Aðalfundur VÍK – þriðjudaginn 12. des kl. 20:00 – Formaður lætur af störfum

Aðalfundur VÍK verður haldinn í Laugardalnum n.k. þriðjudag kl. 20:00. Fundurinn fer fram í sal C í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal við Engjaveg 6. Á boðstólum verður kaffi og með því. Dagskráin verður í samræmi við hefðbundin aðalfundarstörf.

Skv. lögum VÍK er stjórn félagsins kosin á hverju ári. Það á við um formann, stjórnarmenn og varamenn. Flestir stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi starfa en þar sem formaðurinn er fluttur út á land gefur hann ekki kost á sér til endurkjörs. Félagið þarf þá á nýju blóði að halda. Félagið þarf einhvern eða einhverja sem hefur áhuga á uppbyggingu og viðhaldi á því sem snýr að akstri torfæruhjóla í og við Reykjavík á meðal annars. VÍK er stærsta torfæruhjólafélagið innan MSÍ og það heldur flesta keppnisviðburðina sem og stærsta keppnisviðburð ársins. Það sem félagið virkilega þarf eru fleiri hendur til þess að koma að starfinu. Með fleiri höndum og meiri dreifingu á verkefnum verður meira í boði fyrir félagsmenn, hvort sem það eru byrjendur eða lengra komnir, og það verður minni vinna fyrir hverja hönd. Um íslensku tunguna var eitt sinn sungið „Að gæta hennar gildir hér og nú, það gerir enginn nema ég og þú.“ Það á einmitt við um áhugamálið okkar núna.

Þú, já þú, þekkir klárlega einhvern eða einhverja sem væri flottur aðili í þetta hlutverk. Þú ert jafnvel einstaklingur sem átt fullt erindi í þetta starf. Framboð má alveg tilkynna fyrir fundinn á netfangið, vik@motocross.is eða til einhvers í stjórninni. Framboð til stjórnar og varamanns stjórnar eru að sjálfsögðu líka velkomin. Að lokum má nefna að framboð mega einnig alveg koma fram á fundinum. Endilega hafið samband við fráfarandi formann eða aðra stjórnarmenn til þess að fræðast um starfið fyrir fundinn ef þið háfið áhuga á starfinu.

Ef þið þekkið manneskju sem getur sinnt þessu starfi, hvetjið viðkomandi áfram til þess að koma í starfið. En, ekki láta það duga. Komið með viðkomandi og vinnið í starfinu. Við þurfum að manna nefndir sem taka að sér sérhæfð verkefni sem munu ekki gera neitt annað en gera starf VÍK betra. Hefurðu áhuga á e-m sérstökum hluta starfsins? Komdu á fundinn og láttu okkur vita. Það þarf ekki bara að snúa að því að týna steina eða mála grindverk. Við höfum alveg not fyrir tölvukunnáttu í heimasíðuna. Við höfum not fyrir góða og áhugasama penna fyrir heimasíðuna. Við höfum góð not fyrir viðburðaskipuleggjendur fyrir Klaustur, skemmtikvöld og hvað sem fólki dettur í hug.

Komið! Gerum þetta saman!

Stjórn VÍK

Aðeins um frestun á keppni og viðhorf

Í dag tók ég þá ákvörðun að fresta síðustu umferð Íslandsmótsins í motocross-i, sem fara átti fram í Bolaöldu, um sólarhring. Fyrir keppnisdag hafði mér verið bent á veðurspá sem leit ekki vel út. En fram á föstudagskvöld var hún ekki svo ósvipuð fyrir laugardag og sunnudag. Það munaði örfáum metrum á sekúndu og á laugardeginum var spáð 4 mm af rigningu en sunnudeginum 2 mm af rigningu. Fyrir það fannst mér alls ekki vera tilefni til þess að fresta keppninni. Einmitt af því að keppendur hafa gert ráð fyrir þessum degi og mögulega verið með aðrar áætlanir með sunnudag.

Svo þegar ég vakna í morgun blasti við mér ansi ógeðfellt veður. Ég skoðaði spánna aftur og hún var búinn að taka ansi mikinn viðsnúning um nóttina. Nú var spáð 13 eða 15 mm af rigningu og töluvert meira roki. Sem og stormi upp úr hádegi. Ég fór upp í Bolaöldu því reynslan hefur sýnt að það geti munað ótrúlega á veðri þar og í Reykjavík. Þar var veðrið jafnvel verra enn í Hafnarfirði og spáin versnaði enn, en hún spáði því að veðrið myndi ganga niður með kvöldinu og að á morgun eigi að vera mun skaplegra veður.

Ég tók skjáskot áðan af mælingum Vegagerðarinnar af Sandskeiði. K. 16:10 í dag mældust vindhviður á Sandskeiði 27,8 metrar á sekúndu og vindhraði 16,5 metrar á sekúndu. Til samanburðar dettur kaskótrygging á ferðavögnum úr gildi í 24,5 metrum á sekúndu. HÉR má einnig lesa eftirfarandi skilgreiningu á vindstyrk: “

10 Rok 24,5-28,4 Fremur sjaldgæft í innsveitum. Tré rifna upp með rótum, talsverðar skemmdir á mannvirkjum.

Það sem hefði mögulega sloppið í morgun varð að miklu meira en það. Á gefnum tíma hér að ofan hefðum við (starfsfólk) verið búin að standa í þessu veðri síðan kl. 9:00 og værum að raða á línu fyrir síðasta moto.

Svona ákvörðun er ekki auðveld og það er ekki auðveldara að á næsta klukkutímanum komi inn nýr einstaklingur á 5 mínútna fresti og segi manni hversu mikill aumingi og vesalingur maður er. Sérstaklega þegar maður gerir þetta til þess að tryggja öryggi fólks en er ekki að reyna að skemma sportið. Ef eitthvað er, þá veit ég ekki hvað ég á að gera meira fyrir sportið. Ég er formaður tveggja félaga, ég er í stjórn MSÍ og ég er í þessum litlu hópum af fólki sem heldur Klaustur, Hellu, og Bolaöldukeppnirnar. Allt í frítíma mínum.

Ég skil vel að það sé mjög pirrandi að fá að vita það þegar á staðinn er mætt að keppni falli niður. Keppandi og aðstandandi eru að sjálfsögðu undir daginn búnir og keppandi þarf að „harka“ veðrið af sér í 10 mínútna tímatöku og tveimur moto-um sem eru frá 15 mínútum upp í 25 mínútur. Þess á milli getur keppandi skipt um föt, farið inn í bíl/kerru/hús. Flest allir keppa bara annað hvort fyrir eða eftir hádegi.

Starfsfólk (sem er ekki beint að bíða óþreyjufullt í röðum eftir að fá að aðstoða) þarf að standa úti frá 9:30 – 16:45 í þessu veðri. Það er ekki bara óboðlegt þarna uppi á fjöllum heldur verður einbeiting flaggara ansi lítil sem dregur úr öryggisþætti. Þar kemur einmitt inn munurinn á því að vera graður keppandi og sá sem ber ábyrgð á viðburðinum. Keppandinn hugsar um sig og sinn dag en ábyrgðaraðili hugsar um alla. Ef eitthvað alvarlegt kemur fyrir í slíkum aðstæðum verður hjólað beint í þann aðila sem ber ábyrgð á öllu og hann inntur eftir svörum hvers vegna keppni hafi farið fram við þessar aðstæður.

Frestunin var tilkynnt um leið og ákvörðun var tekin. Notast var við samskiptamiðla og heimasíðu félagsins. Að ætlast til þess að allir keppendur fái SMS og tölvupóst við svona ákvörðun er ansi langsótt. T.a.m. geri ég strax ráð fyrir að nothæf símanúmer og netföng keppenda sem skráð eru á þeirra svæði á msisport.is séu allt að því í minnihluta.

Þó að Ísland sé vel þekkt fyrir það að sjúga hreinan sora inn í athugasemdir var ótrúlegt að lesa margt það sem fólk skrifaði um þessa ákvörðun. Sumt af því sýndi fram á svo dapurt viðhorf gagnvart fólki sem gefur tíma sinn í þetta starf og var svo niðurdrepandi fyrir sportið eins og það leggur sig á Íslandi. Hver ætti að hafa áhuga á því að taka upp þetta sport þegar mórallinn og andrúmsloftið er ekki betra en þetta? Hverjar eru líkurnar á því að einhverjir aðilar sem gætu haft minnsta áhuga á að koma inn í starfið geri það þegar þeir vita að þetta eru viðbrögðin við því sem er ákveðið.

Þegar þú sest við lyklaborðið og notar orð eða orðasamböndin aumingi, hálfviti og fáviti, hvert er markmiðið? Hverju á það að skila? Hvernig ertu að bæta eitthvað með því?

Ég veit að einhverjir keppendur komast ekki á morgun að keppa vegna utanlandsferða og annars. Ég harma það og mér þykir það leitt. Þeir sem mæta ekki á morgun af því að þessi ákvörðun fer í taugarnar á þeim verða algjörlega að lifa með því.

Virðingarfyllst

Sigurjón Snær Jónsson

Formaður VÍK

Keppni frestað vegna veðurs!

Vegna veðurs frestum við keppni til morgundagsins, 27. ágúst. Sama dagskrá verður keyrð og átti að vera í dag. Það á að vera stormur í dag og af öryggisástæðum getum við ekki boðið upp þessar aðstæður fyrir keppendur og starfsfólk.

Með von um skilning og ánægjulegt samstarf.

Stjórnin

Dagskrá motocross – verðlaunaafhending í hádeginu

Það er búið að skerpa aðeins á motocross-dagskránni og verður síðasta umferð Íslandsmótsins keyrð í samræmi við hana. Það sem breytist helst er að föst skoðun er komin inn í dagskránna sem og verðlaunaafhending í hádeginu.

Keppendur sem keppa FYRIR hádegi skulu vera mættir og tilbúnir kl. 9:00 í skoðun. Þá munum við hafa léttan keppendafund og skoða hjól, hjálma og slíkt. Verðlaunaafhending vegna flokka sem keyrðir eru fyrir hádegi verður um 13 leytið.

Keppendur sem keppa EFTIR hádegi skulu vera mættir og tilbúnir kl. 12:00 í skoðun. Þá munum við hafa léttan keppendafund og skoða hjól, hjálma og slíkt. Verðlaunaafhending vegna flokka sem keyrðir eru fyrir hádegi verður um 17 leytið.

Þið getið smellt HÉR fyrir dagskránna. En hana er að finna á heimasíðu MSÍ undir Reglur og Motocross dagskrá.

Ég mæli með því að keppendur séu með dagskránna hjá sér á keppnisdag svo að tímaáætlun standist og að allir verði mættir á réttum tíma við starthlið.

Góða skemmtun. 🙂

Armbönd – Start – Skiptisvæði

Armbönd / tímatökubólur – Núna í ár þarf enginn að græja armband fyrir tímatökubóluna á Klaustri. Við erum með ný armbönd sem bólurnar eru í. Armböndin eru númeruð. Þegar þið sækið bólurnar að morgni laugardags, mætið tímanlega, þá takið þið armband með keppnisnúmerinu sem þið fenguð fyrir Klaustur. T.d. er þið eruð fremst í þrímenning, þá takið þið armband númer 300. Við erum reyndar bara með armbönd upp í 600. Þess vegna eru keppendur í járnflokkum með sitt númer í 100 en ekki í 1000. Þannig að fyrsti keppandi í járnflokki er með armband númer 100.

Hérna að ofan getið þið sé mynd af startinu. Finnið á myndinni í hvaða röð þið eruð út frá númerinu ykkar. Það eru 15 keppendur á hverri línu. Vinsamlegast athugið ef þið eruð að koma nálægt þessari keppni í fyrsta skiptið. Einungis einn liðsmaður tekur startið og keyrir í brautinni í einu. Sama röð og er í startinu gildir um skiptisvæðið. Ef þið eruð á fremstu línu eruð þið á fyrsta skiptisvæðinu sem er lengst frá brúnni. Keppendur í járnflokki eru með tvö síðustu svæðin. Vinsamlegast athugið að keppendur í járnflokkum hafa einir heimild til þess að fá aðstoð og til þess að sinna hjóli og knapa á skiptisvæði. Viðgerðir, bensín, næring, gleraugu og hvað annað er óheimlt fyrir aðra keppendur á skiptisvæði. Allt slíkt á að eiga sér stað inni í pit. Keppendur eiga yfir höfði sér víti ef sú regla er brotin.

Tölum svo bara saman ef það er eitthvað og höfum gaman. Við erum eingöngu að þessu til þess. 🙂

Keppendalisti Klaustur 2017

Hér er keppendalistinn og númer. Ef einhverjar breytingar þarf að gera þurfa þær að koma sem allra allra fyrst. Við lokum á allar breytingar eftir sunnudaginn. Eftir sunnudaginn verður nöfnum og númerum á liðum ekki breytt. Ef liðsmaður meiðist eða forfallast eftir þann tíma má finna annan liðsmann en hann verður að taka nafn og númer fyrri liðsmanns.

ATH – við rauð nöfn vantar kennitölur. Þær óskast á vik [a] motocross.is A.S.A.P.


Bolalada