Nornaveiðar

Grátbrosleg umræða er hafin á spjallkorkinum.  Grátleg fyrir það ok sem lagt er á VÍR menn og brosleg fyrir skilningsleysi fulltrúa sýslumanns.

Til að gera 2ja ára sögu stutta þá var stofnað Vélhjólaíþróttafélag Reyknesinga (VÍR).  Félagið er komið með skriflegt leyfi bæjaryfirvalda (landeiganda) fyrir akstri á Broadstreet.  Félagið er komið með tryggingar og búið að uppfylla skilyrði sem önnur félög í öðrum bæjarfélögum hafa þurft að uppfylla.  Samt neitar fulltrúi sýslumanns og leggur það fyrir lögregluembættin að banka upp á hjá fólki ef mótorhjól er fyrir utan.  Gera húsvitjun á félagsfundi VÍR.  Stöðva allar bifreiðar hvar sem til þeirra sést ef þær hafa kerru í aftanídragi með hjóli.

Vefurinn sér sig knúinn til að höfða til lögregluembættanna og sýslumanns.  Við vitum að samskipti Fáfnis í Grindavík við félagasamtök erlendis var vafasöm en vinsamlegast leggið ekki þessa íþrótt á sama borð.  Þetta eru strákar á öllum aldri sem vilja vernda náttúruna og vinna að uppgangi íþróttarinnar.  Þetta gera þeir með því að setja þessi hjól inn á afmarkað svæði sem hefur nú þegar verið notað í 27 ár og bæjaryfirvöld / landeigendur samþykkja.

Einhversstaðar heyrði vefurinn að eitt af skilyrðunum sem sýslumaður hefði sett var að svæðið væri ekki afmarkað fyrr en búið væri að setja girðingu utan um allt svæðið.  Hvernig er með GoKart brautina.  Afhverju þarf motocross braut að uppfylla ný og ný skilyrði.  Vefurinn kom að þessu máli að litlu leyti fyrir rúmu ári síðan.  Svo virðist sem í hvert sinn sem skilyrðum hefur verið mætt býr sýslumaður til enn önnur skilyrði, byggð á eigin túlkun.

Hvað svo sem til er í þessu þá verða menn að leysa vandamálin en ekki búa þau til.  Með þessum aðgerðum sýslumanns verða til fullt af  vandamálum.  Utanvegaakstur, landspjöll, innanbæjarakstur svo eitthvað sé talið upp.  Enda þorir enginn hjólamaður að mæta á motocross brautina sem bæjaryfirvöld hafa gefið leyfi fyrir.

Mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Myrkrahöfðinginn þar sem yfirvaldið tók á göldrum með miklu offorsi á kannski eitthvað sameiginlegt, eða kannski ekki.  Þar var fjallað um galdraofsóknir sem eiga ekkert sameiginlegt með aksturskeppni á mótorhjólum í braut.  Og þó.  Yfirvaldið í myndinn hafði þann sið að brenna meinta galdramenn.  Yfirvaldið í Reykjanesbæ situr fyrir íþróttamönnum, sem eru að æfa sig fyrir íslandsmótið í motocrossi og meinar þeim um æfingar í motocrossbraut Reyknesinga.  Í báðum tilvikum er litið á þetta sem afbrot.  Í báðum tilvikum er þetta glæpur.  Menn eru því afbrotamenn eða glæpamenn.  Í dag, í upplýstu þjóðfélagi, höfum við skömm af þeim aðförum sem yfirvaldið sýndi meðan á þessum galdraofsóknum stóð og biðst vefurinn, sem Íslendingur, afsökunar á öllum þeim voru brenndir og niðjum þeirra.  Vefurinn þekkir marga Reyknesinga sem hafa einnig skömm af fulltrúa sýslumanns í þessu máli.

Ef vefurinn man rétt var yfirvaldið vanað í mynd Hrafns Gunnlaugssonar.

GM

Skildu eftir svar