Nýr formaður hefur tekið við

Í fyrrakvöld fór fram aðalfundur VÍK 2017. Mætingin á fundinn hefði klárlega mátt vera betri en við þökkum þeim fyrir sem komu og tóku þátt í fundahöldum. Það sem helst ber að nefna eftir þennan fund er það að Sigurjón Snær Jónsson lét af störfum sem formaður VÍK eftir tveggja ára setu í því starfi og við tók nýr formaður. Garðar Atli Jóhannsson, betur þekktur sem Gatli, tók við hlutverkinu. Gatli hefur verið í sportinu í þó nokkur ár og bjó tímabundið erlendis þar sem hann stundaði sportið einnig. Fyrir þau ykkar sem hafa komið á Klausturskeppnina að Ásgarði, þá er brúin góða við skiptisvæðið handverk Gatla. Þannig að hann hefur heldur betur sett mark sitt á Klausturskeppnina góðu. Við bjóðum Gatla velkominn til starfa og óskum honum góðs gengis í starfi sínu sem formaður VÍK.

Stjórn félagsins hafði ekki mannaskipti þetta árið en tveir stjórnarmenn skiptu með sér hlutverkum. Guðbjartur Stefánsson vék úr aðalstjórn og færði sig yfir í varatjórn. Í staðinn fór Daði Þór Halldórsson úr varastjórn yfir í aðalstjórn. Hér að ofan má sjá stjórnina ásamt nýjum formanni. Ýmis verkefni voru rædd á fundinum t.d. slóðarnir í Bolaöldu og virkjun á nefndum félagsins. Félaginu vantar hendur í verkefni ársins og óskum við því eftir fólki sem hefur áhuga á að koma í skemmtilegt félagsstarf með okkur. Það er úr ýmsu að moða og ef einhver þarna úti er með góða hugmynd fyrir verkefni hjá félaginu sem viðkomandi er tilbúinn að vinna í er um að gera að hafa samband við stjórnina. Við erum í viðræðum við herramann sem hefur áhuga á að taka yfir skrif á heimasíðu félagsins. Félagið býr yfir tveimur heimasíðum eftir að Klausturskeppnin fékk sína eigin heimasíðu og ef það er e-r þarna úti sem hefur áhuga á að koma að viðhaldi og breytingum á heimasíðum félagsins má viðkomandi endilega hafa samband við stjórn félagsins.

Stjórnin (Ekki Sigga og Grétar)

Skildu eftir svar