Af tilefni umfjöllunar Stöðvar 2 í dag

Sælir, við skulum halda ró okkar yfir þessari umræðu. Hestamenn hafa unnið vel í sínum málum og eiga fullan rétt á þeim vegum sem þeir leggja. Hjól og hestar fara ekki vel saman og við eigum að sjálfsögðu að reyna að komast hjá því að rekast á.

Umhverfisnefnd vélhjólafélaganna (áður VÍK) er þessa dagana að vinna með Umhverfisstofnun og fulltrúum fleiri opinberra aðila til að leita leiða til að fá aðstoð ríkis og sveitarfélaga til að leggja "mótorhjólreiðvegi" sambærilega við reiðvegi hestamanna. Vonandi sjáum við þá vinnu skila árangri fyrr en seinna.

En það eru tvö aðskilin mál sem hafa verið í fjölmiðlum í dag.

A) Mótorhjól á reiðvegum.
Mótorhjól ættu ekki að vera á reiðvegum sbr. ábendingar hér á vefnum og áróður sem VÍK hefur rekið í mörg ár. Óskráð og ótryggð hjól eiga að sjálfsögðu alls ekki að sjást á reiðvegum né annars staðar. Allir sem mæta hestum, hvar sem þeir eru staddir eiga að sjálfsögðu að víkja út í kant og drepa á hjólunum umsvifalaust og bíða þar til þeir eru komnir vel framhjá. Þetta ættu allir að þekkja og virða. Bíll og kerra út fyrir þéttbýli er málið.

Sjálfur bý ég rétt við Rauðavatnið auk þess sem konan mín er mjög áhugasamur hestamaður og ég tel mig því þekkja vel til beggja aðila. Að hennar mati er minni traffík og tillitssamari hér en undanfarin ár. Ég þarf ekki annað en leggja við hlustir um helgar til að komast að sömu niðurstöðu. Miðað við þá fjölgun sem orðið hefur í okkar sporti undanfarin fimm ár, uþb. 2-3000 hjól þá fullyrði ég að umferð á stígunum ofan borgarinnar hefur síst aukist og líklega minnkað stórlega á síðustu árum, sérstaklega með tilkomu Bolöldusvæðisins.

B) Öryggismál hestamanna.
Slys á hestum er sjálfsagt allt of tíð og sjálfsagt mál að við gerum allt til að komast hjá því að valda slíkum slysum. Við höfum ekki heyrt staðfest dæmi þess að slys tengist mótorhjólaumferð á reiðvegum eða annars staðar. Það skýtur því skökku við þegar sú tenging er dregin fram í umræðuna. Eru hestamenn að fókusa á raunverulega vandamálið eða er verið beina athygli fréttamanna í aðrar áttir?

Hestamennska í þéttbýli hefur það óhjákvæmilega í för með sér að hestamenn þurfa að umgangast aðra útivistarhópa. Að mér vitandi þarf enga lágmarks reynslu í reiðmennsku eða standast próf í meðferð hesta. Hestar þurfa ekki neina lágmarksþjálfun t.d. innan gerðis eða í námunda við umferð né standast próf þess efnis að þeim sé treystandi í þéttbýli. Það eru engar kröfur gerðar um lágmarks öryggisbúnað s.s. endurskinsmerki, hálskraga, olnbogahlífar eða annað sem þætti sjálfsagt þegar áhættan er umtalsverð eins og dæmin sanna. Væri ekki hestamönnum nær að fara í góða og raunsæja naflaskoðun á eigin áhættu frekar en benda í allar áttir að blórabögglum? Með því vil ég alls ekki skorast undan ábyrgð mótorhjólamanna, síður en svo en hvet hestamenn einfaldlega til að horfa ekki síður í eigin barm áður en þeir benda á aðra sem blóraböggla í þessari umræðu.

Og varðandi þau ummæli að hestamenn hafi reynt að funda með okkur þá er það í fyrsta skipti sem ég hef heyrt af þeim málaleitunum. Síminn minn er hins vegar 669 7131 ef formaður Landssambands hestamanna vill óska eftir fundi með okkur en það hefur hann amk. ekki gert hingað til!

Hvað mótorhjólamanninn sem Stöð 2 ræddi við í dag varðar þá má hann alveg átta sig á því að hann gerði sportinu lítinn greiða í dag – hjólið þitt á heima á kerru og inn á lokuðu svæði, punktur. Og by the way – ég ætla að vona að þú hafir sýnt sóma þinn í því að kaupa þér miða í brautina í dag.

Kveðja,
Hrafnkell Sigtryggsson
formaður Vélhjólaíþróttaklúbbsins

Skildu eftir svar