Næsta endúrókeppni

Ég var að koma frá því að skoða væntanlega keppnisbraut í Enduro 21 júní í landi Grettis „hins góða“. Brautin er um 20 km norður frá Hellu og heitir Svínhagi. Til að komast þangað er framhjá Hellu þar til komið er að skilti sem stendur á Gunnarsholt (þjóðveg 264). Þar er beygt til vinstri og ekið í um 10 km þar til komið er að öðru skilti sem stendur á Næfurholt (þjóðveg 268). Þar er aftur beygt til vinstri og ekið 15 km síðar eru menn komnir í Svínhaga.

Grettir „hinn góði“ sýndi mér landsvæðið sem hann vill leyfa að keppnin verði á og er ég farinn að halda að þessi braut toppi allt sem gert hefur verið í Endurokeppnum til þessa (meira að segja Ketilás 1998). Brautin verður um 15 km löng og að mestu á grónu landi með ótrúlegum hólum, hliðarhalla, brekkum, ám , lækjum og gilum. Nánast engin drulla og nánast ekkert grjót er í brautinni. Brautin verður hröð á köflum og það mjög hröð, en á móti því koma torfær gil og hægfara hliðarhalla-brekkur.

Um næstu helgi á að leggja brautina og verður öll sú hjálp sem hægt er að fá vel þegin. Það þarf að rífa niður girðingu þar sem ræsing verður og er það nokkurt verk, einnig þarf að útbúa salernisaðstöðu á pitt og á tjaldsvæðinu en hún er hluti af greiðslu frá VÍK til Grettis fyrir afnot af landinu. Grettir „hinn góði“ mun svo kynna hvar má hjóla á landareign hans í framtíðinni. Nú þegar er búið að gera ágætis crossbraut þarna sem verið er að æfa í nánast daglega. Þá er bara að stefna á útilegu um næstu helgi og mæta með góða félagsandann, góða skapið, hamar, nagla, sög, töng eða naglbít og fyrir þá sem mæta verður það launað með því að í reglunum um endurokeppnir segir meðal annars „ekki má nema með sérstöku leyfi frá keppnisstjórn aka keppnisbraut fyrir keppni“. Þessi klausa verður svo nýtt í lok dags fyrir þá sem koma að vinnu í þágu klúbbsins. Fyrir þá sem eiga fjórhjól og pallbíla eru sérstaklega velkomnir því brautin er óvenju löng og ómögulegt er að rogast með allar stikurnar inn í brautina fótgangandi. Hjörtur keppnisstjóri.

Skildu eftir svar