendur fljúga í gegnum markið á stærsta mótorkross-stökkpalli landsins

Skildu eftir svar