Aðalfundur VÍK verður haldinn í Laugardalnum n.k. þriðjudag kl. 20:00. Fundurinn fer fram í sal C í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal við Engjaveg 6. Á boðstólum verður kaffi og með því. Dagskráin verður í samræmi við hefðbundin aðalfundarstörf.
Skv. lögum VÍK er stjórn félagsins kosin á hverju ári. Það á við um formann, stjórnarmenn og varamenn. Flestir stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi starfa en þar sem formaðurinn er fluttur út á land gefur hann ekki kost á sér til endurkjörs. Félagið þarf þá á nýju blóði að halda. Félagið þarf einhvern eða einhverja sem hefur áhuga á uppbyggingu og viðhaldi á því sem snýr að akstri torfæruhjóla í og við Reykjavík á meðal annars. VÍK er stærsta torfæruhjólafélagið innan MSÍ og það heldur flesta keppnisviðburðina sem og stærsta keppnisviðburð ársins. Það sem félagið virkilega þarf eru fleiri hendur til þess að koma að starfinu. Með fleiri höndum og meiri dreifingu á verkefnum verður meira í boði fyrir félagsmenn, hvort sem það eru byrjendur eða lengra komnir, og það verður minni vinna fyrir hverja hönd. Um íslensku tunguna var eitt sinn sungið „Að gæta hennar gildir hér og nú, það gerir enginn nema ég og þú.“ Það á einmitt við um áhugamálið okkar núna.
Þú, já þú, þekkir klárlega einhvern eða einhverja sem væri flottur aðili í þetta hlutverk. Þú ert jafnvel einstaklingur sem átt fullt erindi í þetta starf. Framboð má alveg tilkynna fyrir fundinn á netfangið, vik@motocross.is eða til einhvers í stjórninni. Framboð til stjórnar og varamanns stjórnar eru að sjálfsögðu líka velkomin. Að lokum má nefna að framboð mega einnig alveg koma fram á fundinum. Endilega hafið samband við fráfarandi formann eða aðra stjórnarmenn til þess að fræðast um starfið fyrir fundinn ef þið háfið áhuga á starfinu.
Ef þið þekkið manneskju sem getur sinnt þessu starfi, hvetjið viðkomandi áfram til þess að koma í starfið. En, ekki láta það duga. Komið með viðkomandi og vinnið í starfinu. Við þurfum að manna nefndir sem taka að sér sérhæfð verkefni sem munu ekki gera neitt annað en gera starf VÍK betra. Hefurðu áhuga á e-m sérstökum hluta starfsins? Komdu á fundinn og láttu okkur vita. Það þarf ekki bara að snúa að því að týna steina eða mála grindverk. Við höfum alveg not fyrir tölvukunnáttu í heimasíðuna. Við höfum not fyrir góða og áhugasama penna fyrir heimasíðuna. Við höfum góð not fyrir viðburðaskipuleggjendur fyrir Klaustur, skemmtikvöld og hvað sem fólki dettur í hug.
Komið! Gerum þetta saman!
Stjórn VÍK