Klaustur? En ég keyri ekki enduro… En ég er ekkert fyrir svona keppnisstand…

Ertu nýliði eða telur þú þig ekki eiga erindi á Klaustur Off Road Challenge vegna þess að þú keyrir ekki enduro eða ert ekki fyrir svona keppnisstand!?! Veistu, það skiptir engu máli. Klaustur er torfæruhjólaviðburður fyrir einstaklinga sem hafa gaman af því að keyra torfæruhjól í góðum hóp. Jú, þetta er kallað keppni og jú það er keppt til verðlauna en það er bara afsökun. Brautin að Ásgarði er glæsileg. Hún er öllum fær. Hún liggur að mestu um grashóla og hæðir og fer svo út á sandeyrar. Það eru engar erfiðar hindranir sem krefjast reynslu og hæfileika á borð við Graham Jarvis en þó án þess að það komi niður á skemmtanagildinu. Hingað hafa komið heimsþekktir enduro-ökumenn á borð við David Knight, þeir færustu á sínu sviði, og þeir hafa skemmt sér konunglega í þessari keppni.

Try

Útsýnið í kringum brautina er einnig glæsilegt þannig að þetta er eins og að vera fastur í Inspired by Iceland auglýsingu. Það má segja að brautin “sé opin“ í 6 klukkutíma þar sem þú færð tækifæri til þess að keyra til skiptis með vini þínum, vinkonu, maka, mömmu, pabba, syni, dóttur, afa, ömmu, frænda eða frænku.

Ef þú telur það vera of mikið að keyra til skiptis með einum öðrum keppanda í 6 klukkutíma, vertu þá bara með tveimur öðrum keppendum. Í boði eru þriggja keppenda flokkar. Á meðan einn keppandinn er úti, eruð þið hinir keppendurnir á pitt-svæðinu að ræða hversu skemmtilegur síðasti hringur var. Algengar aukaverkanir eru hin ýmsu hljóð og handahreyfingar sem eiga að gefa í skyn hvernig hjólið hagaði sér og hvernig beygjan eða brekkan var tækluð.

Stemningin og spennan sem myndast líka fyrir startið og í startinu er ólýsanleg. Það er algjörlega eðlilegt að vera taugatrekktur þegar það er verið að raða á línurnar. Það að “herðingurinn“ aukist þegar nær dregur starti er fullkomlega eðlilegt. Svo dettur allt í dúnalogn, dautt start, rétt áður en allir rjúka af stað. Lognið á undan storminum er alveg magnað og það skiptir ekki máli hversu stressaður keppandi getur orðið, á míkrósekúndunni sem lærvöðvarnir fá skipun um að sparka sveifinni niður er það allt horfið. Fyrir þá sem hafa “hamingjuhnapp“ eiga þumalvöðvarnir þó við. Hjólið dettur í gang og þá hefst gamanið fyrir alvöru.

Ef þú hefur áhyggjur af hraðari ökumönnum, þá er það algjör óþarfi. Þeir eru vanir keppnismennsku og eiga ekki í erfiðleikum með að finna örugga leið framhjá þér. Þar að auki læðist enginn óvænt upp að þér. Þú tekur eftir viðkomandi nógu tímanlega til þess að slaka bara aðeins á gjöfinni og færa þig í kantinn. Ef þú hlustar vel heyrirðu jafnvel: “Taaakk…..!“

Ef þú vilt prófa eitthvað nýtt á árinu 2016, komdu þá á Klaustur.

Ef þú vilt eiga einn alvöru hjóladag á árinu 2016, komdu þá á Klaustur.

Svo að þú missir ekki af neinu, þá endilega smelltu á Like/Follow á eftirfarandi síðum. Twitter, Instagram og Facebook Smelltu svo sérstaklega HÉR!.

Ef þú hefur einhverjar spurningar, sendu þá póst á vik@motocross.is, farðu inn á Klaustur Off-Road og sendu okkur skilaboð þar eða spurðu næsta hjólara þegar þú ferð út að hjóla.

 

Sjáumst á Klaustri.

 

Virðingarfyllst

Sigurjón Snær Jónsson

“Klaustur“ (Bolaalda) 2009

Klaustur 2010

Klaustur 2015

 

ps. Það hefur reyndar komið fyrir besta fólk að það prófar þessa keppni og það getur ekki hætt. Björtu hliðarnar á því eru þær að hreyfing og góður félagsskapur eru góð fyrir líkama og sál.

Skildu eftir svar