VÍK stendur fyrir æfingum barna og unglinga í sumar

VÍK mun í sumar standa fyrir skipulögðum æfingum fyrir yngstu aldurshópana og byrjendur. Þetta hefur lengi verið á verkefnalistanum og nú verður þetta loks að veruleika. Félagið hefur fengið til liðs við sig nokkra af reyndustu ökumönnum og leiðbeinendum landsins til að halda regluleg námskeið í sumar.
Félagið hefur ennfremur samið við ÍTR þannig að allir 18 ára og yngri sem búsettir eru í Reykjavík geta nýtt sér Frístundakortið til að greiða fyrir æfingarnar. Æfingagjöld eru mjög hagstæð en innifalið í gjaldinu er árskort í brautir VÍK.

125/250 flokkur
Þeir Aron Ómarsson og Örn Sævar Hilmarsson sem reka Motocrossskólann hafa tekið að sér æfingar fyrir ökumenn 15 ára og eldri byrjendur á 125 2t / 250 4t hjólum. Farið verður í helstu grunnatriði í hjólatækni s.s. líkamsbeitingu, beygju og bremsutækni, stökkæfingar, öryggi í brautum og almenna umgengni við hjólið og aðra ökumenn.
Æfingagjald frá 22. júní til 20. ágúst er 35.000 kr.

85/150 flokkur
Gunnlaugur Karlsson mun sjá um æfingar fyrir 85 cc flokkinn (85 2t / 150 4t) eða aldurinn 11-14 ára. Helstu æfingar fyrir þennan flokk verða líkamsstaða, leikni á hjólinu í beygjum, bremsu og stökkæfingar. Æfingagjald frá 22. júní til 20. ágúst er 25.000 kr.

50-65 flokkur
Helgi Már Hrafnkelsson mun sjá um æfingar fyrir minnstu púkana á 50-65 cc hjólum eða aldurinn ca 6-10 ára. Þessi hópur fær létta leiðsögn sem byggir mikið á því að gera hjólið að skemmtilegu leiktæki. Áhersla verður á öryggi og að ökumaðurinn læri vel á öll grunn- og öryggisatriði hjólamennskunnar áður en lengra er haldið. Æfingagjald frá 22. júní til 20. ágúst er 18.000 kr.

Æfingar allra hópa fara fram á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 18-19.30.

Ef aðsókn verður góð á æfingarnar verður mögulega bætt við leiðbeinendum og fleiri tímasetningum.
Allar æfingar verða haldnar í Bolaöldu eða Álfsnesi eftir aðstæðum. Gert er ráð fyrir að allir komi sér sjálfir (þ.e. foreldrar keyri) á æfingarnar.

Skráning á æfingar fer fram í gegnum vef félagsins www.motocross.is undir Æfingar 2009. Þar er hægt að greiða fyrir æfingarnar með greiðslukorti. Skráning hefst 14.júní.

Frístundakortið
Til að nýta Frístundakortið (aðeins fyrir 18 ára og yngri búsetta í Reykjavík þarf að fara þessa leið.
1. Þú skráir þig á æfingarnar á www.motocross.is og merkir við “Frístundakort”.
2. VÍK skráir þig á Rafræn Reykjavík.
3. Forráðamaður þinn úthlutar Frístundakortsstyrknum (allt að 18.000 kr.) upp í æfingarnar hjá VÍK fyrir tímabilið 1. júní – 31. ágúst.
4. Mismunurinn er svo greiddur til VÍK með millifærslu eða korti í gegnum www.motocross.is

Markmið VÍK með æfingastarfinu er að byggja upp kröftugt barna og unglingastarf félagsins til framtíðar en öll æfingagjöld renna óskipt í æfingastarfið. Skipulagðar æfingar frá upphafi er grundvöllur þess að bæta kunnáttu og öryggi yngstu ökumannanna og stuðlar að bættri umgengni og virðingu fyrir umhverfinu.

2 hugrenningar um “VÍK stendur fyrir æfingum barna og unglinga í sumar”

Skildu eftir svar