Ballett á hjólum

Ballett á hjólum

ÍSLENSK mótorhjólamenning, eins dásamleg og hún nú er, hefur til þessa átt álíka mikla samleið með klifurhjólum (trials) og loðinn þungaviktarboxari með lítilli balletdansmey. En e.t.v. er að verða einhverskonar hugarfarsbreyting þar sem menn eru í auknum mæli farnir að horfa á aksturseiginleika í stað hestafla en þetta tvennt á ekki endilega alltaf samleið. Sala á litlum 250cc torfæruhjólum hefur snaraukist undanfarin ár og nú má greina titring á nýjasta dellumæli okkar Íslendinga, en hann mælir klifurhjóladellu.

Ný stórdella í uppsiglingu?
Undanfarið hefur verið mikil umræða um þessi hjól meðal mótorhjólamanna, nokkur slík hjól hafa verið seld, fleiri á leiðinni og spurning hvort ný stórdella sé í uppsiglingu? Þrátt fyrir að rík og löng hefð sé fyrir slíkum mótorhjólum í Evrópu vita í raun sárafáir hérlendis nokkuð um hvað málið snýst. Við fyrstu sýn virðast hjólin mjög lítil og nett og vega á bilinu 65-70 kíló með öllum vökva. Mótorarnir eru flestir hljóðlátir tvígengismótorar, eru fremur eyðslugrannir og skila aflinu frá sér silkimjúkt sem er nauðsynlegt í erfiðum jafnvægisæfingum en einnig fylgir þeim sú skemmtilega aukaverkun að jarðvegsrask frá slíkum hjólum er í algeru lágmarki. Dekkin eru með mun fínna munstri en hefðbundin torfærudekk og er loftþrýstingur í þeim hafður lítill svo dekkin séu mýkri, hafi stærri gripflöt og hreinlega lími sig við jarðveginn. Akstur þessara hjóla snýst fyrst og fremst um jafnvægi. Þeir fáu sem hafa séð alvöru klifurhjólakappa sýna listir sínar eru á einu máli um að þarna sé stórkostleg íþrótt á ferð en vita jafnframt ekkert hvernig á að leika það eftir sem fyrir augu ber (enn sem komið er) þar sem aksturstæknin í þessum geira er allt öðruvísi en á hefðbundnu torfæruhjóli.
Það er því gleðiefni að Íslendingar fá nú á næstu vikum að berja einn færasta klifurhjólakappa heimsins augum er Bretinn Steve Colley kemur til landsins í boði Vélhjólaíþróttaklúbbsins (VÍK). Steve mun halda nokkrar sýningar í reiðhöllinni í Víðidal 19. og 20. nóvember og mun þessi geðþekki náungi svara spurningum landans um þetta framandi og oft á tíðum óskiljanlega mótorsport. Steve verður síðan heiðursgestur á árshátíð VÍK sem haldin verður laugardagskvöldið 20. nóvember með pompi og prakt. Dagbók Drullumallarans verður með fingurinn á þessu máli og ættu áhugasamir að fylgjast vel með á vetrarmánuðum þegar við prófum klifurhjól hér í blaðinu með öllum þeim pústrum og marblettum sem því kunna að fylgja.

ÞK

Skildu eftir svar