Slóðar í Bolaöldu opnir – ATH – farið með varúð

Jósepsdalur

Slóðarnir eru hér með opnir í Bolaöldu. Á nokkrum stöðum er samt smá snjór í slóðunum. Ekki fara framhjá snjónum til þess að færa slóðann. Farið í gegnum snjóinn. Sama á við ef um bleytu er að ræða og farið rólega í gegnum hana.

Við minnum svo á að gjaldskylt er í slóða VÍK.

Hittumst hress og kát í Bolaöldu og svo á Klaustri. 🙂

 

Stjórnin

Bolaalda – Motocrossbrautirnar opna í hádeginu á morgun 14.5.17

 

Þessi mynd er tekin 13.5.17 við undirbúning brautarinnar.

Á morgun, sunnudaginn 14.5.17 kl. 12:00 á hádegi, ætlum við að opna motocrossbrautirnar í Bolaöldu. Við höfum ekki komist í að skoða slóðana en við munum gera það á morgun og láta vita hvort þeir séu tilbúnir eða ekki. Við hvetjum flesta til þess að koma núna þegar rakastigið er flott eftir veturinn. Við minnum á dagspassana og árskortin. Hægt verður að kaupa bæði á staðnum en annars minnum við á ÞETTA og miðasöluna okkar á Olís Rauðavatni.

Stjórnin

Bolaalda er lokuð – Brautir og slóðar

Af gefnu tilefni viljum við benda á að Bolaöldusvæðið er lokað. Við erum ekki farnir að vinna í motocross-brautunum og getum því ekki tryggt að þær séu öruggar. Það er mjög líklega búið að renna úr þeim og það gætu verið hættulegir skurðir í þeim. Slóðarnir eru líka ennþá of blautir og akstur á þeim gæti valdið tjóni sem við þurfum að búa við í allt sumar. Þau ykkar sem vilja æfa fyrir Klaustur hefðuð átt að skella ykkur í Hellukeppnina og svo bendum við á Þorlákshöfn að svo stöddu. Við munum auglýsa það vel og rækilega þegar svæðið opnar. Fram að því biðjum við um að svæðið fái að vera friðað svo að við getum gert hlutina rétt.

Stjórnin

1. umferð Íslandsmótsins í Enduro 2017 – Hella

Sverrir lét sig ekki vanta frekar en fyrri daginn. Smellið á myndina til þess að sjá allar myndirnar hans úr keppninni.

VÍK hélt fyrstu umferðina í Íslandsmótinu í enduro á Hellu um helgina. Veðrið var algjörlega frábært með sól og hita sem gerði það enn skemmtilegra að horfa á keppnina. Það var góð þátttaka í keppninni og talsvert af áhorfendum. Nokkrir höfðu það á orði að þetta minnti á gömlu stemninguna og erum við í stjórninni alveg sammála því og það þykir okkur skemmtilegt. Við vonum að það sé að lifna meira yfir þessu skemmtilega sporti okkar.

Úrslit dagsins má finna HÉR. Þeim hefur verið breytt frá verðlaunaafhendingu. Það kom upp atvik, sem lesa má betur um í linknum sem er hér aðeins framar, sem þurfti að leggjast yfir og ræða fram og aftur. Á keppnisstað þurfti að taka ákvörðun en þegar rykið hafði sest og fleiri hliðar á málinu höfðu verið skoðaðar kom í ljós að það var ekki endilega besta lendingin á málinu. Það hefur verið leiðrétt hér með og er það gert í góðu með skilningi þeirra sem að málinu koma. Það er nú alltaf gott þegar það er hægt að leysa málin með því að ræða þau í sátt og samlyndi. Við biðjum alla sem ræða atvikið að gæta orða sinna og muna að það er auðvelt að koma með sína skoðun á málinu án þess að þurfa að taka ábyrgð á lokaniðurstöðunni. Við skulum ekki láta þetta atvik vera til þess að talað sé á neikvæðan hátt um keppnishaldið eða sportið. Tölum sportið upp sama hvar við erum og með hverjum. Þannig byggjum við það upp og gerum það betra.

Stjórn VÍK vill þakka þeim sem komu og aðstoðuðu með einum eða öðrum þætti. Þeim sem komu að leggja brautina. Þeim sem komu að taka saman brautina með okkur. Þeim sem komu að vakta brautina og keppendur á meðan keppni stóð. Flugbjörgunarsveitinni á Hellu fyrir aðstoð við að fá svæðið og með því að leggja til sjúkrabíl sem þurfti því miður að bregðast við einu atviki sem leiddi til þess að sjúkrabíll kom frá Selfossi og sótti einn keppanda. Okkur skilst að það hafi ekki verið jafn slæmt og það leit út í fyrstu sem er bót í máli þó að slysalaus keppni sé augljóslega það sem við myndum alltaf vilja sjá.

Ef þú ert með móral yfir því að hafa ekki komið á Hellu þá geturðu unnið það upp í lok mánaðarins. Klausturskeppnin er 27. maí n.k. og má sjá allt sem þarf um hana HÉR. Við minnum þó á að skráningarfresturinn á hana rennur út n.k. sunnudagskvöld á miðnætti.

 

HÉR er svo MYNDBAND sem þið hreinlega verðið að sjá úr keppninni. Birgir Georgsson tók þetta á dróna við þessar frábæru aðstæður sem voru þarna og það sést mjög vel í þessu myndbandi.

 

Stjórnin

Bein tímaútsending – Live timing

Smellið á myndina fyrir tímaútsendinguna

Á morgun ætlum við að prufukeyra beina tímaútsendingu úr enduro-kerfinu. Þorgeir Ómarsson tímatökuvörður og Sigurbjörn Jónsson eru búnir að leggja á ráðin og smíða eitthvað sem ég kann ekki að útskýra. Ef þið smellið á myndina endið þið á síðunni sem mun birta tímastöðuna í rauntíma á meðan keppni stendur. Flokkarnir sem eru þar inni núna eiga eftir að detta út og þeir réttu koma inn þegar við störtum. Við viljum benda á að þetta er prufukeyrsla og það á eftir að koma í ljós hvernig þetta gengur. Okkur þætti vænt um það ef einhver eða einhverjir tækju sig til og fylgdust með útsendingunni. Ef það koma upp villur eða vandamál, væri mjög gagnlegt að fá að vita hvers eðlis það er. Athugasemdir mega komu við stöðufærslurnar á Facebook þar sem við dreifðum þessari færslu.

Athugið að heildarúrslit dagsins koma ekki fram í lokin. Þetta verður bara rauntímakeyrsla.

Hella – nokkrir punktar

Á morgun fer keppnin á Hellu fram og dagskrá dagsins má sjá HÉR.

Við skulum mæta tímanlega og vera tilbúin í skoðun kl. 10:00.

Í framhaldi af skoðun verður farinn prufuhringur fyrir þá sem vilja fara einn hring áður en keppnin hefst. Við förum í prufuhringinn ekki seinna en 10:40. Ef allir verða búnir í skoðun og allt er klárt þá förum við fyrr.

Í framhaldi af prufuhringnum röðum við á startið. Fremstur er meistaraflokkurinn, næst á eftir er tvímenningurinn og svo restin fyrir aftan tvímenning.

Meistaraflokkurinn startar fyrstur kl. 11:20.

Tvímenningur startar einni mínútu seinna eða kl. 11:21.

Restin startar mínútu eftir það eða kl. 11:22.

Á þessum tveimur mínútum sem beðið er setjum við hjólin ekki í gang. Við s.s. setjum hjólin EKKI í gang á milli starta. Sko, EKKI í gang.

Allir aðrir en meistaraflokkur og tvímenningur eru svo flaggaðir út fyrr. Þá verður keppendum tilkynnt að B-flokkur sé búinn. Ef þú ert ekki í meistaraflokk eða tvímenning þýðir það að keppni sé lokið hjá þér að sinni.

Eftir seinni umferðina skulum við svo öll leggjast á eitt að taka saman brautina. Verðlaunaafhendingin verður ekki fyrr en allar stikur eru komnar í pit.

Bínubúlla verður á staðnum sem sér til þess að fólk geti fengið sér góðan bita. Bæði áhorfendur og keppendur.

Við minnum svo á keppnisviðaukann í tryggingum. Án hans ERTU EKKI TRYGGÐ/UR Í KEPPNI. Það ber engin ábyrgð á því annar/önnur en þú sjálf/ur.

Við sjáumst eldhress á morgun á Hellu. 🙂

 

Bolalada