Vefmyndavél

Allt um VÍK

Innan torfæruvélhjólaíþróttarinnar eru starfræktir nokkrir klúbbar á landsvísu sem vinna að framgangi íþróttarinnar. Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK) er þeirra stærstur og er hagsmunafélag þeirra sem keppa og ferðast á torfæruvélhjólum. Fjölgun torfæruhjóla hefur verið mikil undanfarin ár, enda um sérlega spennandi og skemmtilega íþrótt að ræða en auk þess eru mjög margir sem nýta torfæruhjól til ferðalaga um landið.

VÍK stendur fyrir fjölda keppna á hverju ári, aðallega í tveimur greinum: motocross og enduro. Motocross er kappakstur þar sem ekin er stutt hringlaga keppnisbraut með manngerðum stökkpöllum og beygjum. Enduro er eins konar þolaksturskeppni þar sem ekið er á mun stærra svæði í náttúrulegu landslagi, á vegum og á slóðum. Mikill fjöldi ökumanna tekur þátt í keppnum á vegum félagsins á ári hverju en áætlað er að allt að 5000 torfæruhjól sé að finna í landinu. Til marks um umfang íþróttarinnari má nefna að árlega taka allt að fjögur hundruð ökumenn þátt í endurokeppninni Atlantic Off-Road Challenge, sem haldin er í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Þessi keppni mun vera stærsta akstursíþróttakeppni og ein fimmta fjölmennasta íþróttakeppni sem haldin er hérlendis.

Vélhjólaíþróttaklúbburinn hefur frá stofnun félagsins 1978 barist ötullega fyrir því að fá viðunandi og varanlega æfingaaðstöðu fyrir félagsmenn sína. Árið 2003 fékk félagið úthlutað motocrosssvæði í nágrenni Reykjavíkur sem nýtist motocrossmönnum vel til æfinga og keppni í. Árið 2005 samdi VÍK ennfremur við Sveitarfélagið Ölfus um afnot af Bolaöldusvæðinu og Jósepsdal fyrir íþróttina. Bæði þessi svæði eru í uppbyggingu og er mikið verk óunnið ennþá. Svæðin leysa þó einungis hluta vandans enda einungis hluti vélhjólamanna sem stundar þá grein íþróttarinnar og mikil þörf fyrir skýrari skilgreiningar og aðgengi að vegum og slóðum.

Félagsgjald VÍK er fljótt að borga sig!
Félagsgjald VÍK er aðeins 5000 krónur og með því að greiða félagsgjaldið styður þú starf VÍK.

Miðar í brautirnar munu fást í sumar á bensínstöð Olís Norðlingarhollti og í Litlu kaffistofunni. 

Félagsgjald og árskort saman 
Félagsmenn í VÍK geta keypt árskort sem gildir í bæði enduroslóða og motocrossbrautir í Álfsnes og Bolaöldu.

  • Almennt félagsgjald 5.000 kr.
  • Félags- og brautargjald sameinað í eitt – kostar aðeins 15.000 kr.
  • Aðgangur er ókeypis fyrir 85cc tvígengis/150cc fjórgengis hjól og minni, æskilegt að vera félagsmenn.
  • Stakur miði í braut 3.000 kr. í bæði motocross og endurobrautir