Þriðja umferðin í Íslandsmótinu – Álfsnes

Þriðja umferð íslandsmótsins í motocrossi fór fram á nýrri braut VÍK í Álfsnesi laugardaginn 23 ágúst. Keppnin fór vel fram, mikil fjöldi áhorfenda kom á staðinn og brautin var betri en nokkur þorði að vona. Veðurguðirnir voru okkur hliðhollir og var þurrt alla vikuna og einnig á keppnisdag.

Tveir Sænskir gestir tóku þátt í keppninni, þeir Fredrik Johanson og Morgan Carlson en þeir hafa keppt í motocross frá barnæsku í Svíþjóð og eru í dag atvinnumenn í freestyle eftir að hafa lagt stígvélin á hilluna í motocrossinu. Þeir voru hér á landi á vegum Team Suzuki og kepptu fyrir hönd liðsins sem gestir.

Það er skemmst frá því að seigja að gestirnir voru í sérflokki og munaði þar mest um hraða þeirra í gegnum beygjurnar. Í A-flokki var Viggó Viggósson í nokkrum sérflokki meðal íslensku keppendanna en þó vantaði nokkuð upp á að hann næði þeim hraða sem Svíarnir voru að aka á. Ragnar Ingi var nokkuð langt frá sýnu besta en náði þó að sigra Viggó í síðasta móto. “Yamaha Haukur” varð þriðji af íslendingunum og var jöfn og hörð barátta á milli Ragga, Hauks og Einars Púka. Einar var þó óheppinn þegar hjól hans bilaði í öðru mótoi og náði hann ekki að klára. Hann keppti á 125cc hjóli í síðustu umferð og það vantaði mikið uppá að hann hefði afl til þess að fylgja toppmönnunum eftir.

Í B-flokki voru Gullarnir í nokkrum sérflokki. Hörð barátta var um þriðja sætið allan tímann og fór Egilstaðabúinn Hjálmar Jónsson með sigur af hólmi í þeirri baráttu. Það má eflaust vænta mikils af Hjálmari í framtíðinni. Í 125cc flokki voru breytingar frá fyrri keppnum þar sem Kári Jónsson og Ágúst Már Viggósson tóku óvænt þátt í þeim flokki eftir að hafa setið hjá í allt sumar. Þetta var ánægjuleg viðbót en þó vildum við gjarnan sjá fleiri keppendur í þessum flokki í framtíðinni.

Í kvennaflokki voru úrslitin í takt við það sem við höfum séð í sumar og er ánægjulegt hvað stelpurnar eru duglegar að vera með.

Í 80cc flokki voru miklar sviptingar og spenna. Sigurstranglegasti keppandinn Aron Ómarsson datt óvænt úr leik í fyrri umferð vegna bilunar í hjóli hans og tapaði þar með dýrmætum stigum. Þar með sannaðist hið gullna orðatiltæki að: “það er ekki búið, fyrr en það er búið”. Freyr Torfason sigraði eftir að hafa keyrt sig upp í þriðja sæti úr því síðasta í öðru móto.

Rétt er að geta þess að Formaður ÍSÍ, Ellert B. Schram vígði brautina formlega með því að ræsa keppendur í A-flokki. Auk þess voru margir góðir gestir á svæðinu og má þar nefna Lopa (Heimir Barðason) og Siv Friðleifsdóttur en þau hafa að öðrum ólöstuðum unnið einna mest að því að gera draum okkar að veruleika. Þ.e. keppnissvæðið okkar í Álfsnesi sem oft er nefnt “Lopavellir” í daglegu tali. Að lokum vill Motocrossnefnd þakka öllum þeim sem haft lagt hönd á plóginn undanfarnar vikur til þess að þessi stórkostlegi dagur yrði að veruleika.  Kveðja „Motocrossnefnd”

Skildu eftir svar