Bréf frá Hirti Líklegum

Vefnum hefur borist bréf frá Hirti þar sem hann lýsir síðustu keppni, eins og hún kom honum fyrir sjónir.  Af bréfi þessu má ráða að Hjörtur hefur lagt keppnishalds skóna á hilluna.  Við skulum vona að þetta fari eins og með marga aðra góða menn sem hafa gert slíkt hið sama, en þó átt afturkvæmt.

Húsmúlakeppnin séð frá keppnisstjóra.

Þetta var 10 keppnin sem ég stjórnaði og sú 13 sem ég vann við og er ég nú hættur, en að vísu með trega því þrátt fyrir að þetta hafi verið rosalega erfitt var oftast gaman. Það voru nokkrir sem spurðu mig af hverju ég hafi ekki farið prufuhringinn eins og ég er vanur að gera. Svarið er einfalt að ég treysti mér einfaldlega ekki til þess vegna þreytu eftir að hafa verið að leggja brautina allan daginn áður og um morguninn fyrir keppni.

Keppnin var hreint frábær að mínu mati því þetta var alvöru –enduro-keppni. Meðalhraði sigurvega var undir 35 km á kl og var það nákvæmlega það sem ég hugsaði við brautarlagninguna.

Ég vil byrja á því að biðja Friðjón no 100 og Ingólf no 75 afsökunnar á vitleysunni í mér  því eftir að ég kom heim og las reglurnar er greinilegt að þeir máttu gera við hjólin sín hvar sem var eftir að keppni var ræst og þeir komnir út úr girðingunni. Það eina sem má ekki er að setja á hjólið bensín annarsstaðar en inni í pitt. Það á víst að vera mannlegt að gera mistök.

Brautin var lögð af mörgum góðum mönnum þar vil ég fyrst og fremst þakka Yamaha Hauki fyrir að ferja allt efni, áburð, tjaldvagn og hjól upp í braut fyrir mig. Brautin var eins fjölbreitt og landið gat boðið upp á án þess að valda stórskemmdum á landslagi og gróðri.  Svo sé byrjað á brautinni eins og hún lá þá var það skurðurinn sem menn voru ósáttir við vegna stíflunnar sem myndaðist í byrjun, en það var nákvæmlega það sem hann átti að gera. Þeir sem þurftu að bíða lengst þurftu að bíða í 3-4 mín (ég tók tímann). Þetta var gert til þess að allur hópurinn kæmi ekki í einu inn á ljósleiðaraveginn, en það hefði verið stórhættulegt vegna þess hve þúfurnar við hliðina á honum eru stórar og var það sá staður sem ég óttaðist einna mest í brautinni. Það eina sem ég gerði ekki ráð fyrir var rigningin sem vökvaði skurðinn heldur mikið og því fór sem fór að það varð að sleppa skurðinum í lok keppni.

Keppendur fá mikið hól fyrir að brautin var ekin eins og átti að aka hana sem sagt rétt að undanskilinni smá vitleysu í B-keppninni sem var lagað af Spörra fyrir seinni keppnina.

Það var mikið þrengt að keppendum í pittinum, en vegna þess hve keppandafjöldi er orðinn mikill er ekki gott að gera öllum til hæfis. Það var ágætis lausn að láta hvert lið fá eitt bílastæði við pittinn, en það væri sniðugt að hafa bílastæðin 2-300 metra frá pittinum og að þeir sem vilja komast í stæði við pittinn kaupi sér stæði með því að útvega mann í vinnu fyrir keppnisstjórn. Ef slíkt fyrirkomulag hefði verið í þessari keppni hefðu hliðverðir og aðrir starfsmenn verið 13 í viðbót við þá fáu sem á staðnum voru. Sennilegast ágætis hugmynd sem mætti útfæra nánar.

Að keppni lokinni fór ég fram á að keppendur hjálpuðu við að tína saman stikur, borða og rusl. Það voru örfáir sem urðu við þessum tilmælum mínum og hinir ættu að skammast sín að rjúka í burtu og skilja eftir elstu keppendurna og aðstoðarmenn sem voru til kl. 9 um kvöldið að hreinsa brautina. Ef allir hefðu tekið sig saman við hreinsun brautarinnar hefði það tekið í mesta lagi klukkutíma hámark.

Þeim sem ég vil þakka serstaklega eru Jón Magnússon, Viggó Guðmundsson og félagi hans, Haukur Þorsteins og frú, Kjartan Kjartanson og Stebbi og fl, en þeir sem heim fóru ættu að skammast sín, en það eru enn stikur í hrúgum þarna uppfrá sem á eftir að sækja og henda fyrir þá sem skammast sín mikið.

Að fara af stað með keppni af þessari stærðargráðu með aðeins 8 starfsmenn er brjálæði og hef ég nú gefist upp og er þetta því mitt loka bréf í bili. Öll gögn og skipurit fyrir næstu keppni eru til hjá mér  og getur sá sem vill við þessu taka af mér náð í það til mín .

Með þökk fyrir ánæju stundir í gegnum tíðina í keppnum. Sérstaklega vil ég þakka þeim Jóni H. Magnússyni, Viggó Viggósyni og Einari Sigurðssyni sem hafa mætt í allar endurokeppnir frá því að ég hóf störf við þessar keppnr. Sjálfur hef ég verið keppnisstjóri í 10 keppnum, en var aðstoðarkeppnisstjóri í þremur.

Þeim er við taka óska ég velfarnaðar í starfi, en það má alltaf hafa samband við mig um skipulagningu á og keppnishald sé það gert á kristilegum tíma.

Með kveðju Hjörtur L. Jónsson.

P.S. Viggó Guðmundsson (eldri) hefur oftar en einu sinni vitnað í söguna um LITLU GULU HÆNUNA þegar við heöfum verið að hreinsa til eftir keppni og smá ábending til keppanda frá mér að lesa eða láta lesa fyrir sig söguna um LITLU GULU HÆNUNA fyrir næstu keppni.

Skildu eftir svar