Ótrúlegir hlutir að gerast við Bolöldu

Í gær fimmtudag voru fjórar jarðýtur að vinna í brautinni við Bolöldu og var ótrúlegt að fylgjast með ganginum þar í gær. Ed Bradley er kominn til landsins og stýrði uppbyggingunni á brautinni í allan dag og langt fram á kvöld. Brautin er þegar farin að taka á sig góða mynd og lofar alveg hrikalega góðu. Meðal annars kom til skjalanna 50 tonna jarðýta frá Bolöldunámuverktökunum nágrönnum okkar en ýtan nánast færði fjöll þegar hún mætti á

svæðið. Síðan voru þrjár minni ýtur í því að laga til bílastæði, geðveikan startkafla og fleiri spennandi staði. Efnið sem kemur upp úr köntunum og tjörninni neðst í gryfjunum er ótrúlega fínt og í raun margfalt betra en við þorðum að vona. Það er því líklegt að talsvert margir verulega góðir þéttir sandkaflar verði í brautinni. Ed er búinn að stilla upp nokkrum pöllum sem verða bara hrikalega flottir. Afsakiði lýsingarorðin en grínlaust – þetta svæði verður meiriháttar! Mæli með því að menn kíki á þetta um helgina og sjái sjálfir hvað er að gerast.

 Á næstunni verður líka farið í það að leggja fleiri skemmtilega enduroslóða um svæðið og upp í Jósepsdal. Þá verður brautin frá því í fyrra löguð verulega og sléttuð þannig að hún verði fær fyrir bæði byrjendur og vana ökumenn. Fyrir helgina verður ennfremur lögð byrjendabraut rétt við bílastæðið sem allir ættu að geta nýtt sér. Auk þessa er margt annað í undirbúningi sem sagt verður frá síðar. Kv. Keli formaður.

Skildu eftir svar