Sýknaður af ákæru um utanvegaakstur

Af mbl.is:  Rúmlega fertugur karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur til að greiða tíu þúsund krónur í sekt fyrir að hafa laugardaginn 3. júní 2006, ekið torfærubifhjóli án lögboðins skráningarmerkis í suðurátt eftir ómerktum slóða í vesturhlíð Hengils á Ölfusafrétti, sveitarfélaginu Ölfusi.
Í skýrslu lögreglu kemur fram að lögreglan hafi 3. júní s.l., í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands, farið í eftirlitsflug með utanvegaakstri í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. Áhersla hafi verið lögð á að kanna viðkvæm gróðursvæði eins og Hellisheiði, Hengil og hálendið ofan Árnessýslu. Til eftirlitsins hafi verið

notuð þyrla LHG, TF-Líf. Þurrt hafi verið í veðri og sólskin. Lagt hafi verið upp frá Selfossflugvelli um kl. 17:10 og flogið sem leið lá vestur yfir Þrengsli og Hellisheiði
Þaðan hafi verið flogið til norðurs yfir Hengil.  Þegar flogið hafi verið yfir vestanverða hlíð Hengils, hafi lögreglan séð hvar þremur torfæruhjólum hafi verið ekið í suður eftir stíg eða götu sem greinilegt var að torfæruhjólum hafði verið ekið um.
Segir ennfremur í skýrslu lögreglunnar að flugstjóri þyrlunnar hafi lent skammt frá ökumönnum torfæruhjólanna, enda höfðu þeir stöðvað aksturinn. Þá hafi lögreglumaður farið og rætt við ákærða og kynnt honum ástæðu afskipta lögreglunnar en það hafi verið ætlaður utan vega akstur ákærða.
Við nánari skoðun á torfærubifhjóli ákærða á vettvangi hafi komið í ljós að engin skráningarmerki voru á hjólinu, heldur einungis skráningarnúmer hjólsins límt á það með svörtum stöfum.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að í umferðarlögunum eru hvergi gerðar lágmarkskröfur til vegar, svo að vegur falli undir skilgreininguna. Í 3. gr. reglugerðar nr. 528/2005, um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands, sem sett er á grundvelli 17. gr. náttúruverndarlaganna, er vegur skilgreindur sem varanlegur vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað er að staðaldri til umferðar.
Í framburði ákærða fyrir dómi kom fram að umræddur slóði væri vel greinilegur í náttúrunni og hefði verið títt ekinn af torfæruökumönnum. Þá kvað lögreglumaður, fyrir dómi að umræddur slóði væri augljós í náttúrunni og greinilega ekki nýr. Af myndum sem teknar voru úr þyrlu Landhelgisgæslunnar úr lofti má sjá slóðann greinilega. Það verður því að telja umræddan slóða vera greinilegan og varanlegan í náttúru Íslands.
Í málinu er ákært fyrir að hafa ekið ómerktan slóða en bæði ákærði og lögregluþjónn sem hafa báðir borið fyrir dómi að slóðinn sé ómerktur, þ.e. að hvorki sé merki um að umferð eftir honum sé heimil, né óheimil vélknúnum ökutækjum.
Í umferðarlögunum er ekki gerður áskilnaður um að vegur þurfi að vera merktur á tiltekinn hátt til þess að falla undir skilgreiningu laganna á „vegi“, hvort sem átt sé við merkingar á viðkomandi vegi eða að vegurinn sé merktur inn á landakort.
Af öllu framangreindu virtu og þar sem ekkert í gögnum málsins gefur annað til kynna, verður að telja umræddan götuslóða falla undir skilgreiningu 2. gr. umferðarlaganna og 3. gr. rgl. nr. 528/2005, sem „vegur“. Með vísan til framangreinds verður því að telja umræddan slóða vera veg í skilningi laganna og akstur ákærða hafi því ekki verið utan vega eins og honum er gefið að sök í ákæru og því ber að sýkna ákærða af þessum hluta ákærunnar. Ákæru er þannig háttað að ekki er ákært fyrir akstur torfærutækis á grundvelli 6. gr. rgl. nr. 528/2005.
Þá var ákærða einnig gefið að sök að hafa ekið torfærubifhjólinu án lögboðins skráningarmerkis. Í 63. gr. umferðarlaganna segir að áður en torfærutæki sé tekið í notkun skuli skráningarmerki sett á það. Í c-lið 64. gr. umferðarlaganna segir að ráðherra setji reglur um skráningarmerki. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, segir að skráð ökutæki skuli merkt með skráningarmerki sem Umferðarstofa láti í té. Í skýrslutöku fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa ekki verið með skráningarmerki útgefið af Umferðarstofu á torfærubifhjóli sínu og er sök hans að þessu leyti því sönnuð.
Að öllu framangreindu virtu og því að ákærði hefur ekki unnið til refsingar áður samkvæmt sakarvottorði sem liggur frammi í málinu, þykir refsing hans hæfilega ákveðin 10.000 kr. sekt í ríkissjóð sem greiðast skal innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en ella sæti ákærði fangelsi í 2 daga.

Skildu eftir svar